Nú eru fyrir dómstólum tvö mál þar sem deilt er um úrskurði ríkisskattstjóra.
Án þess að þau séu nákvæmlega tilgreind hér þá snúast þau bæði um nýstárlegar hugmyndir skattsins um að hann leggi mat fjármagnsskipan félaga í rekstri. Þá sé það skattsins að meta það hvort það sé rétt að taka lán til rekstrarins. Ef skattinum finnst að lánsfé eigi ekki að nota í rekstrinum úrskurðar embættið vaxtakostnað ófrádráttarbæran. Skiptir þá engu þó lán sé sannarlega tekið, það notað í rekstrinum og vextir greiddir.
Þó atvik málanna séu áhugaverð sem slík og dæmi um uppátækjasemi og nýsköpun hjá því ágæta embætti sem skatturinn er þá eru þau ekki til umfjöllunar hér. Heldur sú staða að ef borgarinn lendir í deilu við skattinn þá getur sú staða komið upp að ekki virðist hægt að komast út úr henni.
Íslenska skattkerfið í hnotskurn
Embætti skattsins gegnir ýmsum nauðsynlegum hlutverkum. Það hefur með höndum eftirlit með skattþegnum, álagningu skatta o.fl. Þá geta komið upp deilur sem enda með úrskurðum skattsins. Til þess að vernda hagsmuni borgaranna er þeim veittur sá möguleiki að kæra slíka úrskurði til yfirskattanefndar, jafnframt er hægt að leita til dómstóla til að setja niður deilur. Fjármálaráðuneytið hefur svo yfirsýn yfir allt saman án þess að koma að úrlausn einstakra mála. Til grundvallar öllu þessu liggur svo Stjórnarskrá og lög frá Alþingi.
Deilur
Í ofangreindum tveimur málum er staðan sú að í öðru þeirra var leitað beint til dómstóla til þess að setja niður deiluna, héraðsdómur felldi umdeildan úrskurð skattsins úr gildi. Í hinu var leitað til yfirskattanefndar af sömu ástæðu, hún felldi og úrskurð skattsins úr gildi.
Hins vegar varð það nýmæli að fjármálaráðuneytið nýtti heimild í lögum um yfirskattanefnd. Ríkið sjálft fór í mál til þess að fá ógiltan úrskurð yfirskattanefndar - nefndar á vegum ríkisins. Til þess er skattgreiðandi settur í þá ómögulegu stöðu að vera stefnt af ríkinu, til þess auðvitað að verja gerðir yfirskattanefndar - sem var í grundvallaratriðum sammála áðurnefndum héraðsdómi.
Hvernig getur þetta gerst? Jú, staðan er sú að samkvæmt lögum um yfirskattanefnd er það skatturinn sjálfur sem leggur það til við ráðherrann að fara í dómsmál. Skatturinn var sammála sjálfum sér og lagði til dómsmál til að fella úr gildi úrskurð yfirskattanefndar hvers hlutverk er að vernda borgarann fyrir rangri afstöðu skattsins.
Einhver kynni að gerast svo djarfur að velta því fyrir sér hvort þetta sé ásættanlegt fyrirkomulag. Sú yrði kannski hissa þegar hún kemst að því að ríkislögmaður, sem fer með málið og byggir á því að skatturinn sé sammála sjálfum sér, leitar einmitt efnislegra ráða um málflutninginn hvert – nú auðvitað til skattsins.
Borgarinn nýtti sér rétt sinn til að fá afstöðu skattsins hnekkt fyrir yfirskattanefnd lendir í þeirri undarlegu stöðu að festast í viðvarandi baráttu við skattinn - nú í gegnum ríkislögmann.
Ef gert er ráð fyrir því að borgarinn hafi áfram sigur þá kann að koma upp spurning um lagabreytingu. Hver skyldi nú hafa einna sterkustu röddina til ráðgjafar löggjafanum - jú það er aftur embætti skattsins.
Ráð við lagasetningu, úrskurðir um merkingu laga, deilur fyrir dómstólum
Það er ástæða til þess að halda því til haga að embætti skattsins gegnir veigamiklu hlutverki og engin ástæða til þess að draga úr. Það er jafn ljóst að embættið er lægra sett stjórnvald í skattkerfinu og á ekki hagsmuna að gæta við úrlausn deilumála fyrir æðri stjórnvöldum eða dómstólum.
Bæði borgurum og stjórnvöldum ber að fara að lögum. Því er ekki til gagns að skatturinn veiti ráð við lagasetningu, taki ákvarðanir á grundvelli hennar, verji þær ákvarðanir fyrir æðri stjórnvöldum, leggi til við ráðherra að embættið þurfi ekki að lúta ákvörðunum sér æðri stjórnvalda, leggi loks sjónarmið sín fram fyrir dómstólum í gegnum ríkislögmann og líkist þannig helst aðila máls. Ef allt um þrýtur, geri embættið svo tillögur til breytinga á lögum. Niðurstaðan af því er sú að borgarinn á beint eða óbeint í ævarandi deilu við skattinn á öllum stjórnsýslustigum og loks fyrir dómstólum.
Til hvers er þá æðra sett stjórnvald?