Skattlagning jólagjafa - hugvekja/hrollvekja

Fréttablaðið birti í morgun grein eftir Jón Elvar Guðmundsson eiganda á LOGOS.

Höfundur: Jón Elvar Guðmundsson
Nærmynd af konu vera að opna pakka

1.

Nú er runninn upp sá tími árs sem veldur árlegum taugatitringi hjá mörgum, ekki spurningin um það hvað eigi að gefa makanum í jólagjöf heldur hvernig ríkisvaldið skattleggi gjöfina.

Lög um tekjuskatt eru þögul um jólagjafir, svona að mestu. Þau tiltaka að gjafir séu skattskyldar, þ.m.t. gjafir til nákominna ættingja, en undanskilja allranáðarsamlegast tækifærisgjafir enda sé verðmæti þeirra ekki meira en almennt gerist um slíkar gjafir.

Ekki er ljóst hvað þetta þýðir, en þetta tekur til jólagjafa. Ekki minnkar taugatitringur undirritaðs við þá uppgötvun og ýmsar spurningar vakna. Skyldi vera þörf á víðtækri samanburðarrannsókn til að finna út almenn verðmæti jólagjafa, kannski á meðal nágranna? Það er ekki einfalt samtal að spyrja nágrannana að því hve dýrar gjafir þeir gefa mökum sínum. Hvað með börnin, er óhætt að gefa þeim eitthvað umfram kerti og spil? Hvað skyldu lögin nú segja um þessi samskipti heimilisfólks?

2.

Eftir ítarlega leit í lögum um tekjuskatt finnast engar frekari leiðbeiningar um skattskyldu jólagjafa. Það kom þó í ljós að lögunum er kveðið á um að ef annað hjóna verður það á að búa erlendis þá sé skattskylt það „framfærslufé“ sem það kann að útvega því sem hér býr. Orðalag laganna virðist skýrt - ef árið væri 1820 eða fyrr. Það sem meira er, lögin segja framfærslufé frá öðru hjóna skattskylt þó ekki sé hægt að sanna tilvist þess, jú þá er skattyfirvöldum heimilt að áætla hvað sé sanngjarnt og hæfilegt í þessum ráðstöfunum á milli maka.

Nú fóru höfundar að ókyrrast verulega. Ef skattyfirvöld geta áætlað framfærslu maka og skattlagt hana er þá ekki næsta víst að þau geti líka áætlað skattskyldar jólagjafir hjá þeim sem fá lítið eða ekkert í jólagjöf frá makanum? Ef það er rétt þá vandast málið enn frekar því þá þarf að hitta á nákvæma fjárhæð. Hún má hvorki vera hærri né lægri en verðmæti tækifærisgjafar - eins og almennt gerist.

Annar höfunda minntist þess þá að hafa beðið konu sína um að kaupa epli, sem enginn annar á heimilinu borðar. Skyldi það leiða til skattskyldrar framfærslu, eða á það bara við ef makinn býr erlendis?

3.

Það er skammur tími til jóla og með taugarnar þandar tók undirritaður til við að leita í framkvæmd. Það skilaði litlu – og þó. Í deilu frá 2010 gerði maki kröfu um að fá ívilnun í sköttum vegna framfærslu eiginkonu. Með ítarlegum rökstuðningi, m.a. með vísan til þess að ívilnun væri ekki ætlað að eiga við vegna framfærslu „skylduómaga“, þá var kröfu mannsins hafnað. Í deilu frá 1989 reyndi skattstjóri hins vegar að áætla konu framfærslufé sem hafði gerst það djörf að ganga í hjúskap með manni sem bjó erlendis. Skatturinn taldi hana ekki hafa gert nægilega skilmerkilega grein fyrir framfærslu sinni og framfærslufé frá maka. Álagningin náði reyndar ekki fram að ganga vegna formgalla. Í tveimur öðrum deilum frá 1987 fundust sambærilegt mál um framfærslufé.

4.

Leitin hélt áfram. Fáar vísbendingar komu upp á yfirborðið þrátt fyrir þrotlausa leit en einstaka fornleifar komu í ljós. Árið 2000 tók sveitarfélag upp á því að gefa nýfæddum börnum kr. 100 þúsund. Það var skattlagt. Árið 1994 fengu hjón að gjöf landspildu í fertugsafmælisgjöf að verðmæti tæplega 80 þúsund á mann – skattskyld samkvæmt skattstjóra en álagning var felld úr gildi sökum formgalla.

5.

Niðurstaðan? Undirritaður treysti sér ekki í að yfirheyra nágrannana hvað þeir gæfu mökum sínum mikil verðmæti í jólagjöf. Það er augljóslega öruggast að gefa mökunum ekki neitt – allavega lítið. Börnin, þau geta fengið smádót í skóinn án áhættu. Hins vegar eru leikjatölvur og álíka verðmæti í gjafir ákveðið hættuspil. Sennilega er öruggast að bera allar gjafir undir ríkisskattstjóra áður en þær eru gefnar. En það krefst undirbúnings, erfitt stuttu fyrir jól. Svo þarf að taka til sérstakrar skoðunar þetta með framfærslufé – undirritaður eru svo heppinn að geta talist til skylduómaga útivinnandi, harðduglegs maka og hefur eflaust oft notið góðs af því án þess að telja framfærslufé fram til tekna.

Sérfræðingarnir okkar