Tveir lögmenn bætast við eigendahóp LOGOS

Um áramótin bættust þau Kristófer Jónasson og Maren Albertsdóttir við eigendahóp LOGOS. Þau hafa starfað hjá LOGOS um árabil. LOGOS lögmannsstofa sérhæfir sig í þjónustu við íslenskt og alþjóðlegt viðskiptalíf. Hjá LOGOS starfa um 65 manns.

Kristófer Jónasson er lögmaður með leyfi til málflutnings fyrir héraðsdómi. Helstu starfssvið Kristófers eru félagaréttur og fyrirtækjaráðgjöf, fjárhagsleg endurskipulagning og gjaldþrota­réttur, verktakaréttur, vinnulöggjöf, sjávarútvegur, samruna og yfirtökur og samningaréttur. Kristófer hefur starfað hjá LOGOS frá árinu 2012.

Maren Albertsdóttir er lögmaður með leyfi til málflutnings fyrir héraðsdómi. Hún er með LL.M. gráðu í alþjóðlegum gerðardómsrétti frá Stokkhólmsháskóla. Hún hefur víðtæka þekkingu á sviði stjórnsýsluréttar og tengdum réttarsviðum þar sem reynir á reglur opinbers réttar. Maren starfaði um árabil hjá umboðsmanni Alþingis, meðal annars sem aðstoðarmaður og skrifstofustjóri umboðsmanns þar sem hún hafði yfirumsjón með starfsemi umboðsmanns. Hún var skipuð aðalmaður í kærunefnd jafnréttismála árið 2024 og hefur jafnframt sinnt kennslu í stjórnsýslurétti við laga- og stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands. Maren starfaði hjá LOGOS á árunum 2008-2012 og síðan frá árinu 2022.