First North - næsta skref

First North - næsta skref

Annað árið í röð er LOGOS, ásamt Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins, KMPG og Kviku banka, samstarfsaðili Nasdaq á Íslandi í verkefninu  „First North - næsta skref“. Um er að ræða námskeið sem stjórnendur efnilegra og öflugra fyrirtækja geta sótt, þeim að kostnaðarlausu og án skuldbindingar, til þess að læra að undirbúa innviði fyrirtækis undir vöxt og kynnast ferlinu við að fara á markað. Þátttakendur í verkefninu í ár koma frá 14 félögum.

Innlegg LOGOS í verkefnið er að fara yfir lögfræðileg álitamál sem tengjast fyrirhugaðri skráningu, s.s. nauðsynlegar breytingar á samþykktum, félagaformi, innra skipulagi, gerð og undirbúning áreiðanleikakannana, ábyrgð stjórnenda og fleira sem huga þarf að í tengslum við fyrirhugaða skráningu á First North.

Í vikunni tók LOGOS á móti góðum hópi stjórnenda frá vaxtarfyrirtækjum sem eru að íhuga skráningu á First North markaðinn. Í kynningunni var lögð sérstök áhersla á mikilvægi góðs undirbúnings og þess að hugað væri að innra skipulagi og verkferlum til að tryggja góða upplýsingagjöf til fjárfesta og reglufylgni. Erindi LOGOS fluttu lögmennirnir Ólafur Arinbjörn Sigurðsson og Freyr Snæbjörnsson, sem reglulega koma að ráðgjöf við skráð félög og fjárfesta um málefni verðbréfamarkaðarins.