Áform um frumvarp til nýrra laga um greiðsluþjónustu (PSD2)

Áform um frumvarp til nýrra laga um greiðsluþjónustu (PSD2)

Í dag sendi LOGOS út fréttabréf á þá sem skráðir eru á póstlista um fjármálaþjónustu og regluverk. Fréttabréfið má lesa í heild sinni hér fyrir neðan. 

Bendum einnig áhugasömum á möguleikann á að skrá sig á póstlistann.

Áform um frumvarp til nýrra laga um greiðsluþjónustu (PSD2)

Þann 16. júlí síðastliðinn birtist á Samráðsgáttinni áform fjármála-og efnahagsráðherra um frumvarp til nýrra laga um greiðsluþjónustu. Með frumvarpinu er ætlunin að innleiða tilskipun ESB nr. 2015/2366 (PSD2) og fella um leið lög nr. 120/2011 um greiðsluþjónustu úr gildi, en þau lög innleiddu tilskipun ESB nr. 2007/64/EB (PSD1). Stefnt er að því að leggja fram frumvarpið fyrir Alþingi í janúar 2021 og að lögin taki gildi þann 1. júlí 2021.

Heildarendurskoðun laganna er ætlað að samræma þær reglur sem gilda hérlendis við þær sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu og megintilgangur fyrirhugaðs frumvarps er að auka samkeppni á sviði greiðsluþjónustu, efla eftirlit með nýjum aðilum á greiðsluþjónustumarkaði og efla upplýsingaöryggi og neytendavernd.

Helstu breytingar með fyrirhuguðu lagafrumvarpi eru þær að gildissvið laganna rýmkar og nýir aðilar, svokallaðir greiðsluvirkjendur og reikningsupplýsingaþjónustuveitendur, falla nú undir gildissvið laganna. Eftirlit með umræddum aðilum verður bætt og um leið munu þeir geta fengið aðgang að greiðslureikningum neytenda, með þeirra samþykki, hjá bönkum í gegnum netskilakerfi (e. online interface) sem bönkum ber að bjóða upp á.

Gert er ráð fyrir því að framseld reglugerð ESB 2018/389 um sterka sannvottun og örugg boðskipti taki gildi um leið og endurskoðuð lög um greiðsluþjónustu, þ.e. 1. júlí 2021, en komi ekki að fullu til framkvæmda fyrr en 10. janúar 2022. Þetta hefur þá þýðingu að greiðsluþjónustuveitendur sem veita reikningsþjónustu (bankar) skulu vera tilbúnir með prófunarumhverfi (e. testing facility) við gildistöku laganna. Sex mánaða prófunartíma á netskilaflötum (e. online interface) hjá bönkum gagnvart þriðju aðilum skal vera að fullu lokið 10. janúar 2022.

Þá er gert ráð fyrir að í kjölfar gildistöku nýrra greiðsluþjónustulaga muni Seðlabanki Íslands setja reglur til innleiðingar afleiddra gerða greiðsluþjónustutilskipunarinnar.

Óskir þú eftir aðstoð eða nánari upplýsingum um ofangreint vinsamlegast hafðu samband við Benedikt Egil Árnason eða Ólaf Arinbjörn Sigurðsson, meðeigendur á LOGOS, eða Frey Snæbjörnsson, verkefnastjóra.

Benedikt Egill Árnason

Benedikt Egill Árnason

Ólafur Arinbjörn Sigurðsson

Ólafur Arinbjörn Sigurðsson

Freyr Snæbjörnsson

Freyr Snæbjörnsson