
Ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins um túlkun hugtaksins markaðsmisnotkun
Þann 4. febrúar 2020 féll dómur EFTA-dómstólsins í Lúxemborg í máli nr. E-5/19. Með dóminum er veitt ráðgefandi álit um skýringu á 2. mgr. 1. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2003/6/EB frá 28. janúar 2003 um innherjaviðskipti og markaðsmisnotkun (markaðssvik) (MAD) er varðar túlkun hugtaksins markaðsmisnotkun, sem skilgreint er í 2. mgr 1. gr. MAD. Álitið var veitt að beiðni áfrýjunardómstóls í Noregi.
Ákvæði MAD voru innleidd í íslenskan rétt með lögum um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007 (vvl.), á grundvelli skuldbindinga Íslands vegna EES-samningsins. Túlkun EFTA-dómstólsins á 2. mgr. 1. gr. MAD, eins og hún er sett fram í þessum dómi réttarins, mun því hafa bein áhrif á hvað teljist markaðsmisnotkun að íslenskum rétti.
Helstu atvik málsins voru að F og G voru ákærðir vegna meintrar markaðsmisnotkunar á skuldabréfamarkaði kauphallarinnar í Osló. F var ráðgjafi og sjóðstjóri skuldabréfasjóðs, og G var skuldabréfamiðlari hjá verðbréfafyrirtæki. Þann 19. ágúst 2016 seldi F, fyrir milligöngu G, skuldabréf að nafnvirði samtals 10 milljónir norskra króna á skráðu markaðsverði 77,25. Þann 22. ágúst 2016 keypti F, fyrir milligöngu G, skuldabréf að nafnvirði samtals 50 milljónir norskra króna á skráðu markaðsverði 79,625. Seljandi skuldabréfanna var ekki upplýstur um að kaupandinn væri sami aðilinn og hafði áður keypt skuldabréfin þann 19. ágúst 2016. Í málinu var ekki deilt um að framangreind viðskipti voru raunveruleg, í þeim skilningi að fjármunir og áhætta skiptu um hendi milli sjálfstæðra aðila.
Héraðsdómstóllinn í Osló sýknaði F og G af öllum ákæruliðum. ØKOKRIM, skrifstofa ríkissaksóknara vegna efnahags- og umhverfisbrota í Noregi, áfrýjaði málinu til áfrýjunardómstólsins í Borgarting, sem óskaði eftir ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins við meðferð málsins. Áfrýjunardómstóllinn beindi fimm spurningum til EFTA dómstólsins sem snéru að túlkun hugtaksins markaðsmisnotkun, sem fram kemur í 2. mgr 1. gr. MAD en ákvæðið var innleitt í íslenskan rétt með 1. mgr. 117. gr. vvl.
Í dómi EFTA-dómstólsins kom í fyrsta lagi fram að raunveruleg viðskipti geta gefið röng eða misvísandi skilaboð um framboð á, eftirspurn eftir eða verði á fjármálagerningi og geta því talist markaðsmisnotkun, sbr. annan undirlið a-liðar 2. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar (b. lið 1. töluliðar 1. mgr. 117. gr. vvl.). Er þetta raunar í samræmi við túlkun íslenskra dómstóla á samsvarandi ákvæði að íslenskum rétti.
Í öðru lagi að forsendur einstakra fjárfesta hafi ekki úrslitaáhrif á hvort tryggt hafi verið óeðlilegt verð eða það búið til, í skilningi annars undirliðar a-liðar 2. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar (b. lið 1. töluliðar 1. mgr. 117. gr. vvl.). Það sé undir viðkomandi landsdómstól komið, á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga, þátta, og markaðsskilyrða, hvort óeðlilegt eða tilbúið verð hafi verið tryggt í einstökum viðskiptum, og hvort unnt sé að tryggja verð með beinum samningaviðræðum nokkurra verðbréfafyrirtækja.
Í þriðja lagi leitaðist dómurinn við að skýra hvað fælist í skilyrðum málsvarnar samkvæmt annarri undirmálsgrein a. liðar 2. mgr. 1. gr. MAD (b. lið 1. töluliðar 1. mgr. 117. gr. vvl.), að viðskipti þurfi að byggja á lögmætum ástæðum og vera í samræmi við viðurkenndar venjur á viðkomandi markaði. Í dóminum kemur fram að ástæður á borð við að leiða fram markaðsaðstæður varðandi framboð á, eftirspurn eftir eða verði á fjármálagerningi, eða að nýta sér óvissu annarra fjárfesta að þessu leyti, geti í grundvallaratriðum talist til lögmætra ástæðna í skilningi annarrar undirmálsgreinar a-liðar 2. mgr. 1. gr. MAD, að því gefnu að slíkar ástæður teljist ekki andstæðar markmiðum MAD og að virtu heildarmati landsdómstólsins á háttsemi fjárfestisins. Þá sé það landsdómstólsins að meta hvort til staðar séu viðurkenndar venjur, á umræddum markaði og varðandi þann fjármálagerning sem um er deilt. Í dóminum kemur einnig fram að fjárfestir þurfi að sýna fram á að ástæður hans fyrir viðskiptum séu lögmætar og að viðskiptin séu í samræmi við viðurkenndar venjur til að hann geti borið fyrir sig þá málsvörn sem lýst er í annarri undirmálsgrein a-liðar 2. mgr. 1. gr. MAD.
Að lokum komst EFTA dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að upplýsingaskipti milli fjárfestis og verðbréfamiðlara í tengslum við hugsanleg viðskipti geti ekki talist dreifing upplýsinga í skilningi c-liðar 2. mgr. 1. gr. MAD (3. töluliður 1. mgr. 117. gr. vvl.).
Óskir þú eftir nánari upplýsingum um framangreindan dóm EFTA-dómstólsins hafðu þá samband við Ólaf Arinbjörn Sigurðsson eða Frey Snæbjörnsson, sem reglulega koma að ráðgjöf við skráð félög og fjárfesta um málefni verðbréfamarkaðarins.