Aðgerðir ESB á sviði sjálfbærra fjármála

Aðgerðir ESB á sviði sjálfbærra fjármála

Nýverið sendi LOGOS út fréttabréf, þar fjalla Helga Melkorka Óttarsdóttir og Ólafur Arinbjörn Sigurðsson eigendur hjá LOGOS um aðgerðir ESB á sviði sjálfbærra fjármála.

Fréttabréfið má lesa í heild sinni hér.

Aðgerðir ESB á sviði sjálfbærra fjármála

Í lok árs 2019 samþykkti Evrópusambandið þrjár nýjar reglugerðir í samræmi við aðgerðaáætlun sína á sviði sjálfbærra fjármála. Reglugerðunum er ætlað að auðvelda fjárfestum að velja sjálfbærar fjárfestingar og stýra þannig flæði fjármagns einkaaðila í átt að sjálfbærum lausnum. Þetta, ásamt framlagi úr opinberum sjóðum aðildarríkjanna, á að fjármagna sjálfbært hagkerfi Evrópu. Reglugerðirnar varða EES-samninginn og munu því koma til með að hafa gildi hér á landi.

Gildissvið reglugerðanna, sérstaklega þeirra um sjálfbæra upplýsingagjöf og sjálfbært flokkunarkerfi, teygir sig víða. Þær taka til þátttakenda á fjármálamarkaði og fjármálaráðgjafa sem þýðir, með öðrum orðum, að hún nær til allra banka og fjárfestingafélaga sem bjóða upp á eignastýringu eða fjárfestingaráðgjöf, stjórnenda verðbréfasjóða, sérhæfðra sjóða, áhættufjárfestingarsjóða og lífeyrissjóða, o.fl.

Sjálfbær upplýsingagjöf

Í reglugerð um sjálfbæra upplýsingagjöf eru lagðar fram samræmdar reglur um skyldur þátttakenda á fjármálamarkaði og fjármálaráðgjafa til þess að auka gagnsæi sitt hvað varðar samþættingu sjálfbærniáhættu við fjárfestingaákvarðanir og fjármálaráðgjöf og hvernig tekið er tillit til neikvæðra áhrifa þeirra á sjálfbærni. Upplýsingarnar ber að birta á vefsíðum, lýsingum fyrir samningsgerð og reglubundnum skýrslum. Markaðsefni má ekki stangast á við þessar upplýsingar.

Sjálfbært flokkunarkerfi

Hugtakið umhverfissjálfbær atvinnustarfsemi er skilgreint í reglugerð um sjálfbært flokkunarkerfi. Atvinnustarfsemi þarf að uppfylla fjögur skilyrði svo hún geti talist umhverfissjálfbær; hún þarf að stuðla verulega að nánar tilteknum umhverfismarkmiðum, má ekki skaða eitt eða fleiri umhverfismarkmið verulega, þarf að uppfylla nánar tiltekna varnagla og fylgja fyrirmælum tæknilegra viðmiða frá framkvæmdastjórn ESB. Reglugerðin setur upplýsingaskyldur á herðar þátttakenda á fjármálamarkaði um þau umhverfismarkmið sem fjármálaafurðir þeirra stuðla að.

Sjálfbær viðmiðunargildi

Reglugerð um sjálfbær viðmiðunargildi bætir tveimur nýjum tegundum sjálfbærra viðmiðunargilda við reglugerð (ESB) 2016/1011 um vísitölur sem notaðar eru sem viðmiðanir fyrir fjármálagerninga og fjárhagslega samninga eða til að mæla árangur fjárfestingarsjóða. Umsjónaraðilum slíkra viðmiðunargilda er, meðal annars, gert að velja, meta eða útiloka undirliggjandi eignir þeirra á grundvelli þess hvort þær samræmist markmiðum Parísarsáttmálans (EU Paris-aligned Benchmark) eða hvort sameiginlegur útblástur þeirra fari minnkandi (EU Climate Transition Benchmark).

Ákvæði reglugerðanna taka smám saman gildi á næstu tveimur árum og hlutar þeirra hafa þegar öðlast gildi innan ESB. Þeim félögum sem falla undir gildissvið reglugerðanna er því gefinn naumur tími til að aðlaga sig að breytingunum sem þær hafa í för með sér.

 

Óskir þú eftir aðstoð eða nánari upplýsingum um ofangreint vinsamlegast hafðu samband við Helgu Melkorku Óttarsdóttur eða Ólaf Arinbjörn Sigurðsson, eigendur á LOGOS og sérfræðinga í sjálfbærum fjármálum.