Annar aðgerðarpakki stjórnvalda vegna efnahagslegra áhrifa COVID-19

Annar aðgerðarpakki stjórnvalda vegna efnahagslegra áhrifa COVID-19

Undir lok mars kynnti ríkisstjórn fyrstu fyrirhuguðu viðbragðsaðgerðir vegna heimsfaraldursins COVID-19. Var fyrirtækjum og einstaklingum í erfiðleikum boðin hin ýmsu úrræði, s.s. greiðslufrestur staðgreiðslu og tryggingargjalds, endurgreiðsla virðisaukaskatts og sérstakur barnabótaauki. LOGOS tók saman helstu atriði þeirra aðgerða sem finna má hér.

Efnahagsleg áhrif aukast eftir því sem faraldurinn dregst á langinn. Þann 21. apríl sl. kynnti ríkisstjórnin framhald efnahagsaðgerða sinna vegna áhrifa faraldursins og hefur LOGOS tekið saman helstu atriði.

Lokunarstyrkir

Um ræðir rekstrarstyrki vegna fyrirmæla um lokun starfsemi til þeirra sem loka þurftu starfsemi eða var óheimilt að veita þjónustu samkvæmt auglýsingu heilbrigðisráðherra um takmarkanir á samkomum vegna farsóttar á tímabilinu frá 24. mars til og með 3. maí 2020. Sækja ber um styrkinn til Skattsins fyrir 1. september nk. og er áætlað að afgreiða styrki innan tveggja mánaða. Greiðsla styrks er háð því að:

 • tekjur í apríl 2020 hafi dregist saman um að minnsta kosti 75% samanborið við apríl 2019.
 • tekjur á rekstrarárinu 2019 hafi að minnsta kosti verið 4,2 milljónir króna.
 • opinber gjöld sem komin voru á eindaga fyrir lok árs 2019 séu ekki í vanskilum.
 • bú rekstraraðila hefur ekki verið tekið til slita eða gjaldþrotaskipta.

Styrkurinn getur að hámarki númið 800.000 króna fyrir hvern starfsmann miðað við febrúar 2020 eða samtals 2,4 milljónir króna. Að jafnaði verður miðað við að styrksfjárhæðin skuli vera sú sama og rekstrarkostnaður fyrirtækisins á tímabilinu sem starfsemi var lokuð eða óheimilt var að veita þjónustu. Engar kvaðir eru á því hvernig nota má styrkinn en hann telst til skattskyldra tekna skv. lögum um tekjuskatt nr. 90/2003, þó ekki til skattskyldrar veltu skv. lögum um virðisaukaskatt nr. 50/1988.

Stuðningslán

Hafi tekjur dregist saman um að minnsta kosti 40% á 60 daga samfelldu tímabili árið 2020 miðað við sama tímabil árið 2019 geta fyrirtæki sótt um stuðningslán er nemur allt að 10% af tekjum þess á rekstrarárinu 2019, þó að hámarki 6 milljónum króna.

Rekstrarlánið er hugsað til minni fyrirtækja í lægð vegna faraldursins en hægt er að sækja um bæði lokunarstyrk og stuðningslán. Lán af þessu tagi skulu vera til 30 mánaða og bera sömu vexti og vextir af sjö daga bundnum innlánum lánastofnana hjá Seðlabanka Íslands hverju sinni. Auk skilyrða um samdrátt þurfa lánþegar að uppfylla eftirfarandi skilyrði:

 • Tekjur árið 2019 hafi að lágmarki verið 9 milljónir króna og að hámarki 500 milljónir króna.
 • Launakostnaður hafi verið að minnsta kosti 10% af rekstrarkostnaði árið 2019.
 • Ekki hafi verið greiddur út arður, óumsamdir kaupaukar, keypt eigin hlutabréf, greitt af víkjandi láni fyrir gjalddaga eða lán eða aðrar greiðslur veittar eigendum eða nákomnum aðilum sem ekki eru nauðsynlegar til að viðhalda rekstrarhæfi frá 1. mars 2020 og út þann tíma sem ábyrgðar ríkissjóðs nýtur við.
 • Rekstraraðili sé ekki í vanskilum sem hafa staðið lengur en 90 daga við lánastofnanir.
 • Rekstraraðili sé ekki í vanskilum með opinber gjöld, skatta og skattsektir og álagðir skattar og gjöld byggjast ekki á áætlunum vegna vanskila á skattframtölum og skýrslum síðastliðin þrjú ár áður en umsókn barst eða síðan hann hóf starfsemi ef það var síðar.
 • Bú rekstraraðila hefur ekki verið tekið til gjaldþrotaskipta og hann hefur ekki verið tekinn til slita.
 • Ætla megi að rekstraraðili verði rekstrarhæfur þegar bein áhrif heimsfaraldurs kórónuveiru og aðgerða stjórnvalda til að verja útbreiðslu hennar eru að mestu liðin hjá.

Lánið má einungis nýta í þeim tilgangi að standa undir rekstrarkostnaði lánþega en ekki til afborgunar eða endurfjármögnunar annarra lána. Hægt verður að sækja um stuðningslán til loka árs 2020.

Tekjuskattsjöfnun

Gengið er lengra í nýkynntum aðgerðum ríkistjórnarinnar er varðar tekjuskattsjöfnun en áður var greint frá. Fyrri aðgerðir miðuðust við að lögaðilar gætu frestað fyrirframgreiðslu tekjuskatts vegna 2019 fram á síðari hluta ársins 2020. Er nú ráðgert að lögaðilar með takmarkaða ábyrgð geti frestað álögðum tekjuskatti vegna 2019 þegar álagning liggur fyrir og jafna má móti tapi ársins 2020 þegar það raungerist við álag á árinu 2021. Þannig má nýta fyrirhugað tap með afturfæranlegum hætti en hámark þess skatts sem heimilt verður að fresta greiðslu á nemur 20 milljónum króna, sem jafngildir skattstofni að fjárhæð 100 milljónum króna.

Hvatt til nýsköpunar

Í þeim tilgangi að byggja upp atvinnugreinar, fjölga störfum og auka hagvöxt hefur ríkisstjórnin gripið til ákveðinna aðgerða sem greiða eiga fyrir nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi. Þannig verður endurgreiðslum vegna rannsókna og þróunar flýtt og fjármögnun sprota- og vaxtafyrirtækja útfærð með mótframlögum og fjárfestingu. Þá verður einnig sótt fram í matvælaframleiðslu, m.a. með nýsköpun og markaðssetningu.

Félagsleg og efnahagsleg úrræði til handa einstaklingum

Aðgerðir stjórnvalda sem snúa beint að einstaklingum eru félagslegar og efnahagslegar.  Annars vegar er ætlunin að skapa tímabundin náms- og atvinnutækifæri fyrir námsmenn, bótaþega og aðra. Hins vegar er stutt með frekari hætti við þá hópa sem eru sérstaklega viðkvæmir vegna samfélagslegra afleiðinga COVID-19. Þannig er áhersla lögð á að gæta að geðheilbrigði og fjarþjónustu, vernd fyrir börn og viðkvæma hópa ásamt því að efla nýsköpun og list, auk þess að greiða fyrir vegi til virkni í námi og starfi.  

Aðgerðarhópur LOGOS vegna COVID-19

Hjá LOGOS er að störfum starfshópur sem greinir lögfræðileg álitaefni tengd COVID-19 faraldrinum. Jafnframt starfa á stofunni sérfræðingar á öllum sviðum lögfræðinnar. Ef spurningar vakna um úrræði stjórnvalda vegna faraldursins eða um önnur lögfræðileg álitaefni má hafa samband við Einar Baldvin Axelsson, Helgu Melkorku Óttarsdóttur eða Jón Elvar Guðmundsson, meðeigendur á LOGOS.

24. apríl 2020

Einar Baldvin Axelsson

Einar Baldvin Axelsson

Helga Melkorka Óttarsdóttir

Helga Melkorka Óttarsdóttir

Jón Elvar Guðmundsson

Jón Elvar Guðmundsson