Tímabundnar sérreglur um fjárhagslega endurskipulagningu atvinnufyrirtækja - varanlegar breytingar á réttarstöðu veðhafa við nauðasamningsumleitanir

Tímabundnar sérreglur um fjárhagslega endurskipulagningu atvinnufyrirtækja - varanlegar breytingar á réttarstöðu veðhafa við nauðasamningsumleitanir

Í dag sendi LOGOS fréttabréf á þá sem skráðir eru á póstlista um fjármálaþjónustu og regluverk. Fréttabréfið má lesa í heild sinni hér fyrir neðan. 

Bendum einnig áhugasömum á möguleikann á að skrá sig á póstlistann.

Tímabundnar sérreglur um fjárhagslega endurskipulagningu atvinnufyrirtækja - varanlegar breytingar á réttarstöðu veðhafa við nauðasamningsumleitanir 

Vakin er athygli á því að dómsmálaráðherra hefur lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um tímabundnar heimildir til fjárhagslegrar endurskipulagningar atvinnufyrirtækja.

Frumvarpið mælir fyrir um mikilvæg nýmæli í þágu fyrirtækja sem eiga í fjárhagsvandræðum, annars vegar að því er varðar heimildir tiltekinna atvinnufyrirtækja til fjárhagslegar endurskipulagningar samkvæmt sérstökum reglum og hins vegar með því að auka möguleika skuldara til þess að gera breytingar á veðtryggðum kröfum með nauðasamningi.

Í frumvarpinu er ráðgert að atvinnufyrirtæki sem orðið hafa fyrir verulegum fjárhagslegum áhrifum vegna COVID-19 faraldursins og fullnægja tilteknum viðbótarskilyrðum geti leitað skjóls frá fullnustuaðgerðum lánadrottna, fyrst í tvo mánuði og síðan að fengnum framlengingum í allt að 12 mánuði, þannig að þeim gefist tækifæri til fjárhagslegrar endurskipulagningar, hvort sem er með frjálsum samningum við lánardrottna eða formlegum nauðasamningum. Gerir frumvarpið m.a. ráð fyrir möguleika á að gera megi breytingar á greiðsluskilmálum veðtryggðra krafna til allt að þriggja ára, án samþykkis veðhafa. Úrræðið er tímabundið og þarf beiðni skuldara um heimild til fjárhagslegrar endurskipulagningar að berast héraðsdómi fyrir 1. janúar 2021.

Þá er í frumvarpinu að finna ákvæði um breytingar á ákvæðum laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti sem geta haft veruleg áhrif á réttarstöðu veðhafa miðað við núgildandi reglur. Miða breytingarnar að því að heimila skuldara sem nær nauðasamningi við óveðtryggða lánardrottna sína að gera jafnframt breytingar á greiðsluskilmálum veðtryggðra krafna, án samþykkis eða annarrar aðkomu veðhafa. 

Frumvarpið er nú til þinglegrar meðferðar og kann að taka breytingum í meðförum þingsins.

LOGOS hefur víðtæka reynslu af lögfræðilegri ráðgjöf í tengslum við endurskipulagningu fyrirtækja, hvort heldur sem er í tengslum við greiningu og nýtingu mögulegra úrræða af hálfu skuldara eða hagsmunagæslu fyrir kröfuhafa, sem og ráðgjöf varðandi möguleg skattaleg áhrif slíkrar endurskipulagningar.

Ef frekari upplýsinga eða aðstoðar er óskað, vinsamlegast hafið samband við Guðbjörgu H. Hjartardóttur eða Ólaf Arinbjörn Sigurðsson eigendur á LOGOS.

Guðbjörg Helga Hjartardóttir

Guðbjörg Helga Hjartardóttir

Ólafur Arinbjörn Sigurðsson

Ólafur Arinbjörn Sigurðsson