Persónuvernd – dómsmálaráðuneyti upplýsir um stöðu á innleiðingu og brýnir mikilvægi undirbúnings

Persónuvernd – dómsmálaráðuneyti upplýsir um stöðu á innleiðingu og brýnir mikilvægi undirbúnings

Dómsmálaráðuneytið birti í dag frétt um stöðu á upptöku nýrrar persónuverndarreglugerðar ESB í EES-samninginn og innleiðingu hennar í landsrétt.

Hin nýja reglugerð mun ekki taka til Íslands fyrr en hún hefur verið tekin upp í EES-samninginn með formlegum hætti, en upptökuferlið er nú í fullum gangi og er markmiðið að gildistaka reglugerðarinnar þann 25. maí 2018 muni einnig taka til Íslands og hinna EFTA-ríkjanna innan EES. Samhliða upptöku reglugerðarinnar í EES-samninginn er unnið að innleiðingu reglugerðarinnar í íslensk lög. Starfshópur hefur verið skipaður til þessa verkefnis og áformað er að frumvarpið verði tilbúið um miðjan janúar 2018. Um svipað leyti, eða jafnvel nokkru fyrr, áætlar ráðuneytið að hefja samráð við almenning og hagsmunaðila.

Jafnvel þótt upptöku- og innleiðingarvinna dragist á langinn ítrekar ráðuneytið mikilvægi þess að fyrirtæki og stofnanir sem vinna með persónuupplýsingar hefjist handa við undirbúning sem fyrst, sé hann ekki hafinn nú þegar. Í því sambandi vísar ráðuneytið m.a. til víðtæks landfræðilegs gildissviðs reglugerðarinnar sem gerir það að verkum að íslensk fyrirtæki og stofnanir, sem hafa með höndum tiltekna vinnslu persónuupplýsinga innan ESB, þurfi að standast kröfur reglugerðarinnar frá og með 25. maí 2018, óháð því hvort upptöku- og innleiðingarvinnu verði lokið hér á landi á þeim tíma.

Frétt dómsmálaráðuneytisins má lesa í heild sinni hér.

Vinsamlegast hafðu samband við Áslaugu Björgvinsdóttur hdl., CIPP/E eða Hjördísi Halldórsdóttur hrl. óskir þú eftir frekari upplýsingum eða ráðgjöf um hið nýja persónuverndarregluverk.