Efndir og mögulegar vanefndir samningsskuldbindinga á tímum COVID-19

Efndir og mögulegar vanefndir samningsskuldbindinga á tímum COVID-19

Fyrr í dag sendi LOGOS fréttabréf til viðskiptamanna sinna þar sem Helga Melkorka Óttarsdóttir og Einar Baldvin Axelsson fjalla um efndir og mögulegar vanefndir samningsskuldbindinga á tímum COVID-19.

Fréttabréfið má lesa í heild sinni hér fyrir neðan.

Efndir og mögulegar vanefndir samningsskuldbindinga á tímum COVID-19

Mörg ríki hafa í kjölfar COVID-19 gripið til víðtækra ráðstafana, svo sem lokunar landamæra og samkomubanns, í þeim tilgangi að takmarka frekari dreifingu veirunnar. Faraldurinn mun hafa margvísleg áhrif. Sem dæmi má nefna að aðfangakeðjur rofna, framleiðsla truflast, framboð minnkar tímabundið og minni eftirspurn er eftir vörum og þjónustu. Kauphegðun viðskiptavina breytist töluvert á tímum sem þessum, fólk ferðast mun minna og hætt er við stóra sem smáa viðburði, svo sem tónleika, fyrirlestra og ráðstefnur.

Neikvæðar fjárhagslegar afleiðingar kunna að verða fyrir fyrirtæki vegna COVID-19. Á stjórnendum fyrirtækja hvílir skylda til þess að gæta hagsmuna þeirra gagnvart viðsemjendum, s.s. kröfuhöfum, starfsmönnum og öðrum samningsaðilum, og einnig hluthöfum. Þá kann að reyna á skyldur sem kveðið er á um í lögum. Er því sérstaklega mikilvægt að tekin séu viðeigandi skref í þeim tilgangi að takmarka þau skaðlegu áhrif sem kunna að stafa beint og óbeint af COVID-19.

 Áhættumat mikilvægt

Nauðsynlegt er að fyrirtæki framkvæmi áhættumat á heildarrekstri þeirra með það í huga að greina bæði samningsbundnar og lagalegar skyldur sem hvíla á fyrirtækjum og þessu tengjast, þ.m.t. upplýsingaskyldu. Jafnframt skiptir máli að fyrirtæki séu vel upplýst um þær lagabreytingar sem fyrirhugaðar eru vegna faraldursins, og þá eftir atvikum með hvaða hætti fyrirtæki geta nýtt sér aðstoð ríkisins.

Fyrirtæki ættu að leita allra leiða til að endursemja um fresti, óska eftir endurfjármögnun og vinna að endurskipulagningu. Þá kunna að koma upp eða vera fyrirsjáanlegar vanefndir á samningsskuldbindingum sem kallar á yfirferð gildandi viðskiptasamninga með tilliti til ákvæða um ábyrgðarleysi, breyttar forsendur og möguleika til efnda samninga.

Þannig þarf að athuga fyrirliggjandi samninga með tilliti til þess hvort þeir innihaldi ákvæði um óviðráðanleg ytri atvik (force majeure), og ef ekki, hvort þeir falli undir gildissvið laga sem innihalda ábyrgðarleysisákvæði vegna óviðráðanlegra ytri atvika. Sem dæmi má nefna að í lögum um lausafjárkaup er að finna undantekningu frá meginreglunni um rétt kaupanda til efnda í samræmi við efni samnings (efndir in natura), en þar segir m.a. að þessi meginregla gildi ekki ef um er að ræða hindrun sem seljandi ræður ekki við. Þá er mælt fyrir um það í sömu lögum að kaupandi geti ekki krafist skaðabóta vegna tjóns sem hann bíður vegna greiðsludráttar af hálfu seljanda ef seljandi sýnir fram á að greiðsludráttur hefur orðið vegna hindrunar sem hann fékk ekki ráðið við eða ekki er með sanngirni unnt að ætlast til að hann hefði haft hana í huga við samningsgerð eða getað komist hjá eða sigrast á afleiðingum hennar.

Við slíka yfirferð og framkvæmd áhættumats þarf enn fremur að taka sérstakt tillit til formskilyrða vegna vanefndaákvæða eða ólögfestra reglna, þ.e. hvort á samningsaðilum hvíli skylda til að gera gagnaðilanum viðvart um að hann hyggist bera fyrir sig breyttar forsendur eða óviðráðanleg ytri atvik, án ástæðulauss dráttar. Þannig er krafist skjótra viðbragða af hálfu seljanda í dæminu hér að ofan og skiptir því miklu máli að tilkynning sé send um leið og seljandi fékk eða gat fengið vitneskju um viðkomandi hindrun til þess að tryggja réttarstöðu sína.

Hvað sem öðru líður er athygli vakin á því að beiting ábyrgðarleysisákvæða hefur yfirleitt einungis tímabundin áhrif. Það sem mestu máli skiptir er að fyrirtæki átti sig á því hvaða skref þarf nauðsynlega að taka í þeim tilangi að takmarka efnahagsleg áhrif veirunnar á meðan faraldurinn ríður yfir.   

Sérfræðingar LOGOS aðstoða við greiningu og áhættumat

Innan LOGOS starfa sérfræðingar sem hafa víðtæka reynslu og þekkingu við endurskipulagningu fyrirtækja og endurfjármögnun, auk greiningar á samningsskuldbindingum og mögulegum vanefndum. 

Óskir þú eftir aðstoð eða nánari upplýsingum um ofangreint, vinsamlegast hafðu samband við Helgu Melkorku Óttarsdóttur eða Einar Baldvin Axelsson, meðeigendur á LOGOS.