Ný lög um tímabundnar heimildir til fjárhagslegrar endurskipulagningar

Ný lög um tímabundnar heimildir til fjárhagslegrar endurskipulagningar

Í dag sendi LOGOS út fréttabréf á þá sem skráðir eru á póstlista um fjármálaþjónustu og regluverk. Fréttabréfið má lesa í heild sinni hér fyrir neðan. 

Bendum einnig áhugasömum á möguleikann á að skrá sig á póstlistann.

Ný lög um tímabundnar heimildir til fjárhagslegrar endurskipulagningar

Frumvarp dómsmálaráðherra til laga um tímabundnar heimildir til fjárhagslegrar endurskipulagningar hefur nú hlotið þinglega meðferð á Alþingi og verið samþykkt. Frumvarpið var lagt fram hinn 15. maí sl. og greindi LOGOS í kjölfarið frá helstu atriðum þess í fréttabréfi hinn 18. maí sl. Verður hér annars vegar fjallað um þær breytingar sem hafa átt sér stað í meðförum þingsins og hins vegar greint frá helstu efnisreglum laganna.

Lögin veita atvinnufyrirtækjum sem hafa orðið fyrir verulegum fjárhagslegum áhrifum vegna COVID-19 faraldursins og fullnægja tilteknum viðbótarskilyrðum skjól gagnvart fullnustuaðgerðum lánardrottna. Telji héraðsdómari að skilyrði laganna séu uppfyllt skal ákveðið í úrskurði að heimild til fjárhagslegrar endurskipulagningar sé veitt, upphaflega til allt að þriggja mánaða. Lögin gera ráð fyrir því að þessa heimild sé hægt að framlengja, þannig að skjólið verði virkt í allt að 12 mánuði.

Í IV. kafli laganna er fjallað um þær ráðstafanir sem skuldara er heimilt að grípa til í þeim tilgangi að ljúka fjárhagslegri endurskipulagningu. Þar er mælt fyrir um að nái skuldari ekki frjálsum samningum við kröfuhafa sína, geti hann gert tilteknar breytingar á skilmálum útistandandi krafna að fengnu samþykki dómskipaðs umsjónarmanns, en án samþykkis kröfuhafa, eða leitað formlegra nauðasamninga við kröfuhafa í samræmi við ákvæði laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Fela lögin í sér þau nýmæli að heimilt verður að gera breytingar á greiðsluskilmálum veðtryggðra krafna án samþykkis veðhafa. Ef rekstur skuldara er hins vegar með þeim hætti að ekki þurfi annað að koma til en virk tekjumyndun á meðan greiðsluskjóli stendur, getur hann haldið að sér höndum og einungis notið þeirrar verndar er lögin veita, án þess að grípa til frekari ráðstafana til fjárhagslegrar endurskipulagningar. 

Upphaflega kvað frumvarpið á um varanlegar efnislegar breytingar á ákvæðum laga um gjaldþrotaskipti, þannig að skuldurum yrði með nauðasamningi heimilað að gera breytingar á greiðsluskilmálum veðtryggðra krafna án samþykkis eða annarrar aðkomu veðhafa. Í meðförum þingsins var þessum ákvæðum frumvarpsins hins vegar breytt og fela nýju lögin nú ekki í sér almennar breytingar á ákvæðum laga um gjaldþrotaskipti, nema þeim sem beinlínis tengjast hinum tímabundnu heimildum til fjárhagslegrar endurskipulagningar samkvæmt framangreindu. Munu lögin því ekki hafa áhrif á hefðbundna nauðasamninga samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti.

Frumvarpið var samþykkt á Alþingi þann 16. júní sl. og munu lögin taka gildi við birtingu í Stjórnartíðindum.

LOGOS hefur víðtæka reynslu af lögfræðilegri ráðgjöf í tengslum við endurskipulagningu fyrirtækja, hvort heldur sem er í tengslum við greiningu og nýtingu mögulegra úrræða af hálfu skuldara eða hagsmunagæslu fyrir kröfuhafa, sem og ráðgjöf varðandi möguleg skattaleg áhrif slíkrar endurskipulagningar.

Ef óskað er eftir frekari upplýsingum í tengslum við ofangreint, vinsamlegast hafðu samband við Guðbjörgu Helgu Hjartardóttur eða Ólaf Arinbjörn Sigurðsson.

Guðbjörg Helga Hjartardóttir

Ólafur Arinbjörn Sigurðsson

Ólafur Arinbjörn Sigurðsson