Málskotsheimild Samkeppniseftirlitsins á útleið? - Eru breytingar á samkeppnislögum til bóta?

Málskotsheimild Samkeppniseftirlitsins á útleið? - Eru breytingar á samkeppnislögum til bóta?

Athyglisverðar breytingar á samkeppnislögum eru lagðar til í nýju frumvarpi ríkisstjórnarinnar. Nokkur umræða hefur verið síðustu árin um þörf á breytingum á lögunum en frumvarpið nær m.a. til ákvæða sem gagnrýni hefur beinst að. 

 

Samkeppniseftirlitinu ekki lengur heimilt að skjóta málum til dómstóla

Ein stærsta efnislega breytingin er að felld er út heimild til handa Samkeppniseftirlitinu (SKE) að skjóta úrskurðum áfrýjunarnefndar samkeppnismála til dómstóla í tilvikum þar sem eftirlitið er ekki sammála niðurstöðu nefndarinnar. Núverandi fyrirkomulag, sem felur í sér undanþágu frá þeirri meginreglu að lægra sett stjórnvald (hér SKE) er bundið af ákvörðunum æðra setts stjórnvalds (hér áfrýjunarnefnd samkeppnismála), hefur sætt nokkurri gagnrýni og verið til þess fallið að lengja málsmeðferð samkeppnismála til muna í ákveðnum tilvikum. Almennt eru ekki slíkar heimildir til handa samkeppnisyfirvöldum í löggjöf nágrannalandanna.

 

Stærri samrunar tilkynningaskyldir

Veltuviðmið vegna tilkynningarskyldra samruna er hækkað þannig að sameiginleg ársvelta samrunaaðila á Íslandi er 3 milljarðar króna og a.m.k. tveir samrunaaðila eru með a.m.k. 300 milljón króna ársveltu. Núgildandi viðmið eru 2 milljarðar króna og 200 milljónir króna en þau hafa gilt um árabil. Þá helst inni undantekningarheimild SKE til íhlutunar í samruna þar sem sameiginleg heildarvelta er undir veltumörkum í undatekningartilvikum, þó þannig að sameiginleg heildarvelta sé yfir 1,5 milljarði króna. Þá eru skýrari ákvæði sett um málsmeðferð samrunamála hjá SKE, einkum um tímafresti og sáttaviðræður um skilyrði fyrir samþykki samruna. Jafnframt er víkkuð út almenn heimild SKE til að ljúka málum með sátt að því gefnu að viðkomandi fyrirtæki leggi til skilyrði, þó þannig að séu skilyrði ekki sett fram fyrr en eftir 55. dag, framlengist heimild SKE til íhlutunar um 20 daga. 

 

Breytingar á valdsviði Samkeppniseftirlitsins

Í frumvarpinu er felld út heimild SKE til að grípa til aðgerða, s.s. kveða á um uppskiptingu fyrirtækja, án þess að bannákvæði samkeppnislaga hafi verið brotin. Slík heimild gildir alla jafna ekki innan EES landanna. Þá er lagt til að fyrirtæki skuli sjálf meta hvort skilyrði undanþága frá samstarfi eða samráði eigi við, en hingað til hefur verið hægt að óska eftir því að Samkeppniseftirlitið leggi mat á það hvort skilyrði undanþágu séu uppfyllt. Breytingin er í samræmi við það sem gildir almennt á EES svæðinu. Engar breytingar eru lagðar til á þeim reglum sem gilda um húsleitir, en það er eitt þeirra atriða sem nefnt hefur verið að úrbóta væri þörf. 

 

Hvað þýða breytingarnar í frumvarpinu?

Almennt má gera ráð fyrir því að atvinnulífið fagni þessum breytingum, þótt skiptar skoðanir kunni að vera varðandi einstaka þætti breytinganna. Hraðari og skilvirkari meðferð samkeppnismála er fagnaðarefni og jákvætt er að sjá að heimildir samkeppnisyfirvalda hérlendis verða færðar nær því sem almennt gildir í nágrannalöndunum, verði frumvarpið að lögum. Ættu þessar breytingar heilt yfir þannig bæði að vera til þess fallnar að hafa jákvæð áhrif á rekstur fyrirtækja í landinu og minnka álag á SKE. 

 

Frumvarpið er aðgengilegt á samráðsgátt stjórnvalda þar sem möguleiki er gefinn á að senda inn umsagnir. Frestur til að koma á framfæri umsögnum er til 8. nóvember nk.