Helstu atriði samnings fjármála- og efnahagsráðuneytisins og Seðlabanka Íslands um framkvæmd viðbótarlána

Helstu atriði samnings fjármála- og efnahagsráðuneytisins og Seðlabanka Íslands um framkvæmd viðbótarlána

LOGOS sendi í dag út fréttabréf með samantekt helstu atriða samnings fjármála- og efnahagsráðuneytisins og Seðlabanka Íslands um framkvæmd viðbótarlána en samningurinn var undirritaður þann 17. apríl sl.

Fréttabréfið má lesa í heild sinni hér fyrir neðan. Bendum einnig áhugasömum á að skrá sig á póstlista LOGOS  um fjármálaþjónustu og regluverk.

Helstu atriði samnings fjármála- og efnahagsráðuneytisins og Seðlabanka Íslands um framkvæmd viðbótarlána

Þann 17. apríl sl. undirrituðu fjármála- og efnahagsráðuneytið og Seðlabanki Íslands samning um skilmála við framkvæmd á veitingu ábyrgða ríkisins á viðbótarlánum lánastofnana til fyrirtækja vegna efnahagsáhrifa heimsfaraldurs kórónaveirunnar.

Kveður samningurinn m.a. á um nánari skilyrði viðbótarlána með ábyrgð ríkisins, þau skilyrði sem lánastofnanir skulu uppfylla, skiptingu ábyrgða milli lánastofnana og þær forsendur sem leggja á til grundvallar við veitingu fyrirgreiðslna. LOGOS hefur tekið saman helstu atriði samningsins.

Samningar Seðlabanka Íslands við lánastofnanir

Skipting heildarábyrgðar ríkissjóðs á milli lánastofna skal byggjast á hlutlægum og málefnalegum forsendum en heildarábyrgð ríkissjóðs gagnvart hverri og einni lánastofnun vegna viðbótarlána má að hámarki nema samtals 50 ma. kr. Ábyrgð ríkissjóðs tekur til 70% af höfuðstóli lána sem njóta ábyrgðar á grundvelli samningsins.

Hvaða aðilar geta notið ábyrgðar?

Fyrirtæki og aðilar sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi og bera fulla og ótakmarkaða skattskyldu hér á landi í skilningi laga nr. 90/2003 um tekjuskatt geta notið ríkisábyrgðar. Þeir aðilar sem falla undir framangreinda skilgreiningu og hafa orðið fyrir verulegu og ófyrirséðu tekjutapi þurfa einnig að uppfylla eftirfarandi skilyrði:

 • Launakostnaður var a.m.k. 25% af heildarútgjöldum undangengins árs.
 • Viðbótarlánveiting er mikilvæg forsenda þess að fyrirtæki viðhaldi rekstrarhæfi sínu þrátt fyrir tímabundið tekjutap.
 • Líklegt er að fyrirtæki geti orðið rekstrarhæft þegar dregur úr áhrifum heimsfaraldursins.
 • Skilyrði viðauka I um fyrirtæki í erfiðleikum í skilningi EES-réttar við mat á rekstrarhæfi. 
 • Reynt hafi verið að leysa lausafjárvanda fyrirtækis til þess að viðhalda rekstri þess með öllum öðrum tiltækum úrræðum.
 • Fyrirtæki uppfyllir ekki skilyrði sem alla jafna eru sett fyrir frekari lánveitingum af hálfu lánastofnunar samkvæmt úthlutunarreglum hennar.

Hvaða þýðir verulegt og ófyrirséð tekjutap?

Með verulegu og ófyrirséðu tekjutapi er átt við tekjutap að lágmarki 40%, með vísan til tekna sömu mánaða eða tímabils og samliggjandi mánaða innan ársins 2020. Þá verður tekjutapið að tengjast beint eða óbeint heimsfaraldrinum eða ráðstöfunum sem honum tengjast.

Takmarkanir og annað sem leiðir af ábyrgðinni

Auk þess að skuldbinda sig til að greiða ekki arð út þann tíma sem ábyrgðar ríkissjóðs nýtur við, þurfa fyrirtæki sem hyggjast nýta sér úrræðið að sýna fram á að frá 1. mars 2020 hafi ekki verið:

 • greiddur út arður,
 • óumsamdir kaupaukar,
 • keypt eigin hlutabréf, veitt eða greitt lán til eiganda eða nákominna aðila skv. 3. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991,
 • greidd greiðsla á víkjandi láni fyrir gjalddaga,
 • greiddar aðrar ónauðsynlegar greiðslur en þær er standa til þess að viðhalda rekstri og rekstrarhæfi fyrirtækis.

Fjárhæð láns, lánstími og lánakjör

Samningur Seðlabankans við einstakar lánastofnanir skal kveða á um hámark einstakra viðbótarlána sem geta numið tvöföldum árslaunakostnaði fyrirtækis á næstliðnu ári, þó að hámarki 1,2 ma. kr.

Ákvörðun um kjör og skilyrði viðbótarláns er í höndum viðkomandi lánastofnunar, en skal þó bera þess merki að viðkomandi stofnun beri aðeins hluta áhættu við veitingu láns. Gerð er sú krafa að lánastofnanir þurfi að geta rökstutt að lánskjör séu hagstæðari sökum ábyrgðarinnar.

Viðbótarlán skulu veitt á árinu 2020 en ábyrgð ríkissjóðs fellur niður að 18 mánuðum liðnum frá lánsveitingu. Þá er ráðherra veitt heimild til að framlengja hámarksábyrgð ríkisins til viðbótar um 12 mánuði sé fyrirsjáanlegt að verulegra efnahagslegra áhrifa gæti enn eftir áðurnefnda 18 mánuði.

Áhættuálag og skuldbinding lánastofnunar

Lánastofnun skal standa ríkissjóði skil á áhættuálagi vegna þess hluta höfuðstóls hvers viðbótarláns sem nýtur ábyrgðar. Reiknast álagið á ársgrunni og skal nema 0,10% hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum en 0,30% hjá stórum fyrirtækum skv. lögum um ársreikninga nr. 3/2006. Þeim lánastofnunum sem hyggjast veita viðbótarlán með ríkisábyrgð ber að tryggja að lögbundin og samningsbundin skilyrði séu uppfyllt í tilviki hvers fyrirtækis er nýtur lánsins, ella fellur ábyrgð ríkissjóðs niður.

Uppgjör ábyrgða

Ríkissjóður ber ábyrgð á tapi af höfuðstóli vegna hvers viðbótarláns í samræmi við samþykkt ábyrgðarhlutfall en við hverja greiðslu lækkar fjárhæð ábyrgðar hlutfallslega. Lánastofnun skal nýta hefðbundin úrræði til að endurheimta viðbótarlán í vanskilum en ábyrgð ríkissjóðs er einföld ábyrgð, þ.e. svo greiðsluskylda ríkissjóðs verði virk þarf innheimta viðbótarlánsins að vera árangurslaus og fullreynt að greiðsla frá lántaka fáist ekki. Uppgjör ábyrgða þar sem sannarlega er sýnt fram á greiðsluskyldu ríkissjóðs mun eiga sér stað á 6 mánaða fresti, fyrst 1. janúar 2021.

Upplýsingagjöf, árangursmat og eftirlit

Við undirbúning samnings Seðlabankans við lánastofnanir ber þeim að skila inn upplýsingum um mat á stöðu lánasafna sinna með hliðsjón af núverandi aðgerðum stjórnvalda, eigin aðgerðaráætlun til að styðja við viðskiptavini sína, auk mats á þörf fyrir stuðning ríkis í formi ábyrgða til að ná þeim markmiðum sem stefnt er að í samningi.  

Þá skal Seðlabankinn einnig gera kröfu um reglulega upplýsingagjöf í samningi við lánastofnanir. Í samræmi við ákvæði til bráðabirgða í lögum um ríkisábyrgðir skal fjármála- og efnahagsráðherra skipa nefnd til að hafa eftirlit með framkvæmd ákvæðisins.

 

Aðgerðarhópur LOGOS vegna COVID-19
Hjá LOGOS er að störfum starfshópur sem greinir lögfræðileg álitaefni tengd COVID-19 faraldrinum. Jafnframt starfa á stofunum sérfræðingar á öllum sviðum lögfræðinnar. Ef spurningar vakna um úrræði stjórnvalda vegna faraldursins eða um önnur lögfræðileg álitaefni má hafa samband við Einar Baldvin Axelsson eða Helgu Melkorku Óttarsdóttur, meðeigendur á LOGOS.

24. apríl 2020

Einar Baldvin Axelsson

Einar Baldvin Axelsson

Helga Melkorka Óttarsdóttir

Helga Melkorka Óttarsdóttir