Hressandi að halda sér á tánum

Viðskiptablaðið tók skemmtilegt viðtal við Maren Albertsdóttur, nýjan verkefnastjóra hjá LOGOS.

Mynd af Mareni Albertsdóttur, lögfræðingi

Þetta fer mjög vel af stað og það eru skemmtileg verkefni framundan.

"Það er spennandi áskorun að skipta um takt eftir að hafa verið lengi á sama stað. Þetta er nú ekki skref út í óvissuna, ég sleit lögfræðibarnsskónum hjá Logos og þekki vel til þess faglega starfs sem hefur einkennt stofuna sem byggir auðvitað á mjög öflugu og góðu starfsfólki.“ segir Maren Albertsdóttir, sem hefur verið ráðin verkefnastjóri hjá Logos lögmannsþjónustu. Áður starfaði hún sem laganemi og síðar fulltrúi hjá stofunni en hefur undanfarin tíu ár starfað hjá umboðsmanni Alþingis, síðast sem skrifstofustjóri.

Maren telur að reynslan frá umboðsmanni muni nýtast vel í nýju starfi. „Snertifletir viðskiptalífsins við stjórnsýsluna eru oft fleiri og mikilvægari en kann að virðast við fyrstu sýn. Oft er mikið undir í samskiptum við hið opinbera bæði hvað varðar leyfisveitingar og starfsemina almennt. Síðast en ekki síst hafa alþjóðlegar reglur gert það að verkum að auknar kröfur eru til eftirlits á ýmsum sviðum þar sem geta komið upp margvísleg álitaefni. Við þurfum öflugt eftirlit en atvinnulífið þarf líka sitt svigrúm og það reynir mikið á þetta jafnvægi. Á þessu sviði reynir því oft á valdheimildir stjórnvalda, mörk eftirlits, hversu langt er hægt að ganga og hvort stjórnvöld byggi athafnir sínar á fullnægjandi grundvelli. Á þessi mál reynir mikið hjá umboðsmanni en þar eru málin oftast komin á endastöð. Ég sé tækifæri í því að koma að málum fyrr og frá annarri hlið, nýta þekkinguna og reynsluna í að veita ráðgjöf, bæði til stjórnvalda og til atvinnulífsins.“

Maren fór frekar óhefðbundna leið inn í heim lögfræðinnar, hún lauk BA-gráðu í íslensku árið 2000 og starfaði í framhaldi af því hjá Friðriki Skúlasyni við þróun málfræðigreinikerfis. „Íslenskan og lögfræðin spila mjög vel saman. Það hefur stutt mig í lögfræðinni að hafa þá reynslu. Maður er alltaf að vinna með framsetningu og úrvinnslu texta og þá skiptir máli að hafa góð tök á þeim efnum.“

Maren býr ásamt eiginmanni sínum Þorvaldi Blöndal forritara og þremur drengjum í Vesturbænum, en sjálf ólst Maren upp á Höfn í Hornafirði. Árið 2016 flutti fjölskyldan til Stokkhólms þar sem Maren kláraði LL.M.-gráðu í alþjóðlegum gerðardómsrétti. „Þetta var skemmtileg reynsla og borgin dásamleg. Ég vildi stíga frá skrifborðinu, brjóta aðeins vinnuna upp og gera eitthvað allt annað. Það hefði legið beinast við að taka nám tengdara stjórnsýsluréttinum, en ég vildi halda tengingu við einkageirann. Þegar maður er búinn að sérhæfa sig þá er hressandi að fara út fyrir þægindarammann. Halda sér aðeins á tánum og reyna fyrir sér á öðru sviði.“

Aðspurð um áhugamál segir Maren: „Ég nýt mín best með körlunum mínum fjórum og nánustu vinum og fjölskyldu. Hvort sem það er útivist, ferðalög eða veiði. Svo finnst mér fátt betra en að fá næði með góða bók. Ég var að klára Merkingu eftir Fríðu Ísberg, mæli með henni hiklaust , sem og Americanah eftir Adichie. Ég læt aftur á móti samfélagsmiðlana alveg í friði við mismikla ánægju vina og fjölskyldu og horfi frekar á beinar útsendingar af körfubolta eða fótbolta.“

Viðtalið í Viðskiptablaðinu.

Sérfræðingarnir okkar