Áhrif COVID-19 faraldursins í verktakarétti

Áhrif COVID-19 faraldursins í verktakarétti

Í verktakarétti geta afleiðingar útbreiðslu COVID-19 haft margskonar áhrif í verkum, t.a.m. skortur á mannafla og efni til framkvæmda og þá getur verið til staðar réttur til framlengingar verktíma, auk þess sem aðilar verksamninga geta mögulega sett fram viðbótarkröfur.

Mikilvægt að hafa í huga svokölluð force majeure ákvæði, sem taka til óviðráðanlegra og ófyrirsjáanlegra ytri atvika, er kunna að ákveðnum skilyrðum uppfylltum að leysa samningsaðila frá efndum samnings eða fresta skuldbindingum.

Auk þess er áríðandi að tilkynna viðsemjanda strax um þau atvik er kunna að leiða til vanefnda á samningsskuldbindingum og áhrif þeirra á framkvæmd viðkomandi samnings.

Mat á force majeure

Þegar metið er hvort COVID-19 faraldurinn og afleidd áhrif hans geti talist force majeure atvik þarf annars vegar að meta hvort faraldurinn sjálfur geti talist slíkt atvik, og hins vegar hvort tilteknar afleiðingar faraldursins geti talist til force majeure atvika.

Svo hægt sé að bera fyrir sig force majeure ákvæði þurfa þó önnur skilyrði fyrir beitingu slíkra ákvæða einnig að vera uppfyllt. Við slíkt mat þarf að hafa eftirfarandi í huga.

  • Er ómögulegt fyrir samningsaðila að efna samninginn vegna útbreiðslunnar?
  • Er hægt að sýna fram á bein orsakatengsl milli atviksins sem um ræðir og ómöguleikans?
  • Hefur verið gripið til eðlilegra ráðstafana til að koma í veg fyrir ómöguleikann?

Ef vafi er á hvort force majeure nái yfir viðkomandi aðstæður gæti í vissum tilvikum komið til álita að beita ákvæðum 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Ákvæðið kveður á um að heimilt sé að víkja samningi til hliðar í heild eða að hluta, eða breyta, ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig.

Framlenging á verktíma

Samkvæmt grein 5.2.2 (c) ÍST 30 getur verktaki krafist framlengingar á verktíma ef óviðráðanleg ytri atvik, sem verktaka verður ekki kennt um, tálma framkvæmdum verulega. Ljóst er að COVID-19 faraldurinn gæti fallið hér undir og þær aðgerðir sem stjórnvöld hafa gripið til í kjölfar hans og hafa áhrif á samningsaðila í verktakarétti, en það þarf þó að meta í hverju tilviki fyrir sig. Við slíkt mat gæti komið til álita að líta til þeirra aðgerða sem aðili hefur gripið til vegna faraldursins. Réttur til framlengingar skapar almennt séð þó ekki sjálfkrafa rétt til viðbótarkrafna.

Breytingar á samningsfjárhæð

Þrátt fyrir framangreint má benda á grein 5.1.13 í ÍST 30 en samkvæmt greininni geta báðir aðilar krafist breytinga á samningsfjárhæð ef fram koma á samningstímabilinu breytingar á lögum, almennum stjórnvaldsfyrirmælum eða aðrar breytingar er hafa áhrif á kostnað verktaka eða verkkaupa, til hækkunar eða lækkunar sem reglur um verðbreytingar í samningi endurspegla ekki.

Því væri hægt að halda því fram að greinin feli í sér almenna heimild til að krefjast breytinga á samningsfjárhæð og að COVID-19 faraldurinn og fyrirmæli stjórnvalda í kjölfar hans falli undir breytingar sem hafi áhrif á kostnað aðila.

Ljóst er að það er að mörgu að huga í tengslum við útbreiðslu COVID-19 faraldursins og áhrifa hans í verktakarétti.

Ef óskað er eftir nánari upplýsingum eða ráðgjöf má hafa samband við Benedikt Egil Árnason, Erlend Gíslason eða Hjördísi Halldórsdóttur, meðeigendur á LOGOS.

Benedikt Egill Árnason

Benedikt Egill Árnason

Erlendur Gíslason

Erlendur Gíslason

Hjördís Halldórsdóttir

Hjördís Halldórsdóttir