Mörg mál sem skattyfirvöld efna til eru hefðbundin og eiga fyllilega rétt á sér. Í flestum refsimálum eru þau að mestu óumdeild og eingöngu rekin fyrir dómstólum þar sem um tiltekna tegund refsimála er að ræða og dómstólar verða að fjalla um þau. Tilefni þessarar greinar er aftur á móti aukinn fjöldi dómsmála á þessu réttarsviði þar sem deilt er um grundvallaratriði varðandi skattskyldu.
Kröfur til skattalaga
Skattaréttur, líkt og refsiréttur, er tiltölulega auðskilinn því grundvallarreglur stjórnskipunarréttarins kveða á um að skatta megi eingöngu leggja á skv. skýru orðalagi laga. Þetta leiðir af lögmætisreglunni og stjórnarskránni sem segir að skattamálum skuli skipað með lögum og að ekki megi fela stjórnvöldum ákvörðun um hvort leggja skuli á skatt, breyta honum eða afnema hann.
Flestir læsir fullorðnir einstaklingar ættu því að skilja skattalög og hvernig skattar eru lagðir á og innheimtir því skattgreiðendur eiga að geta lesið þessar reglur af lögunum sjálfum. Og ef skattgreiðendur vilja ekki eða hafa ekki tíma til að lesa lögin sjálfir geta þeir keypt sér þjónustu sérfræðinga og jafnvel fengið þá til að sjá um framtalsgerð fyrir sig. Skattalög, líkt og refsilög, eiga því að vera gagnsæ og auðskiljanleg þannig að skattbyrði sé fyrirsjáanleg þeim sem kynna sér réttilega skyldur sínar.
Er skattframkvæmd gagnsæ?
Talsverð afturför hefur orðið á gagnsæi túlkana og fyrirsjáanleika í skattframkvæmd. Þá virðist sífellt lengra gengið í afstöðu skattyfirvalda gegn skattgreiðendum.
Til að mynda stefndu skattyfirvöld nýlega skattgreiðanda fyrir dóm og kröfðust ógildingar á úrskurði yfirskattanefndar en nefndin hafði að öllu leyti fallist á lagatúlkanir skattgreiðandans. Niðurstaða nefndarinnar var afgerandi gegn lagatúlkunum Skattsins. Með málatilbúnaði skattyfirvalda er skattgreiðanda gert að verja niðurstöðu yfirskattanefndar fyrir dómi en sá málarekstur hefur þegar kostað skattgreiðandann mikið. Aldrei hefur verið efnt til svona málshöfðunar áður og verður vonandi ekki gert aftur. Þessum málatilbúnaði skattyfirvalda svipar til nýlegs máls þar sem menntamálaráðuneytið höfðaði mál gegn konu vegna niðurstöðu kærunefndar jafnréttismála sem féll henni í vil. Sá málarekstur þótti ekki til fyrirmyndar og var fallið frá honum fyrir Landsrétti.
Eins og nærri má geta er aðför skattyfirvalda á hæpnum lagaforsendum ekkert grín fyrir skattgreiðendur og eru of mörg nýleg dæmi um lagalega tæp og óvægin mál. Þau verða þó ekki rakin frekar hér.