Lagabreytingar í kjölfar COVID-19 heimsfaraldurs

Lagabreytingar í kjölfar COVID-19 heimsfaraldurs

Ríkisstjórn og þing hafa frá því í mars haft til umræðu á þinginu ýmsar lagabreytingar og samþykkt breytingar á fjölmörgum lögum sem tengjast COVID-19 heimsfaraldrinum. Í þessum miklu sviptingum er mikilvægt að hafa yfirsýn yfir aðgerðir stjórnvalda, en LOGOS hefur tekið saman helstu breytingar sem orðið hafa á lögum og þeim aðgerðum sem stjórnvöld hafa boðað eða afgreitt.

Aðgerðarpakki ríkisstjórnarinnar

Þann 21. mars sl. kynnti ríkisstjórnin aðgerðir til að bregðast við efnahagslegum áhrifum faraldursins. Umfang aðgerða var þó nokkuð og voru þær metnar á um 230 milljarða króna. Sama dag var frumvarp til laga um aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónaveiru lagðar fyrir þingið.

Síðan þá hafa umræður farið fram á þinginu um frumvarpið og breytingartillögur lagðar fram. Frumvarpið var samþykkt 30. mars sl.

Hér fyrir neðan verða helstu aðgerðir stjórnvalda raktar.

 • Greiðslufrestur staðgreiðslu og tryggingagjalds

Áður en aðgerðir ríkisstjórnarinnar voru kynntar hafði gjalddaga opinberra gjalda samkvæmt lögum nr. 45/1987 í mars verið frestað fyrir helming álagningar, féll þar helst undir staðgreiðsla af launum en einnig var frestað greiðslu helmings tryggingagjalds með sama hætti. Var það gert þann 13. mars 2020 með lögum nr. 17/2020.

Með frumvarpi ríkisstjórnarinnar, sem samþykkt var og hefur nú lagagildi, var gengið enn lengra og þar lagt til að launagreiðendur sem eiga í tímabundnum rekstrarörðugleikum vegna tekjufalls geti fengið greiðslufrest á allt að þremur gjalddögum staðgreiðslu launa og tryggingagjalds. Er þá um að ræða þrjá af þeim gjalddögum sem koma upp til 1. desember 2020 og, ef við á, er fresturinn til 15. janúar 2021, þá eru möguleikar til frekari frestunar í ákveðnum tilfellum.

Eftir breytingar á frumvarpinu var launagreiðendum sem eiga við verulega rekstrarörðugleika að stríða á árinu 2020 vegna skyndilegs og ófyrirséðs tekjufalls sem leiðir af almennum samdrætti innanlands og á heimsvísu, jafnframt gert heimilt að sækja um frestun á skilum á allt að þremur greiðslum af afdreginni staðgreiðslu af launum skv. 1. og 2. tölul. 5. gr., sem eru a gjalddaga 1. apríl 2020 til og með 1. desember 2020. Gjalddagi og eindagi þeirra greiðslna er frestað til 15. janúar.

Samkvæmt lögunum óskar fyrirtæki eftir fresti og þarf það að vera í rekstrarörðugleikum, það er a.m.k. þriðjungs samdráttur í tekjum m.v. sömu mánuði síðasta árs. Því þurfa rekstraraðilar að geta útvegað samanburð við umsókn. Ekki er um rekstrarörðugleika að ræða þótt tekjustreymi minnki, „ef launagreiðandi á nægt eigið fé til að sækja sér lánafyrirgreiðslu á almennum markaði eða á nægt handbært fé til að standa straum af útgjöldum til rekstrar þegar þau falla í gjalddaga“. Þá er jafnframt sett skilyrði fyrir því að arður sé ekki greiddur út á árinu og að úttektir eiganda úr félagi séu ekki hærri en reiknað endurgjald hans samkvæmt tekjuskattslögum.

Miðað við sett skilyrði virðist fyrirsjáanlegt að félög sem hafa þegar greitt út arð á þessu ári geti ekki notið frestunar. Þá er óljóst hvernig það er metið hvort nægt eigið fé sé fyrir hendi til lánsfjármögnunar. Þá eru önnur skilyrði sett eins og að ekki séu fyrir hendi vanskil, eldri rekstrarörðugleikar o.s.frv.

 • Heimild ráðherra til að fella niður eða lækka fyrirframgreiðslu á tekjuskatti

Samkvæmt samþykktum lögum er ráðherra heimilt að setja reglugerð til að lækka eða fella niður fyrirframgreiðslu tekjuskatts á árinu 2020, vegna tekjuskatts fyrirtækja fyrir árið 2019. Með þessu frestast greiðsla tekjuskatts væntanlega fram að álagningu en reglugerð liggur ekki fyrir og því óljóst hvernig útfærslan verður og hvort/hvaða skilyrði þarf að uppfylla.

 • Sérstakur barnabótaauki

Með lögunum er boðið upp á sérstakan barnabótaauka að fjárhæð 20 til 40 þúsund króna, en fjárhæð ræðst af tekjum foreldra. Barnabótaaukinn er einskiptisaðgerð og er greiðslan ákvörðuð samhliða álagningu opinberra gjalda á þessu ári.

 • Niðurfelling tollafgreiðslugjalds

Með lögunum var samþykkt að sérstakt tollafgreiðslugjald, sem á er lagt vegna tollafgreiðslu skipa og flugvéla utan almenns afgreiðslutíma, verði ekki innheimt frá gildistöku frumvarpsins og út árið 2021.

 • Tvískipting aðflutningsgjalda í tolli og aukin heimild til færslu innskatts

Innflutningsfyrirtæki hafa breytt pöntunum sínum vegna faraldursins, en hann hefur m.a. haft áhrif á innkaup lyfjafyrirtækja og dreifingaraðila matvæla. Til að draga úr neikvæðum afleiðingum faraldursins á innflutning eru aðflutningsgjöld í tolli, frá og með uppgjörstímabilinu mars til apríl og út árið 2020, tvískipt.

Samhliða var gerð tímabundin breyting á lögum um virðisaukaskatt þar sem heimilt er að færa allan innskatt viðkomandi tímabils þótt hann hafi einungis verið greiddur að hluta.

 • Endurgreiðsla virðisaukaskatts

Með samþykktum lögum er endurgreiðsluhlutfall virðisaukaskatts vegna vinnu starfsfólks á byggingarstað íbúðarhúsnæðis fært úr 60% í 100% fyrir tímabilið 1. mars 2020 til 31. desember 2020. Þá er því bætt við að vinna við frístundarhúsnæði uppfyllir skilyrði endurgreiðslu. Er þetta gert til að minnka atvinnuleysi, hvetja til framkvæmda- og viðhaldsverkefna og minnka svarta atvinnustarfsemi.

Jafnframt var með lögunum gerð sú breyting að eigendur og leigjendur íbúðarhúsnæðis geti óskað eftir endurgreiðslu alls virðisaukaskatts vegna heimilisaðstoðar eða reglulegrar umhirðu íbúðarhúsnæðis á sama tímabili.

Tiltekin félagasamtök, s.s. mannúðar- og líknarfélög, íþróttafélög og björgunarsveitir geta líka fengið endurgreiddan allan þann virðisaukaskatt sem greiddur hefur verið vegna vinnu starfsfólks við byggingar, endurbóta eða viðhalds á mannvirkjum í þeirra eigu.

 • Niðurfelling innheimtu gistináttaskatts

Ferðaþjónustan er líklega sú atvinnugrein sem mun fara verst út úr faraldrinum. Til að koma til móts við geirann verður gistináttagjald, 300 kr. sem lagðar eru á hverja selda gistinótt, ekki innheimt frá og með 1. apríl nk. og út árið 2021. Samhliða er boðið upp á frestun á greiðslu gistináttaskatts fyrir fyrstu tímabil ársins 2020, en heimilt verður að greiða fyrir þau í febrúar 2022.

 • Útgreiðsla séreignarsparnaðar

Öllum þeim sem borgað hafa séreignasparnað verður heimilt að fá allt að 12 milljónir króna greiddar út úr sparnaðinum. Greitt er út í jöfnum afborgunum fyrir 15 mánaða tímabil, en útgreiðslutími styttist hlutfallslega ef tekin er út fjárhæð sem er lægri en 12 milljónir. Um er að ræða ráðstöfun til að auka ráðstöfunartekjur einstaklinga og heimila og ýta undir eftirspurn í hagkerfinu.

 • Hraðari lækkun bankaskatts

Með lögunum var flýtt fyrir lækkun á sérstökum skatti á fjármálafyrirtæki (sk. bankaskattur) og verður hlutfall skattsins 0,145% strax á næsta ári, en ekki árið 2024 eins og áform stóðu til.

 • Aðgerðir til að efla getu sveitarfélaga til að bregðast við samdrætti

Með lögunum var slakað verulega á kröfum til sveitarfélaga um aðhald í rekstri. Þetta er gert til að heimila sveitarfélögum að eyða meiri fjármunum en vanalega og auðvelda þeim að gera ráðstafanir til að bregðast við samdrætti.

 • Ábyrgð Seðlabanka Íslands vegna viðbótarlána til fyrirtækja („brúarlán“)

Með lögunum var lagt til að ríkissjóður gangist í ábyrgð fyrir Seðlabanka Íslands, sem aftur mun ganga í ábyrgð fyrir viðbótarlán frá fjármálastofnunum til fyrirtækja sem lenda í verulegum erfiðleikum vegna faraldursins. Líkur eru til þess að heimildin muni stórauka getu banka til að veita fyrirtækjum í erfiðleikum lán.

Samhliða var lagt til að framangreind ráðstöfun muni ekki falla undir lög um ríkisábyrgðir.

Fjáraukalög

Fjáraukalög voru lögð fram og samþykkt samhliða efnahagsaðgerðum ríkisstjórnarinnar. Þar er m.a. að finna heimild fyrir ríkissjóð til að ábyrgjast skaðleysi Seðlabankans vegna ábyrgðar bankans á brúarlánum fjármálastofnanna til fyrirtækja sem fjallað er um hér að ofan.

Ýmislegt annað fróðlegt má lesa úr fjáraukalögunum, en þar er gert ráð fyrir fjárheimildum í tímabundið fjárfestingarátak í arðbærum fjárfestingum hins opinbera, s.s. í samgönguinnviðum og hlutafjáraukningum í opinberum félögum í því skyni að auka fjárfestingargetu þeirra.

Þá má ráða úr frumvarpinu stórsókn í markaðs- og kynningarstarfi erlendis til að bregðast við áhrifum faraldursins á ferðaþjónustu og að allt að 1,5 milljarði króna verði varið til stuðnings ferðaþjónustu. Segir að stuðningurinn geti m.a. falið í sér hvatningu til ferðalaga innanlands með útgáfu gjafabréfa til allra íbúa landsins, 18 ára og eldri.

Aðrar lagabreytingar

Áður en aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar var kynnt höfðu þegar verið samþykktar nokkrar lagabreytingar á Alþingi.

 • Frestun á gjalddaga helmings opinbera gjalda, þ.e. staðgreiðslu launa og tryggingagjalds

Frumvarpið var samþykkt og gert að lögum, en í því felst að gjalddagi helmings þeirrar álagningar sem standa þurfti skil á í mars 2020 vegna staðgreiðslu opinberra gjalda og vegna tryggingargjalds hefur verið frestað um mánuð. Undir venjulegum kringumstæðum væri eindagi opinbera gjalda og tryggingagjalds þann 16. mars, en með frestinum er hann færður til 15. apríl 2020.

Lengdur er sá tími sem má líða án þess að vanskilaviðurlögum, s.s. álagi eða dráttarvöxtum, sé beitt á helming þeirra fjárhæðar sem var á gjalddaga í mars 2020. Líkt og fjallað er um hér að framan hafa frekari frestir verið veittir, en frestun á gjalddaga í mars er ekki bundin sömu skilyrðum.

 • Tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví

Þegar þetta er skrifað eru tæplega 6.500 einstaklingar sem sæta lögskipaðri sóttkví hér á landi til að stemma stigu við útbreiðslu veirunnar. Eðlilega vakna spurningar um rétt þeirra sem sæta sóttkví til launa, enda eiga þeir ekki rétt á að nýta veikindadaga sína samkvæmt kjarasamningi. Rík rök mæla með því að einstaklingar sem sæta sóttkví myndu fá laun sín greidd enda er hætt við að fólk virði ekki fyrirskipaða sóttkví þegar það þarf á launum sínum að halda til að sjá fyrir sér og sínum.

Með lögum um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir er boðið upp á greiðslur til atvinnurekenda frá hinu opinbera til að greiða laun starfsfólks í sóttkví.

Skilyrði eru sett  fyrir greiðslunum, s.s. að viðkomandi starfsmaður hafi ekki getað sinnt starfi sínu að öllu leyti eða hluta á meðan á sóttkví stendur og að önnur atvik hafi ekki staðið því í vegi að starfsmaður hafi getað mætt til vinnu á vinnustað.

Hámark er sett fyrir greiðslunum, 633.000 krónur á mánuði eða 21.100 kr. á dag, sem atvinnurekandi getur fengið og sækja þarf um greiðslu hjá Vinnumálastofnun.

 • Greiðslur úr atvinnuleysistryggingum vegna minnkaðs starfshlutfalls

Þá hafa jafnframt verið samþykkt lög um breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar til að koma til móts við launþega sem þurfa að minnka í starfshlutfalli á sínum vinnustað. Viðkomandi launþegi getur sótt um atvinnuleysistryggingar til að koma til móts við tekjumissi.

Í frumvarpstextanum er ekki fjallað sérstaklega um ýmis álitamál sem geta vaknað við framkvæmdina, s.s. hvort að vinnuveitandi geti einhliða lækkað starfshlutfall starfsfólks síns með tilkynningu eða hvort semja þurfi við hvern og einn starfsmann. Jafnframt er ekki tekið á því hvort virða þurfi uppsagnarfrest starfsfólks sé ákvörðunin tekin einhliða.

Við meðferð frumvarpsins á Alþingi voru jafnframt gerðar breytingar í þá átt að námsmenn sem annars væru ekki tryggðir atvinnuleysistryggingu geta sótt um bætur innan sama kerfis.

Aðgerðarhópur LOGOS vegna COVID-19

Hjá LOGOS er að störfum starfshópur sem greinir lögfræðileg álitaefni tengd COVID-19 faraldrinum. Jafnframt starfa á stofunni sérfræðingar á öllum sviðum lögfræðinnar. Ef spurningar vakna um úrræði stjórnvalda vegna faraldursins eða um önnur lögfræðileg álitaefni má hafa samband við Einar Baldvin Axelsson, Helgu Melkorku Óttarsdóttur eða Jón Elvar Guðmundsson, meðeigendur á LOGOS.

Uppfært 14. apríl 2020

Einar Baldvin Axelsson

Einar Baldvin Axelsson

Helga Melkorka Óttarsdóttir

Helga Melkorka Óttarsdóttir

Jón Elvar Guðmundsson

Jón Elvar Guðmundsson