Ný löggjöf um lýsingu verðbréfa

Ný löggjöf um lýsingu verðbréfa

LOGOS sendi í gær út fréttabréf þar sem Ólafur Arinbjörn Sigurðsson og Freyr Snæbjörnsson lögmenn hjá LOGOS fjalla um nýja löggjöf um lýsingu verðbréfa.

Fréttabréfið má lesa í heild sinni hér fyrir neðan. Bendum einnig áhugasömum á að skrá sig á póstlista LOGOS  um fjármálaþjónustu og regluverk.

Ný löggjöf um lýsingu verðbréfa

Um næstu mánaðamót (1. apríl nk.) taka gildi ný lög um lýsingu verðbréfa sem boðin eru í almennu útboði eða tekin til viðskipta á skipulegum markaði. Með þeim eru innleidd í íslenskan rétt ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 207/1129 frá 14. júní 2017 um sama efni. Reglugerðin tók gildi innan Evrópusambandsins árið 2017 og var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 84/2019 frá 29. mars 2019. Á grundvelli aðildar Íslands að EES-samningum ber að lögfesta reglugerðir Evrópusambandsins óbreyttar sem lög eða stjórnvaldsreglur. Í samræmi við það var lýsingarreglugerðin tekin upp í íslenskan rétt með svonefndri tilvísunaraðferð og að fullu innleidd samkvæmt orðanna hljóðan. Samhliða gildistöku laganna munu ákvæði um lýsingu í lögum um verðbréfaviðskipti falla úr gildi.

Gildissvið

Samkvæmt  lýsingarreglugerðinni munu útboð verðbréfa sem eru samtals að andvirði undir 1.000.000 evra í íslenskum krónum falla utan við gildissvið hennar og þar með verða undanþegin útgáfu lýsingar. Er þetta veruleg hækkun frá eldri reglum þar sem miðað var við 100.000 evrur. Er þessu ætlað að auðvelda og lækka kostnað lítilla og meðalstórra fyrirtækja við öflun fjármagns innan Evrópska efnahagssvæðisins. 

Lýsingarreglugerðin heimilar jafnframt aðildarríkjunum að undanskilja almenn útboð á verðbréfum sem eru lægri en jafnvirði 8.000.000 evrur í íslenskum krónum yfir 12 mánaða tímabil frá skyldunni til að birta lýsingu. Er þessi heimild nýtt að fullu í hinum nýju lögum en því samhliða kveðið á um að útboð verðbréfa sem undanþegin eru birtingu lýsingar á þessum grunni beri að tilkynna Fjármálaeftirlitinu. Samkvæmt lögunum er Seðlabanka Íslands heimilt að setja sérstakar reglur um form og fyrirkomulag slíkra tilkynninga. Þegar grein þessi er skrifuð liggja þó ekki fyrir drög að slíkum reglum. Að óbreyttu verða því ekki gerðar sérstakar kröfur til forms eða efnis tilkynninga um almennt útboð verðbréfa sem eru lægri en jafnvirði 8.000.000 evra við gildistöku hinna nýju laga. 

Tegundir lýsinga

Líkt og samkvæmt eldri reglum er gert ráð fyrir mismunandi tegundum lýsinga og stendur útgefendum til boða að hafa lýsingu í einu skjali eða þremur aðskildum skjölum. Áfram verður gerð krafa um að lýsing innihaldi samantekt en ákveðnar áherslubreytingar hafa þó orðið þar á. Þannig munu til dæmis breytast þær kröfur sem eru gerðar til efnis samantektar og komið á sérstökum lengdartakmörkunum. Reglugerðin kveður þó á um tvenns konar nýmæli hvað varðar mismunandi tegundir lýsinga sem rétt er að minnast sérstaklega á. 

Annars vegar er það svonefnd ESB-vaxtarlýsing (e. EU Growth Prospectus). Um er að ræða nýja og einfaldari tegund lýsingar vegna smárra útgáfa verðbréfa óskráðra fyrirtækja eða útboðs verðbréfa lítilla og meðalstórra fyrirtækja sem eru skráð á vaxtarmarkað fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki. Í slíkri lýsingu er slakað á upplýsingakröfum og sérstaklega er kveðið á um efni og form slíkrar lýsingar í afleiddri reglugerð.

Hins vegar einfaldað fyrirkomulag vegna síðari útgáfu (e. simplified disclosure regime). Í því felst að fyrirtæki sem hafa verið skráð á skipulegan markað eða vaxtarmarkað fyrir lítil eða meðalstór fyrirtæki í að minnsta kosti 18 mánuði og vilja gefa út (i) verðbréf sem eru jafngeng (e. fungible) þegar útgefnum verðbréfum eða (ii) verðbréf sem ekki eru hlutabréfatengd geta nýtt sér svokallaða einfaldaða lýsingu (e. simplified prospectus) hvar gerðar eru minni kröfur til upplýsingargjafar.

Breytingar á undanþágum

Með hinum nýju reglum verða einnig nokkrar breytingar á undanþágum frá útgáfu lýsingar, sem nú er að finna í 50. gr. laga um verðbréfaviðskipti. Í þeim tilgangi að tryggja samræmda framkvæmd hefur Evrópska verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunin (ESMA) gefið út leiðbeiningar sem hafa má til hliðsjónar við beitingu þessara undanþága.

Meðal mikilvægustu breytinga sem hér hafa orðið á má nefna að hámark undanþágu vegna verðbréfa sem þegar hafa verið skráð á markað hefur verið hækkað úr 10% í 20% (yfir 12 mánaða tímabil). Þá er undanþága vegna hlutabréfa sem eru til komin vegna nýtingar á réttindum sem önnur verðbréf veita (svo sem áskriftarréttindi) nú bundin við 20% hámark (yfir 12 mánaða tímabil). Einnig hafa undanþágur vegna kaupaukakerfis starfsmanna verið einfaldaðar og vægari kröfur verða gerðar til upplýsingagjafar við nýtingu undanþágu vegna hlutabréfa sem úthlutað er í tengslum við samruna eða skiptingu.

Sérstaklega er tekið fram að útgefendum sé heimilt að sameina undanþágur ef skilyrði fyrir hverri og einni undanþágu eru uppfyllt. Sem dæmi má nefna útboð sem samtímis er beint að hæfum fjárfestum, fjárfestum sem eru ekki hæfir en skuldbinda sig til þess að fjárfesta fyrir a.m.k. 100.000 evrur hver, starfsfólki útgefanda auk takmarkaðs fjölda fjárfesta sem ekki eru hæfir. Slíkt útboð myndi njóta samþættrar undanþágu og yrði undanskilið reglum um lýsingu. Í raun er ekki um efnislega breytingu að ræða þar sem Fjármálaeftirlitið hefur túlkað eldri reglur þannig að slík samþætting sé heimil en með þessu hefur vissulega ákveðinni réttaróvissu verið eytt.

Áhrif á eldri lýsingar

Samkvæmt lögunum munu lýsingar verðbréfa sem staðfestar voru í samræmi við lög um verðbréfaviðskipti fyrir gildistöku laga þessara halda gildi sínu þar til þær falla úr gildi eða fram til 21. júlí 2020, hvort heldur gerist fyrr. Útgefandi getur þó óskað eftir því að lýsing haldi gildi sínu eftir 21. júlí 2020 með því að leggja fram umsókn til Fjármálaeftirlitsins eigi síðar en 21. maí 2020 um að lýsingin haldi gildi sínu í 12 mánuði frá staðfestingu hennar. Lýsingar sem staðfestar voru í samræmi við lög um verðbréfaviðskipti verður þó ekki hægt að tilkynna til yfirvalda í öðrum aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins. Almennt verður því ekki unnt að fara í almennt útboð eða skráningu verðbréfa á skipulegan markað á grundvelli slíkra lýsinga innan annarra aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins.

Jákvæðir áhrifaþættir

Grundvallartilgangur reglna um lýsingu er að tryggja fjárfestavernd með fullnægjandi og samræmdri upplýsingagjöf við almenn útboð verðbréfa og við töku þeirra til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði. Þannig er leitast við að tryggja verndarhagsmuni fjárfesta með ítarlegri upplýsingaskyldu þar sem við á, en samtímis liðka til fyrir auknu aðgengi fyrirtækja að fjármagni, þá sérstaklega lítilla og meðalstórra, með rúmum undantekningarheimildum. Áhrif reglugerðarinnar á Ísland verða eflaust jákvæð þar sem meirihluti íslenskra félaga teljast vera lítil eða meðalstór í skilningi reglugerðarinnar. Téðar breytingar munu þá vonandi auka skilvirkni og draga úr kostnaði við útgáfu lýsinga. Mikilvægt er að íslensk fyrirtæki geri sér grein fyrir þeim breytingum sem verða munu á undanþágum frá gerð lýsinga enda gera reglurnar ráð fyrir að fyrirtæki reiði sig á þær þegar við á í þeim tilgangi að lágmarka kostnað við fjármögnun.

Lögmenn LOGOS hafa víðtæka reynslu af ritun lýsinga, þar með talið vegna útboða verðbréfa og skráningar yfir landamæri, og ráðgjöf vegna útgáfu lýsinga og beitingu undanþága.   

Óskir þú eftir nánari upplýsingum um innleiðingu lýsingarreglugerðarinnar og áhrif hennar á íslenskan rétt hafðu þá samband við Ólaf Arinbjörn Sigurðsson eða Frey Snæbjörnsson, sem reglulega koma að ráðgjöf á þessu sviði.

Ólafur Arinbjörn Sigurðsson

Ólafur Arinbjörn Sigurðsson

Freyr Snæbjörnsson

Freyr Snæbjörnsson