Hryggjarstykki græna hagkerfisins

Í þessari grein verður fjallað um þýðingu reglugerðarinnar fyrir fjárfesta og fyrirtæki og hvernig flokkunarkerfið virkar í framkvæmd.

Höfundar: Helga Melkorka Óttarsdóttir, Arnar Sveinn Harðarson
Íslenskur mosi og grjót

Áður hafa höfundar þessarar greinar fjallað um aðalatriði flokkunarreglugerðar Evrópusambandsins (e. EU Taxonomy Regulation) og hvernig flokkunarkerfið gerir það mögulegt að skilgreina hvort atvinnustarfsemi er umhverfissjálfbær (græn) eða ekki.

Hver er ábyrgur?

Tæpt er á því í fyrri grein okkar að ákvæði flokkunarreglugerðarinnar leggi upplýsingaskyldu á fjármálafyrirtæki sem bjóða upp á fjármálaafurðir, t.d. sjóði eða eignastýringu, sem sagðar eru sjálfbærar eða einkennast af umhverfissjónarmiðum. Til að fjármálafyrirtæki geti staðið við umrædda upplýsingaskyldu verður það að safna og vinna úr umtalsverðu magni upplýsinga frá fjölda fyrirtækja og því er tilefni til að varpa ljósi á hver ber ábyrgð á upplýsingaflæðinu og að upplýsingarnar séu réttar, fyrirtækin sjálf eða fjármálafyrirtækið.

Félög sem þurfa nú þegar að skila skýrslu um ófjárhagsleg atriði skv. 66. gr. d laga um ársreikninga nr. 6/2006, þar á meðal skráð íslensk félög, munu sjálf þurfa að meta umhverfissjálfbærni eigin reksturs. Fjármálafyrirtæki mega treysta á að upplýsingar í slíkri skýrslu séu réttar þegar þau sinna eigin upplýsingaskyldu. Aftur á móti þurfa þau sjálf að framkvæma mat á umhverfissjálfbærni fjárfestinga sem tengjast félögum sem skila ekki skýrslu um ófjárhagsleg atriði. Takmarkað aðgengi að gögnum er ein helsta áskorun flokkunarkerfisins, en reikna má með að það breytist til batnaðar þegar fram í sækir með aukinni reynslu og þekkingu.

Framkvæmdin

Ólíkt öðrum umfangsminni tilraunum til að kortleggja sjálfbærni fjárfestinga byggir flokkunarkerfi ESB í grunninn á atvinnugreinum. Í stað þess að skoða einstaka aðgerðir fyrirtækja í þágu umhverfisins, t.d. þegar banki setur upp sólarsellur eða býður upp á grænmetiskost í mötuneytinu, gengur flokkunarkerfið út á hvort tiltekin starfsemi fullnægir skilyrðum viðeigandi atvinnugeira fyrir umhverfissjálfbærni. Til skýringar má nefna að rekstur leigubifreiða verður að óbreyttu að losa minna en 50g CO2/km til að styðja verulega við umhverfismarkmiðið um mótvægisaðgerðir gegn loftslagsbreytingum.

Í tæknilegu viðmiðunarreglunum má finna skilyrði sem starfsemi fyrirtækja innan hvers atvinnugeira verður að uppfylla svo hún geti talist vera græn. Fyrirtæki sem uppfylla ekki þessar kröfur verða að gera breytingar á rekstri sínum vilji þau fá hinn eftirsótta stimpil, að vera umhverfissjálfbær atvinnustarfsemi. Hafa verður í huga að atvinnustarfsemi sem er græn í dag verður það ekki endilega til frambúðar, þar sem kröfurnar munu í mörgum tilfellum aukast með tímanum.

Tæknilegu viðmiðunarreglurnar veita sömuleiðis upplýsingar um hvernig hver og ein atvinnustarfsemi getur staðið við kröfuna um að hafa ekki verulega neikvæð áhrif á önnur umhverfismarkmið. Þess má geta að flestar kröfur um að hafa ekki veruleg neikvæð áhrif á önnur umhverfismarkmið byggja á núgildandi regluverki ESB og nauðsynleg gögn ættu því í mörgum tilfellum að vera til staðar nú þegar. Fjárfestar geta oft á tíðum gert ráð fyrir að fyrirtæki brjóti ekki í bága við regluverk ESB, nema að annað komi í ljós.

Grænleiki fjármálaafurðar

Flokkunarkerfið snýst ekki einungis um að skera úr um hvort fjármálaafurðir eru grænar eða ekki, það gefur okkur tækifæri til að mæla hversu grænar þær eru, í prósentum talið. Fjármálaafurðir geta verið samansettar úr fleiri en einni fjárfestingu, og að baki hverri fjárfestingu er félag sem stundar atvinnustarfsemi. Aðferðir við að reikna hlutfall umhverfissjálfbærni fjármálaafurðar eru mismunandi eftir því að hvaða umhverfismarkmiði er stefnt og hvers konar fjárfestingar um ræðir. Þegar hlutabréf eru annars vegar verður t.d. að skoða hve stórt hlutfall af veltu félagsins má rekja til umhverfissjálfbærrar starfsemi. Umhverfissjálfbærnihlutfall („grænleika“) hlutabréfasjóðs má finna með því að reikna vegið meðaltal af sjálfbærnihlutfalli hverrar fjárfestingar í sjóðnum.

Flokkunarreglugerðin gerir ekki kröfu um að fjármálaafurð nái ákveðinni prósentutölu svo að hana megi kalla sjálfbæra eða græna. Lykilatriðið er gagnsæi. Útgefendur verða nú að rökstyðja fullyrðingar um sjálfbærni með áþreifanlegum staðreyndum og endafjárfestar munu eiga auðvelt með að sjá hvar alvara býr að baki. Þetta þýðir m.a. að sjóður, sem sagður er vera grænn, missir ekki sjálfbærnistimpilinn þó ein undirliggjandi fjárfestinga hætti að vera umhverfissjálfbær, t.d. vegna breytinga á flokkunarkerfinu eða strangari krafna. Aftur á móti lækkar grænleiki sjóðsins og rekstrarfélag hans þarf að upplýsa um það.

Horft til framtíðar

Þó fjármálamarkaðurinn beini sjónum sínum réttilega að upplýsingaskyldum flokkunarreglugerðarinnar verður að hafa í huga að flokkunarkerfið er í sjálfu sér meira og merkilegra fyrirbæri en tæki til að miðla upplýsingum. Flokkunarkerfið er hryggjarstykki allrar umræðu um sjálfbærni fjárfestinga og gerir fjármálaheiminum loksins kleift að tala um sjálfbærni fjárfestinga af alvöru. Þá gerir kerfið fjárfestum mögulegt að fjárfesta í starfsemi sem sannanlega telst græn.

Velflest ríki heims hafa skuldbundið sig til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda umtalsvert í gegnum Parísarsamninginn og þurfa að fjármagna þær breytingar sem hann hefur í för með sér. Forsætisráðherra Japans sagði nýlega, um leið og ríki hans fetaði í fótspor ESB um að stefna að kolefnishlutleysi fyrir árið 2050, að glíman við loftslagsbreytingar hamli ekki lengur hagvexti. Grænt hagkerfi er ekki einungis nauðsynlegt til að afstýra hörmungum loftslagsbreytinga, það er eftirsóknarvert og hagkvæmt. Gera má ráð fyrir að regluverk fjármálaheimsins þróist í samræmi við það, eins og raun ber nú þegar vitni. Þá er eins gott að þekkja og skilja hryggjarstykkið sjálft, flokkunarkerfi ESB.

Greinin í Markaðinum.

Tengdar greinar