Innleiðing MAR, MiFID II, PSD2 og UCITS V

Undanfarið hefur Alþingi samþykkt nokkurn fjölda laga á sviði fjármálamarkaða og fjármálaþjónustu, meðal annars til innleiðingar á evrópsku regluverki.

Bókahilla

Undirgerðir sem útfæra nánar ákvæði viðkomandi regluverks verða síðan teknar upp í íslenskan rétt ýmist með reglugerð ráðherra eða reglum Seðlabanka Íslands, eftir því sem við á. Þess skal getið að þegar samantekt þessi er skrifuð eru lögin enn óbirt í Stjórnartíðindum og hefur þeim því ekki verið gefið númer.

Lög um aðgerðir gegn markaðssvikum voru samþykkt þann 25. maí 2021. Lögin öðlast gildi 1. september 2021. Með lögunum er ákvæðum reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 596/2014 um markaðssvik (MAR) veitt lagagildi hér á landi. Markaðssvik er hugtak sem nær yfir innherjasvik, ólögmæta miðlun innherjaupplýsinga og markaðsmisnotkun. Við gildistöku laganna falla úr gildi ákvæði laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti um verðmyndun á skipulegum verðbréfamarkaði og meðferð innherjaupplýsinga og viðskipti innherja.

Lög um markaði fyrir fjármálagerninga voru samþykkt þann 13. júní 2021. Lögin öðlast gildi 1. september 2021. Með lögunum eru ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2014/65/ESB um markaði fyrir fjármálagerninga (MiFID II) og reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 600/2014 um markaði fyrir fjármálagerninga (MiFIR) innleidd í íslenskan rétt, ásamt tilteknum undirgerðum MiFID II, sem útfæra nánar einstök ákvæði regluverksins. Með lögunum hafa einnig verið innleidd ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2021/338/ESB um breytingar á MiFID II hvað varðar upplýsingagjöf, vöruþróun og hámörk á stöðum (Quick FIX). Við gildistöku laganna falla brott lög nr. 110/2007 um kauphallir. Þá verða við gildistöku laganna nokkrar breytingar gerðar á lögum nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti og lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.

Lög um greiðsluþjónustu voru samþykkt þann 13. júní 2021. Lögin öðlast gildi 1. nóvember 2021. Um er að ræða ný heildarlög um greiðsluþjónustu en með þeim er innleidd tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/2366 um greiðsluþjónustu á innri markaðnum (PSD2). Við gildistöku laganna falla úr gildi núgildandi lög nr. 128/2011 um greiðsluþjónustu og koma til framkvæmda breytingar á lögum nr. 17/2013 um útgáfu og meðferð rafeyris.

Lög um verðbréfasjóði voru samþykkt þann 13. júní 2021. Lögin öðlast gildi 1. september 2021. Um er að ræða ný heildarlög um verðbréfasjóði, m.a. til innleiðingar á ákvæðum tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2014/91/ESB (UCITS V) og tilskipun 2010/78/ESB (Omnibus I) í íslenskan rétt. Við gildistöku laganna falla úr gildi lög um verðbréfasjóði nr. 128/2011.

Óhætt er að segja að umræddar breytingar séu miklar að umfangi og feli í sér áskoranir. Með lagasetningunni er stigið mikilvægt skref í samræmingu íslenskra reglna við evrópskt regluverk á sviði fjármálamarkaða og fjármálaþjónustu.

Bendum áhugasömum á möguleikann á að skrá sig á póstlistann fjármálaþjónusta og regluverk.