Sjálfbærni og samfélagsleg ábyrgð

Áhersla á sjálfbæra þróun í atvinnulífinu, sem og öðrum sviðum mannlífsins, hefur stóraukist undanfarin ár og mun áfram aukast á meðan þjóðir heims vinna að því að hætta útblæstri gróðurhúsalofttegunda og koma í veg fyrir óæskileg áhrif loftslagsbreytinga á umhverfið og samfélagið allt.

Moldarvegur í gegnum lúpínubreiðu

Sem leiðandi lögmannsstofa leitast LOGOS við að vera til fyrirmyndar í íslensku atvinnulífi og vill leggja sitt að mörkum til að stuðla að því að þarfir samfélagsins í dag komi ekki niður á möguleikum framtíðarkynslóða.

Áhrifa félagsins gætir einna helst í gegnum þjónustuframboð LOGOS, enda hefur félagið marga snertipunkta við atvinnulífið og samfélagið í heild. LOGOS getur beitt kröftum sínum í þágu samfélagsins með því að búa ávallt að víðtækri þekkingu á þeim lögum, reglum og stöðlum sem gilda á sviði umhverfismála, félagslegra þátta og stjórnunarhátta á hverjum tíma, og með því að deila þekkingunni til viðskiptavina sinna.

Ráðgjöf til viðskiptavina

Auk þess að vera leiðandi lögmannsstofa hérlendis með yfirgripsmikla þekkingu á flestum réttarsviðum lögfræðinnar býr LOGOS yfir viðamikilli þekkingu á sjálfbærum fjárfestingum, stjórnunarháttum fyrirtækja og samfélagslegri ábyrgð. LOGOS veitir viðskiptavinum sínum alhliða þjónustu sem samræmist nýjustu viðmiðum um sjálfbærni hverju sinni.

LOGOS aðstoðar viðskiptavini sína við hlítingu laga og reglna á sviðinu, m.a. við að uppfylla lagalega upplýsingaskyldu í tengslum við sjálfbærni, aðlögun stjórnarhátta að samfélagslegri ábyrgð, ráðgjöf við útgáfu grænna fjármálagerninga og úttektir til að tryggja hlítingu.

LOGOS lítur á það sem samfélagslega ábyrgð sína að miðla þeirri þekkingu sem félagið öðlast við rannsóknir og vinnu á þessu sviði.

LOGOS er stoltur meðlimur í Festu - miðstöðvar um samfélagsábyrgð og sjálfbærni og í IcelandSIF - samtökum um ábyrgar fjárfestingar.

LOGOS og sjálfbærni

Við viljum vera leiðandi á sviði samfélagsábyrgðar og leitum leiða til að tryggja að daglegur rekstur og ákvörðunartaka sé samofin málaflokknum.

LOGOS hefur sett sér stefnu um sjálfbærni og samfélagslega ábyrgð. Markmið stefnunnar er að tryggja framsæknar áherslur í starfsemi LOGOS og að ávallt sé tekið tillit til hagsmuna samfélagsins. Lögð er áhersla á að þekkja þau neikvæðu áhrif sem starfsemi félagsins kann að hafa á umhverfið og draga úr þeim eftir fremsta megni. Þá virðir LOGOS öll alþjóðlega viðurkennd mannréttindi í hvívetna og gerir sömu kröfu til viðskiptavina sinna og þjónustuaðila.