Áhrif COVID-19 á upplýsingaskyldu skráðra félaga

Áhrif COVID-19 á upplýsingaskyldu skráðra félaga

Í ljósi áhrifa COVID-19 faraldursins er ljóst að félög sem hafa fengið hlutabréf sín skráð í kauphöll þurfa að gefa upplýsingaskyldu sérstakan gaum um þessar mundir. Í þessari samantekt er vikið stuttlega að nokkrum spurningum sem reikna má með að forsvarsmenn skráðra félaga séu að velta fyrir sér um þessar mundir og okkur þykir rétt að koma á framfæri.

Geta félög gengið út frá því að einhverjar tilslakanir séu í gildi í ljósi þess að óviðráðanlegar ytri aðstæður séu yfirstandandi?

Nei.

Í öllum aðalatriðum hvílir áfram sú meginskylda á skráðum félögum að birta opinberlega allar þær innherjaupplýsingar sem þau varðar eins fljótt og auðið er. Eins og í venjulegu árferði þurfa forsvarsmenn skráðra félaga að leggja mat á það hvort til staðar séu á vettvangi félagsins upplýsingar sem hefðu, ef opinberar væru, marktæk áhrif á verð hlutabréfa félagsins. Í þessu sambandi er rétt að minna á þær reglur sem gilda um meðferð innherjaupplýsinga og þann möguleika að fresta birtingu innherjaupplýsinga, að uppfylltum tilteknum skilyrðum.

Nú hefur gengi hlutabréf félags lækkað verulega. Veitir það einhverjar tilslakanir frá skyldum félagsins?

Nei.

Forsvarsmenn margra félaga telja, eðlilega, að gengi hlutabréfa þeirra hafi þegar orðið fyrir áhrifum COVID-19 faraldursins. Alkunna er að COVID-19 hefur haft veruleg áhrif á hlutabréfamarkað hér á landi og annars staðar í heiminum. Virðast nánast engar atvinnugreinar undanskildar í þeim efnum. Þessi staðreynd veitir hins vegar skráðum félögum engan afslátt af skyldum sínum gagnvart markaðnum. Hin almennu áhrif á öll félög eru ljós en hins vegar ber skráðum félögum að vera vakandi fyrir því að greina markaðnum frá því hvernig ástandið kann að hafa áhrif á þau sérstaklega, allt eftir því sem við á í hverju tilviki fyrir sig. Í þessu sambandi er rétt að minna á að skyldan til þess að birta innherjaupplýsingar á jafnt við hvort heldur sem upplýsingarnar eru líklegar til þess að hafa marktæk áhrif á verð hlutabréfanna til hækkunar eða lækkunar. Huga ber sérstaklega að því á vettvangi einstakra félaga hvort til staðar séu ákvæði í samningum sem taka mið af aðstæðum eins og þeim sem nú ríkja sem upplýsa þarf sérstaklega um. Hér getur t.d. verið um að ræða afleiðusamninga, fjármögnunarsamninga eða annað.

Hvaða spurningum ættu forsvarmenn skráðra félaga að vera að velta fyrir sér nú með hliðsjón af upplýsingaskyldunni?

Þær tegundir spurninga sem forsvarsmenn ættu að vera velta fyrir sér myndu varða raunveruleg og möguleg áhrif faraldursins, og viðbrögð við þeim, á starfsemi, fjárhag og framtíðarhorfur, þ.m.t. yfirstandandi uppgjörstímabil. Þessar spurningar gætu falið í sér einhver af eftirfarandi atriðum, en hvert félag ætti að huga að því að gera tæmandi lista sem sérsniðinn er að þeirra rekstri.

  • Eru komnar fram upplýsingar, eða eiga forsvarmenn von á því að það komi fram upplýsingar, sem sýna fram á marktæk áhrif á sölu félagsins, að teknu tilliti til allra þátta? Eru áhrifin í samræmi við væntingar markaðarins?

 

  • Hvaða áhrif eru komin fram, eða hvaða áhrif er gert ráð fyrir að komi fram, hvað varðar sjóðstreymi og handbært fé? Eru vænt áhrif í samræmi við væntingar markaðarins?

 

  • Er félagið að upplifa, eða á félagið von á því að standa frammi fyrir, marktækum áhrifum á framboði aðfanga? Hvaða möguleika á félagið á því að afla aðfanga annars staðar frá? Eru áhrifin í samræmi við væntingar markaðarins?

 

  • Hversu miklum óbeinum áhrifum stendur félagið frammi fyrir að teknu tilliti til áhrifa COVID-19 á helstu gagnaðila félagsins, hvort heldur sem er almenna viðskiptavini, birgja, dreifingaraðila, kröfuhafa eða samstarfsaðila? Eru einhver slík áhrif til staðar umfram það sem markaðurinn hefur væntingar til (þ.m.t. keðjuverkandi áhrif)?

 

  • Hver eru áhrif COVID-19 á starfsfólk félagsins? Hversu berskjaldað er félagið og til hvaða áhrifa hefur verið gripið til draga úr áhrifum?

 

  • Er félagið í stakk búið til þess að takast á við þær áskoranir sem fylgja COVID-19 og standa við lagalegar skuldbindingar sínar á sama tíma, t.d. hvað varðar lög um persónuvernd?

 

  • Hverjar eru neyðaráætlanir félagsins verði félagið fyrir marktækum áhrifum varðandi einhver af ofangreindum atriðum?

 

  • Er félagið berskjaldað fyrir einhverjum sérstökum áhættuþáttum eða hefur félagið gripið til einhverra sérstakra mótvægisaðgerða sem markaðurinn hefur ekki verið upplýstur um?

Lykilatriði er að ná utan um, og viðhalda, fullnægjandi skilningi á áhrifum COVID-19 á rekstur og fjárhagsstöðu félagsins og hugleiða að hvað marki það kynni að hafa áhrif á gengi verðbréfa þess, ef þær upplýsingar yrðu gerðar opinberar, hvort sem heldur til hækkunar eða lækkunar.

Ef spurningar vakna, óskað er eftir nánari upplýsingum eða ráðgjöf má hafa samband við Ólaf Arinbjörn Sigurðsson, meðeiganda á LOGOS.

Ólafur Arinbjörn Sigurðsson

Ólafur Arinbjörn Sigurðsson