Eineltisstefna LOGOS

Það er stefna LOGOS að starfsmenn sýni samstarfsfólki sínu alltaf kurteisi og virðingu í samskiptum. Einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni og ofbeldi verður undir engum kringumstæðum umborin á vinnustaðnum.

Yfirlitsmynd yfir matsal LOGOS

Það er stefna LOGOS að starfsmenn sýni samstarfsfólki sínu alltaf kurteisi og virðingu í samskiptum. Einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni og ofbeldi verður undir engum kringumstæðum umborin á vinnustaðnum. Meðvirkni starfsmanna í einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni eða ofbeldi er fordæmd.

Stjórnendur bera ekki aðeins ábyrgð á störfum starfsfólks heldur einnig á því að grundvallarreglur samskipta á vinnustað séu virtar. Nýjum starfsmönnum er kynnt stefna og viðbragðsáætlun LOGOS til að koma í veg fyrir einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni og ofbeldi strax við upphaf starfs.

Skilgreining LOGOS á því hvað teljist einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni og ofbeldi byggir á 3. gr. reglugerðar nr. 1009/2015 um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum.

  • Einelti: Síendurtekin hegðun sem almennt er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður, svo sem að gera lítið úr, móðga, særa eða ógna viðkomandi eða valda honum ótta. Skoðanaágreiningur eða ágreiningur vegna ólíkra hagsmuna fellur ekki hér undir.
  • Kynferðisleg áreitni: Hvers kyns kynferðisleg hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg.
  • Kynbundin áreitni: Hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður, er í óþökk viðkomandi og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi.
  • Ofbeldi: Hvers kyns hegðun sem leiðir til, eða gæti leitt til, líkamlegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir henni verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennda sviptingu frelsis.

Ef upp koma ágreiningsmál, samskiptaerfiðleikar eða hagsmunaárekstrar, sem falla undir eða tengjast ofangreindum skilgreiningum, skal yfirmaður eða trúnaðaraðili LOGOS, sbr. grein 2.2 bregðast við á markvissan og faglegan hátt í samræmi við neðangreinda viðbragðsáætlun. Mikilvægt er að leysa slík mál án tafar áður en þau þróast til verri vegar.

Þetta á bæði við ef slíkt kemur upp milli starfsmanna LOGOS eða við aðila sem ekki teljast til starfsmanna LOGOS en samskiptin eiga sér stað í tengslum við þá starfsemi sem þar fer fram.

LOGOS mun grípa til aðgerða gagnvart starfsmönnum sem leggja aðra í einelti eða verða uppvísir af áreitni eða ofbeldi t.d. með áminningu eða uppsögn. Alvarleg atvik verða hugsanlega kærð að höfðu samráði við þolanda.

Tekið verður á fölskum ásökunum um einelti, áreitni eða ofbeldi af festu.

Þessi eineltisstefna var samþykkt í september 2020.