Arion banki hafði sigur í vaxtamálinu

Hæstiréttur kvað upp í dag dóm í svonefndu vaxtamáli, en í málinu var deilt um lögmæti og sanngirni skilmála í lánssamningi vegna kaupa á fasteign.

Hæstiréttur tók fram i forsendum að niðurstöðu málsins að skilmálinn hefði í mikilvægum atriðum verið ólíkur þeim sem var til umfjöllunar í dómi réttarins 14. október 2025 í máli Íslandsbanka, auk þess sem leyst var úr því máli á grundvelli laga um fasteignalán til neytenda, en í máli Arion banka reyndi á eldri lög, lög um neytendalán. Hæstiréttur leit til þess að í skilmála Arion banka voru skilyrði vaxtabreytinga tæmandi talin og að neytendalánalögin gerðu ekki ríkari kröfur til lýsingar á málsmeðferð við vaxtaákvörðun en fram kæmi í honum. Jafnframt var litið til þess að skilmálinn hefði verið á skýru og skiljanlegu máli, með útskýringum á hverju og einu skilyrða vaxtabreytinga. Í umfjöllun réttarins um mat á því hvort skilmálinn væri ósanngjarn kom fram að ekki yrði séð Arion banki hefði nýtt sér aðstöðumun við samningsgerðina eða að jafnvægi milli réttinda og skyldna samningsaðila hefði verið raskað til muna. Þá yrði sú krafa ekki leidd af 36. gr. c samningalaga að fyllilega þyrfti að vera fyrirsjáanlegt hvaða vexti lántaki myndi greiða af láni með breytilegum vöxtum þegar kröfur um lögmæti skilmála væru að öðru leyti uppfylltar. Þá var horft til þess að lántökum voru tryggð ákveðin mótvægisúrræði gagnvart ófyrirsjáanleika, svo sem 30 daga tilkynningarfrestur gagnvart vaxtabreytingum.

Af hálfu Arion banka flutti málið Hjördís Halldórsdóttir, hæstaréttarlögmaður og einn eigenda LOGOS. Henni til aðstoðar var Guðjón Þór Jósefsson, fulltrúi. LOGOS þakkar Arion banka fyrir einstaklega gott samstarf í málinu og ekki síst fyrir að bankinn hafi valið LOGOS til að gæta hagsmuna sinna.