LOGOS sérhæfir sig í þjónustu við íslenskt og alþjóðlegt viðskiptalíf og er jafnframt sú lögmannsstofa á Íslandi sem á sér lengsta sögu, eða allt aftur til ársins 1907. Heiðarleiki, fagmennska og metnaður er sá grunnur sem velgengni LOGOS byggir á.
Þjónusta LOGOS
LOGOS hefur forystu í þjónustu við íslenskt atvinnulíf. Í umsögn alþjóðlega matsfyrirtækisins Chambers and Partners kemur fram að stærð stofunnar og gott starfsfólk séu þar ákveðið lykilatriði, sem og nútímaleg vinnubrögð, miðlun upplýsinga auk markvissrar uppbyggingar á alþjóðlegum mörkuðum. LOGOS færir viðskiptavinum sínum þann kraft og sveigjanleika sem þarf til að ná hámarks árangri hér heima auk náinnar samvinnu við að uppfylla metnaðarfull áform í útlöndum.
LOGOS er fyrsta íslenska lögfræðistofan til að opna skrifstofu í London og hefur vegur stofunnar farið ört vaxandi allt frá opnun. Verkefnin, sem eru flest á sviði fyrirtækjaráðgjafar, eru fjölbreytt og teygja sig allt frá Asíu til Bandaríkjanna, þótt meginþunginn sé í Bretlandi.
Fólkið
Samvinna og samskipti eru lykilforsendur þess að starfsfólk vaxi og dafni í starfi. LOGOS leggur áherslu á að fólk deili þekkingu sinni og reynslu og eru m.a. starfandi vinnuhópar á hinum ýmsu sviðum lögfræðinnar sem stuðla að því.