Óumhverfisvæn þrotabú

Velta má fyrir sér hvers vegna ekki sé búið að bæta inn nýju ákvæði í lög um gjaldþrotaskipti sem heimila skiptastjóra að móttaka kröfulýsingar og fylgiskjöl rafrænt.

Abstrakt mynd, nærmynd af grænu laufblaði

Þegar bú skuldara er tekið til gjaldþrotaskipta stofnast nýr lögaðili, þrotabú, sem stýrt er af dómskipuðum skiptastjóra. Um skipti á þrotabúum gilda lög um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 („gþl.“). Í lögunum kemur fram að allar kröfur falli sjálfkrafa í gjalddaga þegar úrskurður um gjaldþrotaskiptin er kveðinn upp.

Sá sem á kröfu á hendur þrotabúi verður að lýsa henni fyrir skiptastjóra innan kröfulýsingarfrests, sem að jafnaði er tveir mánuðir. Miðast upphaf frestsins við birtingardag innköllunar í Lögbirtingablaði, en útgáfa blaðsins er einungis rafræn og aðgengileg gegn gjaldi. Í 2. mgr. 117. gr. gþl. kemur fram að kröfulýsing skuli vera skrifleg ásamt því að hún þarf að uppfylla tilteknar lágmarkskröfur. Ef kröfulýsing berst skiptastjóra ekki innan tímafrests fellur krafan niður, sbr. 1. mgr. 118. gr. gþl.

Kröfulýsing þarf að berast á pappír

Í framkvæmd hafa margir kröfuhafar viðhaft að senda skiptastjóra kröfulýsingu í tölvupósti og um leið óskað eftir staðfestingu fyrir móttöku. Eins hafa kröfuhafar að jafnaði sent útprentað frumrit af kröfulýsingu með Póstinum til skiptastjóra og óskað eftir móttökukvittun. Þá hafa sumir kröfuhafar mætt í eigin persónu með kröfulýsingu til að tryggja að hún skili sér til skiptastjóra innan tímafrests.

Orðrómur er uppi um að sumir skiptastjórar staðfesti móttöku á kröfulýsingum með tölvupósti og miði réttaráhrif hennar við þann dag er tölvupósturinn berst. Í dómum Hæstaréttar nr. 619/2010 og 557/2013 var tekið á þessu atriði. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu, í báðum dómum, að skýra bæri áskilnað 2. mgr. 117. gr. gþl. svo að kröfulýsing ásamt fylgigögnum yrði að berast á pappír innan kröfulýsingarfrests til skrifstofu skiptastjóra (eða á þann stað sem tilgreindur er í innköllun), en ekki aðeins rafrænt eins og var í báðum tilvikum, en dugði ekki til.

Af þessum dómum leiðir að allar kröfulýsingar og fylgigögn þeirra verða að berast skiptastjóra á pappír innan kröfulýsingarfrests. Hefur það í för með sér að skiptastjóri tekur á móti alla jafna mörg hundruð, ef ekki þúsundum, blaðsíðum af kröfulýsingum og fylgiskjölum í hverju þrotabúi. Eftir að kröfulýsingar berast til skiptastjóra eru þær skannaðar inn í málakerfi og því má ætla að frumrit á pappír séu óþörf í framkvæmd.

Árið er 2023

Þess má geta að á síðustu mánuðum hafa undirrituðum borist þrjár kröfulýsingar í þrotabú eftir að kröfulýsingarfrestur rann út. Í öllum tilvikum bárust þær of seint sökum þess að Pósturinn tók lengri tíma í að afhenda kröfulýsingarnar en kröfuhafar gerðu ráð fyrir. Þurftu kröfuhafar þar með að taka ábyrgð á póstþjónustu sem þeir sannarlega greiddu fyrir.

Árið er 2023. Mikil vitundarvakning hefur verið í umhverfismálum hérlendis sem og annars staðar. Hið opinbera og einkafyrirtæki keppast við draga úr umhverfisáhrifum í sínum rekstri og hafa innleitt aðgerðir sem draga úr pappírsnotkun. Velta má fyrir sér hvers vegna ekki sé búið að bæta inn nýju ákvæði í lög um gjaldþrotaskipti sem heimila skiptastjóra að móttaka kröfulýsingar og fylgiskjöl rafrænt, með tilheyrandi jákvæðum umhverfisáhrifum.

Greinin í Viðskiptablaðinu.

Sérfræðingarnir okkar

Tengt efni