Skipunarferli skiptastjóra og aðfinnslumál

Lögmannablaðið tók viðtal við Bjarka Má Magnússon, lögfræðing á LOGOS, þar sem farið er yfir skipunarferli skiptastjóra í þrotabúum og aðfinnslumál.

Mynd af Bjarka Má Magnússyni, lögfræðingi á LOGOS

Skipun skiptastjóra hefur um langt skeið verið gagnrýnd af lögmönnum sem hafa margir hverjir fundið að ógagnsæi við skipun skiptastjóra, mismunun í tengslum við fjölda úthlutaðra þrotabúa auk þess sem kynjasjónarmið hafa verið rædd. Jafnframt hafa kröfuhafar, gjaldþrota aðilar sem og lögmenn gagnrýnt hversu mikið þurfi að koma til svo skiptastjóri hljóti aðfinnslur eða sé vikið úr starfi.

Á vormánuðum skrifaði Bjarki Már Magnússon lögfræðingur M.L. ritgerð við lagadeild Háskólans í Reykjavík sem ber heitið „Skiptastjórar í þrotabúum - skipun skiptastjóra, aðfinnslur og brottvikning“ en hann hefur meðfram námi og eftir útskrift aðstoðað lögmenn hjá LOGOS við skiptastjórn í þrotabúum.

Bjarki Már fékk aðgang að gögnum hjá héraðsdómstólum sem hann vann síðan úr og greindi í rannsóknarvinnu sinni. Lögmannablaðið spurði Bjarka Má út í ritgerðina.

Að hverju sneri rannsóknin og hverjar eru helstu niðurstöður?

Rannsóknin sneri annars vegar að skipun skiptastjóra og hins vegar aðfinnslumálum. Niðurstöður voru margvíslegar. Má þar nefna að héraðsdómur gæti gætt betur að hæfi skiptastjóra áður en skipun fer fram. Æskilegt væri að bæta verklag hvað varðar utanumhald varðandi upplýsingar um skiptastjóra, upplýsingar sem liggja þurfa til grundvallar við val á þeim skv. leiðbeinandi reglum um skipun skiptastjóra og umsjónarmanns með nauðasamningsumleitunum nr. 2/2019. Ég tel að leiðbeinandi reglur um skipun skiptastjóra hafi verið til verulegra bóta en þó eru ýmis atriði sem þarf að skoða betur. Til að mynda mætti skipta þeim sjónarmiðum sem leggja þarf til grundvallar við skipunina í áhersluröð auk þess sem það væri til bóta ef reglur yrðu settar um aðstöðu skiptastjóra þegar um er að ræða stærri bú. Þá má velta því upp hvort þörf sé á heimild fyrir héraðsdómstóla að víkja skiptastjóra af skiptastjóralistanum tímabundið, hafi hann brotið af sér í starfi.

Til viðbótar við þetta má nefna að það kom á óvart hve mikla áherslu dómstólar á landsbyggðinni leggja á að skipa lögmenn sem hafa starfsstöðvar í þeirra umdæmi. Að mínu mati ætti ekki að vera ráðandi sjónarmið við skipun skiptastjóra.

Hafa rannsóknir áður verið gerðar á málum sem tengjast aðfinnslum við störf skiptastjóra?

Eftir því sem ég best veit er sú rannsókn sem ég framkvæmdi á aðfinnslumálum sú fyrsta sem gerð hefur verið og kom það verulega á óvart í ljósi fjölda aðfinnslumála sem hafa komið til kasta dómstóla og þeirra hagsmuna sem kunna að vera undir. Hér má nefna að nú liggja fyrir andstæðar niðurstöður í dómsmálum varðandi aðild að aðfinnslumálum svo nokkur réttaróvissa er til staðar. Er ég þar að vísa til þess að Landsréttur komst að því í málum nr. 81/2019 og 647/2020 að krafa kröfuhafa þurfi að vera samþykkt til að hann geti átt aðild að aðfinnslumáli. Héraðsdómur Reykjavíkur hefur aftur á móti komist að andstæðri niðurstöðu, þrátt fyrir að fyrrnefnd nýleg fordæmi Landsréttar hafi legið til grundvallar. Eftir skoðun mína á málinu tel ég að rök standi til þess að niðurstöður héraðsdóms séu réttar og að það fái stoð í lögskýringargögnum. Að auki eru málsmeðferðarreglur aðfinnslumála að mínu mati óljósar og tel ég að þörf sé á endurskoðun þeirra.

Telur þú að of litlar kröfur séu gerðar til skiptastjóra?

Niðurstöður aðfinnslumála gefa til kynna að of litlar kröfur séu gerðar til skiptastjóra, en mjög mikið þarf til að koma svo að skiptastjóri hljóti aðfinnslur og miðað við úrskurðarframkvæmd er nánast ómögulegt að víkja skiptastjóra úr starfi. Varðandi skipun skiptastjóra, þá er hægt að færa rök fyrir því þegar kemur að stærri þrotabúum, að þau eigi að fara til reynslumikilla lögmanna sem búa yfir mikilli sérþekkingu og í ljósi þess mætti setja strangari hæfiskröfur á lögmenn í slíkum þrotabúum.

Hvaða breytingar telur þú að gera þurfi til að bæta úr?

Til að bæta úr þeim annmörkum sem fjallað er um í ritgerðinni væri þörf á annars vegar lagabreytingu og hins vegar verklagsbreytingu hjá dómstólum.

Í fyrsta lagi tel ég umhugsunarefni hvort ekki sé rétt að löggjafinn ákveði að úthlutun þrotabúa skuli eingöngu vera til lögmanna. Samkvæmt núgildandi lögum um gjaldþrotaskipti er það ekki skilyrði að einstaklingur sé lögmaður til að fá úthlutað þrotabúum, heldur að hann hafi lokið meistaranámi í lögfræði. Í framkvæmd eru þó aðeins lögmenn skipaðir skiptastjórar og vísa leiðbeinandi reglur um skipun skiptastjóra jafnframt til lögmanna, en ekki lögfræðinga. Í öðru lagi tel ég þörf á að endurskoða málsmeðferðarreglur sem gilda um aðfinnslumál á grundvelli 76. gr. gþl. en ég fjalla um rökin fyrir því í ritgerðinni. Í þriðja lagi má velta því upp hvort ekki sé þörf á lagabreytingu svo ekki sé til staðar réttaróvissa varðandi aðild að aðfinnslumálum. Einnig tel ég nauðsynlegt að það sé skoðað hvort ekki sé rétt að birta ákvarðanir og úrskurði héraðsdóms í aðfinnslumálum. Það væri að mínu mati til bóta að úrlausnir yrðu birtar svo læra mætti af þeim. Að lokum tel ég þörf á að bæta við ákvæði í 76. gr. gjaldþrotalaga þess efnis að ef skiptastjóri segir starfinu lausu, eða er vikið úr starfi, beri honum að afhenda héraðsdómi öll gögn sem hann hefur undir höndum sem tengjast skiptunum. Slíku ákvæði er ekki að dreifa í núgildandi löggjöf, en slíkt ákvæði má finna í dönsku gjaldþrotalögunum.

Það er ekki í öllum tilvikum þörf á lagabreytingum. Dómstólar gætu til dæmis breytt verklagi sínu með þeim hætti að hafa samband við lögmann áður en hann er skipaður skiptastjóri svo hann geti kannað hæfi sitt. Að auki gæti dómstólasýslan breytt leiðbeinandi reglum um skipun skiptastjóra telji hún þörf á frekari reglum.

Hagsmunir kröfuhafa ættu að vega þyngra

Hvernig telur þú að hagsmunum kröfuhafa sé best borgið varðandi skiptastjórn þrotabúa?

Það fer eftir umfangi gjaldþrotaskiptanna. Í stærri þrotabúum er að mínu mati nauðsynlegt að fá reynslumikinn lögmann til að annast gjaldþrotaskiptin og þá væri gott að líta til sérfræðiþekkingar lögmannsins við mat á því hvort hann sé réttur aðili til að skipta viðkomandi þrotabúi. Ekki er þó alltaf þörf á slíkum skiptastjóra, t.d. í þrotabúum þar sem litlar sem engar eignir eru til staðar og fyrirséð að ekki þurfi að ráðast í umfangsmiklar aðgerðir við endurheimt verðmæta. Héraðsdómarar og aðstoðarmenn dómara, mættu leggja ríkari áherslu á reynslu og sérfræðiþekkingu skiptastjóra þegar um er að ræða stærri þrotabú og að sjónarmið um búsetu skiptastjóra og jafnræði milli lögmanna við úthlutun búa ættu að mínu mati að hafa minna vægi. Með öðrum orðum tel ég að hagsmunir kröfuhafa í stórum búum til að fá hæfasta skiptastjórann eigi að vega þyngra heldur en sjónarmið um að úthluta lögmönnum þrotabúum á grundvelli jafnræðissjónarmiða.

Ætti skiptabeiðandi, eða eftir atvikum aðrir kröfuhafar, að hafa eitthvað um það segja hvern dómari skipar sem skiptastjóra?

Reglurnar hvað þetta varðar eru mismunandi á milli landa. Í Danmörku gefst kröfuhöfum til að mynda ákveðið tækifæri til að hafa áhrif á hvaða skiptastjóri er skipaður. Sjónarmiðin sem lögð eru til grundvallar á Íslandi styðja frekar við það að skiptastjóri gæti hagsmuna allra kröfuhafa frekar en að leggja áherslu á hagsmuni stærstu kröfuhafanna á kostnað annarra. Ég tel að íslenska leiðin hafi virkað vel hingað til og að þau úrræði sem kröfuhafar hafa til að setja út á störf skiptastjóra séu að mestu fullnægjandi.

Sérfræðiþekking skiptastjóra

Nú kemur fram í rannsókninni að sérfræðiþekkingu skiptastjóra sé ekki haldið markvisst til haga, ættu dómstólarnir að standa betur að verki?

Þau sjónarmið sem koma fram í leiðbeinandi tilmælum um skipun skiptastjóra eru til mikilla bóta að mínu mati, en þó skortir samræmt utanumhald á þessum upplýsingum hjá dómstólum. Dómstólasýslan gæti t.d. búið til sameiginlegan gagnagrunn fyrir alla dómstólana þar sem haldið væri til haga þeim upplýsingum um skiptastjóra sem dómstólar þurfa að halda utan um, s.s. reynslu, fjölda úthlutaðra búa, sérfræðiþekkingu og kvartanir sem borist hafa vegna viðkomandi sem ekki hefur verið vísað frá sem haldlausum.

Ætti jafnvel að setja reglur um ríkari hæfniskröfur til lögmanna sem skiptastjóra í umfangsmiklum búum þar sem miklir fjárhagslegir hagsmunir eru undir eða ljóst að verulegur ágreiningur er á milli kröfuhafa?

Í meistararitgerðinni velti ég upp nokkrum hugmyndum að breytingum er lúta að þessu álitaefni. Má þar nefna að gera kröfu um að lögmaður skuli hafa aðstoðað við tiltekinn fjölda skipta undir handleiðslu skiptastjóra áður en hann getur fengið úthlutuðum þrotabúum sjálfur. Önnur hugmynd væri að setja lágmarkskröfur um sérfræðiþekkingu og reynslu þegar um er að ræða stærri þrotabú, s.s. að viðkomandi þyrfti að hafa skipt tiltekið mörgum þrotabúum áður en honum er úthlutað stærri þrotabúum. Góð byrjun væri þó að setja ítarlegri skilyrði í leiðbeinandi reglur um skipun skiptastjóra þar sem slíkt yrði nánar útfært.

Þörf á betri umgjörð og gagnsæi

Nú eru dómstólarnir með svokallaða „skiptastjóralista“ á sínum vegum um þá lögmenn sem vilja taka að sér þrotabú. Telur þú að dómstólarnir fari almennt eftir þessum listum?

Af skiptastjóralistanum sem dómsmálaráðherra birti fyrr á þessu ári í svari við fyrirspurn þingmanns sést að töluverður munur er á milli lögmanna þegar kemur að úthlutun þrotabúa. Listinn segir þó ekki alla söguna þar sem sumir lögmenn hafa fengið stærri bú sem tekur langan tíma að skipta og fá þar af leiðandi færri bú. Héraðsdómur Reykjavíkur og Reykjaness hafa staðið sig vel í að gæta jafnræðis, en ekki verður annað séð en að dómstólar út á landi skipi í flestum tilfellum lögmenn með starfsstöð innan þeirrar þinghá. Þar eru færri lögmenn sem fá úthlutuðum þrotabúum og því er í mörgum tilfellum fjöldi þeirra búa sem lögmenn út á landi fá hærri heldur en gerist á höfuðborgarsvæðinu. Þeir tíu lögmenn sem fengu flestum þrotabúum úthlutað samkvæmt skiptastjóralistanum eiga það allir sameiginlegt að meirihluti þeirra þrotabúa sem þeim er úthlutað koma frá dómstólum utan höfuðborgarsvæðisins, en fjöldi úthlutaðra þrotabúa til þeirra er frá 73 og upp í 124 bú. Í meðfylgjandi töflu, sem unnin er úr skiptastjóralistanum og nær til tímabilsins 2012-2021, má sjá meðaltal og miðgildi úthlutaðra þrotabúa til lögmanna, sundurliðað eftir hverjum dómstól fyrir sig.

Fjöldi skiptastjóra á listum héraðsdómstólanna

  • Héraðsdómur Reykjavíkur: 258
  • Héraðsdómur Reykjaness: 259
  • Héraðsdómur Suðurlands: 284
  • Héraðdómur Norðurlands eystra: 49
  • Héraðsdómur Vesturlands: 146
  • Héraðsdómur Vestfjarða: 20
  • Héraðsdómur Norðurlands vestra: 20
  • Héraðdómur Austurlands: 23

Telur þú að ákvörðun um skipun skiptastjóra skuli vera rökstudd og þá eftir atvikum kæranleg til æðra dóms?

Ég tel að þess sé ekki þörf. Í framkvæmd kann slíkur rökstuðningur að valda miklum vandkvæðum og myndi auka álag á dómstóla. Einn helsti rökstuðningurinn fyrir því að skipun skiptastjóra er ekki kæranleg til æðri dóms er að skipunin er ekki rökstudd og því ótækt fyrir æðri dómstól að meta réttmæti skipunarinnar. Yrði gerð breyting þess efnis að skipun skiptastjóra þyrfti að vera rökstudd og skipunin sé kæranleg til æðri dóms kynni slíkt að tefja skipti og hefði í för með sér töluverðan kostnað. Hins vegar tel ég þörf á betri umgjörð og gagnsæi hvernig úthlutun þrotabúa fer fram. Regluleg birting á skiptastjóralistanum sem væri sundurliðaður eftir fjölda úthlutaðra þrotabúa væri einn liður í að auka gagnsæi.

Vantar heimild til að endurupptaka skipti

Þyrfti að breyta fyrirkomulagi málsmeðferðar þannig að skiptastjóri geti ekki lokið skiptum formlega nema fyrir liggi samþykki eða staðfesting héraðsdómara, þannig að skiptastjóri geti ekki skotið sér undan mögulegum aðfinnslum með því að ljúka skiptum?

Ég tel að slík leið yrði aðeins til þess fallin að auka vinnuálag hjá dómurum og hefði í flestum tilfellum lítið vægi. Til að koma til móts við gagnrýni þess efnis að skiptastjóri geti lokið skiptum og komist þannig hjá því að hægt sé að hafa uppi aðfinnslur vegna starfa hans, þá væri nægilegt að lögfesta heimild fyrir héraðsdómara til að endurupptaka skipti komi fram aðfinnslur sem héraðsdómari telur að séu á rökum reistar eða þá að lögfesta heimild til að reka aðfinnslumál óháð skiptalokum. Ég tel þó að endurupptaka skipta vegna reksturs aðfinnslumáls kunni að valda vandkvæðum og tel því heimild til að reka aðfinnslumál óháð skiptalokum vera skárri kost.

Birt með leyfi Lögmannablaðsins 3. TBL. 2022.

Sérfræðingarnir okkar