Spænsk skattlagning mögulegt brot gegn EES samningnum

Spænsk skattlagning mögulegt brot gegn EES samningnum

Þann 7. mars birti framkvæmdastjórn Evrópusambandsins upplýsingar um ákvörðun sína um að fara fram á það við Spán að tryggt verði að skattgreiðendur á Íslandi, Noregi og Lichtenstein njóti sama réttar til undanþágu frá skatti á söluhagnað hlutafjár eins og íbúar á Spáni og öðrum ríkjum ESB.  Ákvörðunin var tekin eftir kvörtun LOGOS til framkvæmdastjórnarinnar.

Kvörtunin var send eftir greiningu LOGOS á réttarstöðu íslenskra skattgreiðenda á grundvelli EES samningsins og niðurstöðu hennar um að ákvæði hans um stofnsetingarrétt og frjálsa fjármagnsflutninga ættu að tryggja íslenskum aðilum sambærilegan rétt á Spáni og þarlendum aðilum og öðrum innan ESB.  Miðað við ákvörðun framkvæmdastjórnar ESB hefur hún komist að sömu niðurstöðu. Um er að ræða hagsmunamál fyrir öll félög í EFTA ríkjunum þremur sem fjárfest hafa í hlutafé á Spáni og verið skattlögð af söluhagnaði af því.

Málið er eitt af örfáum þar sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins telur ríki sambandsins brotlegt gegn EFTA ríkjunum, þ.á.m. Íslandi, á grundvelli EES samningsins.

Nánari upplýsingar veitir Jón Elvar Guðmundsson