Intel ber sigur úr býtum gegn framkvæmdastjórn ESB

Markaðurinn birti í dag grein eftir Helgu Melkorku Óttarsdóttur eiganda og Vilhjálm Herrera Þórisson fulltrúa á LOGOS.

Réttlætisgyðjan

Þann 26. janúar síðastliðinn kvað undirréttur (e. General Court) Evrópudómstólsins (e. Court of Justice of the European Union) upp dóm í máli nr. T-286/09 RENV og felldi ákvörðun framkvæmdastjórnar ESB (e. European Commission) að hluta til úr gildi, með þeim afleiðingum að sekt að fjárhæð 1,06 milljarð evra var felld niður að fullu. Þarf framkvæmdastjórnin því að endurgreiða Intel sektina auk vaxta og álags.

Í ákvörðun sinni hafði framkvæmdastjórnin komist að þeirri niðurstöðu að Intel hefði misnotað markaðsráðandi stöðu sína á markaði fyrir svonefnd „x86 miðverk“ (e. central processing units, CPU), m.a. með innleiðingu tryggðarafsláttarkerfis sem gaf viðskiptavinum kost á afslætti gegn því að kaupa einungis eða að stórum hluta miðverk af Intel.

Mat framkvæmdastjórnarinnar byggði meðal annars á því að háttsemin hefði haft skaðleg áhrif á samkeppni með vísan til mats á því hvað jafn skilvirkur keppinautur (e. as efficient competitor) þyrfti að rukka fyrir sambærilega vöru til þess að vera arðbær, en framkvæmdastjórnin tók einnig fram að ekki þyrfti að sýna fram á neitt slíkt mat með vísan til dómafordæma, sem gjarnan eru kennd við Hoffman-La Roche dóminn frá árinu 1979.

Undirréttur Evrópudómstólsins staðfesti ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar í heild sinni árið 2014 með vísan til sömu röksemdafærslu og birtist í ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar, að háttsemin fæli í eðli sínu í sér misnotkun á markaðsráðandi stöðu, og því væri óþarfi að leggja mat á það hvort háttsemin hefði haft samkeppnislega hamlandi áhrif í reynd.

Þeirri ákvörðun var skotið til yfirdeildar dómstólsins, sem komst að þeirri niðurstöðu árið 2017 í máli nr. C-413/14 að undirrétturinn þyrfti að taka málið aftur til skoðunar þar sem hann hafi ekki lagt sérstakan dóm á mat framkvæmdastjórnarinnar á áhrifum háttseminnar (sem undirrétturinn taldi óþarft með vísan til dómafordæma).

Dómur yfirdeildarinnar vakti verðskuldaða athygli á sínum tíma. Taldi dómurinn að þau fordæmi sem undirrétturinn og framkvæmdastjórnin byggðu á væru rangtúlkuð og m.a. vegna þess þyrfti að fara fram ný sönnunarfærsla.

Það sem vekur sérstaka athygli er að skilningur framkvæmdastjórnarinnar í ákvörðun sinni frá árinu 2009 og undirréttarins í dómi sínum frá árinu 2014, er sá sami og Samkeppniseftirlitið hefur lagt til grundvallar í málum sem byggja á 11. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005. Dæmi um slíka túlkun má sjá í ákvörðun nr. 40/2014, Misnotkun Securitas hf. á markaðsráðandi stöðu sinni, bls. 33-34.

Undirréttur Evrópudómstólsins dró eftirfarandi ályktanir af dómaframkvæmdinni í samræmi við leiðbeiningar yfirdeildarinnar:

  1. Þrátt fyrir að leiða megi líkum að því að tiltekið afsláttarfyrirkomulag feli í sér misnotkun á markaðsráðandi stöðu er ekki þar með hægt að fullyrða að um brot sé að ræða.
  2. Ef markaðsráðandi fyrirtæki sýnir fram á (s.s. með hagfræðigreiningum) að tiltekin háttsemi hafi ekki verið til þess fallin að hafa skaðleg áhrif á samkeppni verða samkeppnisyfirvöld að framkvæmda ítarlega rannsókn á áhrifum háttseminnar á grundvelli viðurkenndra sjónarmiða.
  3. Ef samkeppnisyfirvöld rannsaka áhrif háttsemi með hliðsjón af prófinu um jafn skilvirkan keppinaut (e. as efficient competitor test) verður að taka tillit til niðurstöðu þess við mat á því hvort háttsemin sé til þess fallin að raska samkeppni.

Dómstóllinn framkvæmdi ítarlegt mat á greiningu framkvæmdastjórnarinnar á eðli hins meinta brots, m.a. með hliðsjón af gögnum sem Intel lagði fram. Taldi framkvæmdastjórnin að þau gögn væru til þess fallin að skapa vafa eða ágreining um réttmæti niðurstöðu framkvæmdastjórnarinnar. Með vísan til þeirrar ströngu sönnunarbyrði sem hvílir á herðum samkeppnisyfirvalda væri ótækt að leggja greiningu framkvæmdastjórnarinnar til grundvallar, og því var nauðsynlegt að ógilda hina áfrýjuðu ákvörðun.

Niðurstaða dómstólsins kann að greiða leiðina fyrir aukna áherslu á mat á áhrifum af háttsemi á samkeppni í stað þess að slík niðurstaða sé gefin vegna eðli hins ætlaða brots. Á það einkum við þegar hið markaðsráðandi fyrirtæki getur sýnt fram á að engin útilokunaráhrif felist í háttsemi þess, með stuðningi við sannreynanleg gögn.

Þá kann niðurstaða dómstólsins að leiða til þess að auknar kröfur verði lagðar á rannsókn og sönnunarfærslu samkeppnisyfirvalda í rannsóknum á brotum gegn 11. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005.

Greinin í Markaðinum.

Sérfræðingarnir okkar

Tengdar greinar