Staða á innleiðingu PSD2

Staða á innleiðingu PSD2

Nú í byrjun árs 2020 eru tvö ár liðin frá því að aðildarríki Evrópusambandsins (ESB) áttu að hafa lokið við innleiðingu tilskipunar (ESB) 2015/2366 um greiðsluþjónustu í lög hvers ríkis. Tilskipuninni, sem í daglegu tali er vísað til sem PSD2, er ætlað að auka samkeppni og neytendavernd á greiðsluþjónustumarkaði, sem og að stuðla að vöruþróun og nýsköpun, en henni fylgja jafnframt flóknir tæknistaðlar, sem aðildarríkjum ber að fylgja, þ. á m. um sterka auðkenningu. Íslandi er skylt að innleiða tilskipunina í landsrétt á grundvelli aðildar að EES-samningnum, þegar hún hefur öðlast fullt gildi meðal EFTA ríkjanna innan EES.

Tilskipunin var tekin upp í EES-samninginn þann 14. júní 2019 með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar. Hún hefur þó ekki enn öðlast gildi meðal EFTA-ríkjanna þriggja innan EES þar sem bæði Ísland og Noregur eiga eftir að aflétta stjórnskipulegum fyrirvörum við upptöku hennar. Þrátt fyrir það hafa bæði Noregur og Liechtenstein innleitt tilskipunina í landsrétt; Liechtenstein að fullu, en Noregur að hluta.

Tilskipunin hefur hins vegar ekki enn verið innleidd að neinu leyti á Íslandi og virðist sú innleiðing ekki vera á dagskrá Alþingis á núverandi löggjafarþingi. Önnur aðildarríki EES eru því komin talsvert lengra í sinni innleiðingarvinnu. Í skýrslu utanríkisráðherra um framkvæmd EES-samningsins frá 10. október 2019 er gert ráð fyrir að tilskipunin verði innleidd á næsta löggjafarþingi, þ.e. frá hausti 2020 til vors 2021, með breytingu á lögum um greiðsluþjónustu, en nákvæmari tímasetning liggur ekki fyrir að svo stöddu. Þá hafa drög að frumvarpi ekki verið birt í Samráðsgáttinni.

Að svo stöddu er því lítið hægt að segja nánar til um hvenær og hvernig tilskipunin verður innleidd í landsrétt. LOGOS mun þó halda áfram að fylgjast náið með innleiðingarferli PSD2 og þeim breytingum á fjármálakerfið sem tækniþróun og löggjöf henni tengd hefur í för með sér. 

Óskir þú eftir aðstoð eða nánari upplýsingum um ofangreint vinsamlegast hafðu samband við Benedikt Egil Árnason eða Ólaf Arinbjörn Sigurðsson, eigendur á LOGOS og sérfræðinga í fjármálaþjónustu og fjármálatækni.

Benedikt Egill Árnason

Benedikt Egill Árnason  

Ólafur Arinbjörn Sigurðsson

Ólafur Arinbjörn Sigurðsson