Endur­skoða þarf sér­ís­lenskar reglur um kaup­auka, segir með­eig­andi LOGOS

Innherji birti í gær umfjöllun í tengslum við málstofu sem fram fór á Lagadeginum í sl. viku þar sem rætt var um kauprétti og kaupauka starfsmanna fjármálafyrirtækja.

Mynd af Óttari Pálssyni, lögmanni og meðeiganda á LOGOS

Það er ástæða til þess, að sögn Óttars Pálssonar, lögmanns og meðeiganda hjá LOGOS, að endurskoða núverandi takmarkanir á kaupaukum fjármálafyrirtækja með það fyrir augum að færa gildissvið þeirra og efnisreglur nær því sem þekkist í löndunum í kringum okkur. Séríslenskar takmarkanir á kaupaukum skerða samkeppnishæfni, hækka föst laun bankastarfsmanna verulega og geta jafnvel stuðlað að óæskilegri ákvarðanafælni.

Þetta kom fram í máli Óttars á málstofu sem fór fram á Lagadeginum í síðustu viku þar sem rætt var um kauprétti og kaupauka starfsmanna fjármálafyrirtækja

„Þótt almenningur kunni að hafa sterkar skoðanir á bankabónusum og þeir séu þyrnir í augum einhverra af tilfinningalegum ástæðum er það út af fyrir sig ekki æskilegur útgangspunktur við reglusetningu,“ segir Óttar.

Í erindi sínu bendir Óttar á að lengst af hafi fyrirtæki haft frjálsar hendur um slíkar greiðslur að teknu tilliti til almennra ákvæða í lögum og reglum um stjórnhætti á hverju stað. Áföll á fjármálamarkaði árið 2008 mörkuðu síðan þáttaskil í umræðunni enda var víða litið svo á að rekja hefði mátt ýmis dæmi um óhóflega áhættutöku og skammsýni í rekstri fjármálafyrirtækja til fyrirheita og væntinga bankastarfsmanna um veglega kaupauka í lok árs.

Á vettvangi Evrópusambandsins voru takmarkanir fyrst samþykktar sem hluti af tilskipun (CRD III) sem tók gildi árið 2011. Við reglurnar var aukið og þær nánar útfærðar í nýrri tilskipun árið 2014 (CRD IV) sem síðast var breytt á árinu 2020.

Efnislega fela þær í sér kröfur um að fyrirheit um greiðslu kaupauka taki bæði mið af fjárhagslegum og ófjárhagslegum árangri í starfi til lengri tíma litið, taki mið af áhættu fyrirtækisins nú og síðar, að greiðslu kaupauka sé frestað að hluta, og að hluti kaupauki sé greiddur í hlutabréfatengdum gerningum. Hlutfallið milli fastra launa og kaupauka skal hæst nema 100 prósentum en aðildarríkjum veitt svigrúm til að hækka hlutfallið í 200 prósent hafi ákvörðun þar að lútandi verið tekin á vettvangi hluthafa fyrirtækisins.

Sérstakar reglur um takmarkanir á kaupaukum fjármálafyrirtækja voru fyrst teknar upp í íslenskan rétt árið 2010. Í bráðabirgðaákvæði við lög um fjármálafyrirtæki var mælt fyrir um tímabundið bann við gerð kaupauka­samninga við framkvæmda­stjóra og lykilstarfsmenn færu heildarfjárhæð sem greidd væri samkvæmt slíkum samningum umfram 10 prósent af heildarlaunaútgjöldum fjármála­fyrirtækisins á ársgrunni, eða umfram 25 prósent af heildarlaunum viðkomandi starfsmanns án kaupauka.

þótt hagkerfi okkar sé smátt í samanburðinum er ekki augljóst að stærðin að þessu leyti kalli á frekari hlutfallslegar takmarkanir en annars staðar gilda

„Þannig er hægt að nota kaupauka sem jákvætt tól til að hafa áhrif á hegðun, t.d. að skapa hvata til að hlíta reglum, og stuðla þannig að æskilegri fyrirtækjamenningu.“

- Óttar Pálsson

Nýrri grein var jafnframt bætt við lögin sem kvað á um heimild fjármálafyrirtækis til að veita kauprétt eða kaupaukagreiðslur í samræmi við reglur sem Fjármálaeftirlitið skyldi setja. Slíkar reglur voru samþykktar árið 2011 og með þeim var 25 prósenta hlutfallsþakið, sem samkvæmt lögunum einskorðaðist við framkvæmdastjóra og lykil­starfsmenn, heimfært á alla starfsmenn. Núgildandi reglur eru frá 2016 auk þess sem í sumar tóku gildi viðamiklar breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki að þessu leyti er CRD IV tilskipunin var innleidd í landsrétt.

Óttar, sem var á sínum tíma forstjóri Straums-Burðaráss fjárfestingabanka og hefur eins setið um nokkura ára skeið í stjórn eignarhaldsfélagsins Kaupþings, staðhæfir að íslensku reglurnar gangi umtalsvert lengra en evrópska regluverkið með tvenns konar hætti.

„Annars vegar það að efnislega setja reglurnar kaupaukagreiðslum mun þrengri skorður en svigrúm er til skv. Evrópureglunum. Þar á ég einkum við hlutfallsþakið milli fastra launa og kaupauka er hér 25 prósent, en ekki 100 prósent eða 200 prósent líkt og heimilt er skv. áðurnefndri tilskipun,“ segir Óttar.

Í nóvember 2015 birti Evrópska bankaeftirlitsstofnunin EBA samantekt um framkvæmd aðildarríkja á heimildinni til að færa hlutfallsþakið úr 100 prósentum í 200 prósent. Að Hollandi undanskildu studdist ekkert ríki við lægra hlutfallsþak en 100 prósent og því ljóst að svigrúm evrópskra fjármálafyrirtækja til greiðslu kaupaauka er í flestum tilvikum áttfalt meira en svigrúm íslenskra fjármálafyrirtækja.

„Hins vegar ganga íslenskar reglur lengra en Evrópureglur með því að gildissvið kaupaukareglnanna er rýmra hér en annars staðar þekkist,“ útskýrir Óttar.

„Reglurnar taka ekki aðeins til allra fjármálafyrirtækja heldur til allra starfsmanna slíkra fyrirtækja, óháð stöðu þeirra eða ábyrgð. Þó með þeirri undantekningu að enn ríkari takmarkanir gilda um kaupauka til stjórnarmanna og starfsmanna sem starfa við áhættustýringu, innri endurskoðun eða regluvörslu: Kaupaukar til þeirra eru með öllu óheimilir.“

Óljóst hvers vegna Ísland gengur lengra

Óttar segist eiga afar erfitt með að eygja gildar röksemdir eða egna Ísland gengur lengramálefnaleg sjónarmið því til stuðnings að hér sé gengið jafn langt og raun ber vitni. Hann bendir á að samtenging launa og árangurs hafi lengi tíðkast á íslenskum vinnumarkaði og nærtækt sé að líta til sjávarútvegsins þar sem hlutaskiptakerfi í vinnusamningum sjómanna við útgerðir grundvallast á því að laun sjómanna taki mið af því hvernig fiskast.

„Þá verður ekki séð að kaupaukar hjá fyrirtækjum sem aðeins búa við almennar takmarkanir að þessu leyti […] gefi tilefni til að ætla að kaupaukar yrðu hér ákvarðaðir þannig að af þeim stafaði bráð hætta þótt svigrúm til slíkra greiðslna yrði rýmkað að lögum,“ segir hann.

„Þegar kemur að fjármálamarkaðinum og bankakerfinu þá byggir hvort tveggja að langstærstum hluta á samevrópskum reglum þannig að varla ræður sérstaða okkar þar úrslitum. Og þótt hagkerfi okkar sé smátt í samanburðinum er ekki augljóst að stærðin að þessu leyti kalli á frekari hlutfallslegar takmarkanir en annars staðar gilda.“

Í tvígang hefur verið til umræðu að breyta reglunum. Í frumvarpi sem lagt var fram á Alþingi árið 2015 var lögð til sú breyting að takmarkanir á kaupaukagreiðslum næðu aðeins til stjórnarmanna og þeirra starfsmanna sem gætu haft veruleg áhrif á áhættusnið fyrirtækisins. Ekki reyndist pólitísk samstaða fyrir þeirri breytingu og svo fór að frumvarpið dagaði upp á þinginu.

Tilfinning mín er sú að stundum farist fyrir að taka tillit til hinna neikvæðu þátta enda þeir kannski ekki eins augljósir

Þá skipaði fjármála- og efnahagsráðherra starfshóp í október 2020 í tengslum við innleiðingu nokkurra Evrópugerða á sviði fjármálamarkaða. Starfshópurinn lagði til breytingu á gildissviði kaupaukareglnanna með því að einskorða takmarkanir við stjórnarmenn og starfsmenn sem hefðu marktæk áhrif á áhættusnið fyrirtækisins.

Er ráðherra lagði frumvarp til breytingalaganna fram á Alþingi hafði verið horfið frá þessari hugmynd og eftir stóð gildis­sviðið óbreytt. Aðeins eitt verðbréfafyrirtæki, Arctica finance, gerði athugasemdir við gildissvið og takmarkanir kaupaukareglnanna.

Taka þarf tillit til margvíslegra neikvæðra áhrifa

Takmörkunum á kaupaukum er ætlað að tempra áhættuhegðun starfsmanna fjármálafyrirtækja með því að draga úr persónulegum og fjárhagslegum hvötum þeirra til ráðstafana sem skapa óhóflega áhættu. Jafnframt er reglunum ætla að stuðla að áreiðanleika upplýsinga um reikningsskil fjármálafyrirtækja með því að draga úr annars sterkum hvötum bankamanna til að sýna jákvæðan skammtímaárangur í rekstri. Með hvoru tveggja er leitast við að auka stöðugleika og draga úr kerfisáhættu á fjármálamarkaði en Óttar spyr hvort víst sé að þessar takmarkanir hafi í raun tilætluð áhrif.

„Í umræðunni er stundum gengið að því sem vísu að takmarkanir við kaupaukum dragi úr áhættu fjármálafyrirtækja og kerfisins í heild. Rannsóknir eru þó ekki einhlítar að þessu leyti. Gleymum því ekki að nettóáhrif reglusetningar ráðast af summu jákvæðra og neikvæðra þátta. Tilfinning mín er sú að stundum farist fyrir að taka tillit til hinna neikvæðu þátta enda þeir kannski ekki eins augljósir.“

Og að hans mati eru að minnsta kosti fjórir neikvæðir þættir sem taka þarf tillit til. Fyrst nefnir hann skerta samkeppnishæfni fjármálafyrirtækja.

Á meðan varkárni er æskileg, er áhættufælni ekki endilega eftirsóknarverð, a.m.k. ekki að því leyti sem af henni leiðir að jákvæð tækifæri fara forgörðum

„Í störfum mínum sem lögmaður hef ég komið að ýmsum atvinnurekstri en óvíða orðið var við jafn mikla samkeppni um hæft starfsfólk og á fjármálamarkaði. Þeir sem þar starfa eru gjarnan einstaklingar drifnir áfram af fjárhagslegum hvötum og því hníga veigamikil rök að því að ríkar skorður við kaupaukagreiðslum dragi, að öðru óbreyttu, úr möguleikum fjármálafyrirtækja til að laða að sér og halda í hæft starfsfólk. Þannig eru líkur á að hæfustu einstaklingarnir leiti á önnur mið, sæki í önnur störf, ef ekki er hægt að greiða þeim kaupauka,“ segir Óttar og hann bætir við að af þessum sökum hafi fjármálaráðherra Bretlands til skoðunar að afnema með öllu þak á kaupauka þar í landi.

Í öðru lagi er fyrirséð og óhjákvæmileg afleiðing þess að takmarka svigrúm til greiðslu kaupauka að föst laun hækka umtalsvert.

„Það sem skorið var af breytilegum starfskjörum þurfti því að bæta upp með viðbót við föst starfskjör, a.m.k. að einhverju leyti. Sú hefur orðið raunin hér sem annars staðar. Þessi hliðrun felur í sér að það sem áður heyrði til breytilegs kostnaðar fyrirtækis er nú fastur kostnaður. Með því dregur úr möguleikum fyrirtækjanna til að laga kostnaðargrunn sinn að aðstæðum hverjum sinni. Af því hlýst rekstraráhætta sem taka verður tillit til.“

Þriðji neikvæði þátturinn snýr að því að takmarkað svigrúm til að samtengja fjárhagslega hagsmuni starfsmanna við árangur í starfi kann að virka letjandi við ákvarðanatöku innan fyrirtækis, og jafnvel stuðla að ákvarðanafælni þegar kemur að verkefnum sem fela í sér áhættu.

„Einhver kynni að benda á að sá sé nú einmitt tilgangur reglnanna en gleymum því ekki að öllum atvinnurekstri fylgir áhætta, ekki síst á fjármálamarkaði. Aðalatriðið er að tryggja að verkefni sem ráðist er í og ákvarðanir sem teknar eru samræmist áhættuvilja og -stefnu viðkomandi fyrirtækis; að núvirt framtíðarsjóðsstreymi af viðskiptatækifæri sé jákvætt að teknu tilliti til hæfilegrar arðsemiskröfu. Á meðan varkárni er æskileg, er áhættufælni ekki endilega eftirsóknarverð, a.m.k. ekki að því leyti sem af henni leiðir að jákvæð tækifæri fara forgörðum,“ segir Óttar.

Í þessu samhengi tekur hann fram að einnig hafi verið bent á að aukið hlutfall fastra starfskjara kunni að leiða til skeytingarleysis stjórnenda gagnvart ávöxtunarkröfu áhættusamra verkefna; laun haldast óbreytt þótt áhættusöm verkefni skili takmarkaðri arðsemi.

Þá nefnir Óttar að haganlega sniðin kaupaukakerfi séu ekki aðeins til þess fallin að draga úr óæskilegri hegðun heldur nýtast þau einnig sem tæki til að ýta undir æskilega hegðun og fylgni við reglur. „Þannig er hægt að nota kaupauka sem jákvætt tól til að hafa áhrif á hegðun, t.d. að skapa hvata til að hlíta reglum, og stuðla þannig að æskilegri fyrirtækjamenningu.“

Engu hnikað nema fjármálafyrirtæki þrýsti á breytingar

Loks ítrekar hann að röksemdir um að stuðla að fjármálastöðugleika eigi illa við önnur fjármálafyrirtæki en þau sem eru kerfislega mikilvæg, þ.e. fyrirtæki sem vegna eðlis og umfangs starfseminnar geta haft veruleg neikvæð áhrif á stöðugleika hagkerfisins.

„Samkvæmt minni reynslu eru umtalsvert meiri líkur á að menn hafi reglur í heiðri ef þær raunverulega þjóna tilgangi sínum og fela ekki í sér miklu ríkari takmarkanir en þær sem nauðsynlegar eru til að markmiðum verði náð. Það á við um bankamenn sem aðra. Þótt ekki væri nema fyrir þær sakir, væri óskandi að stjórnmálamenn sæju ástæðu til að endurskoða núverandi takmarkanir á kaupaukum fjármálafyrirtækja með það fyrir augum að færa gildissvið þeirra og efnisreglur nær því sem þekkist í löndunum í kringum okkur,“ segir Óttar.

„Hitt er síðan það, að á meðan fjármálafyrirtækin sjálf þrýsta ekki á breytingar í þessum efnum er ólíklegt að nokkru verði hnikað.“

Greinin er birt með leyfi Innherja.

Sérfræðingarnir okkar