Í júlí sl. voru gerðar umfangsmiklar breytingar á samkeppnislögum. Breytingarnar fela í sér að frá og með 1. janúar 2021 er fyrirtækjum gert að meta sjálf hvort samstarf sem þau hyggjast hefja uppfylli skilyrði laganna fyrir undanþágu frá banni við samráði og samkeppnishömlum. Fram til þess tímamarks voru slíkar undanþágur háðar fyrirfram samþykki Samkeppniseftirlitsins.
Þau skilyrði sem uppfylla þarf til að samstarfið teljist lögmætt eru:
- Stuðla að bættri framleiðslu eða dreifingu á vöru eða þjónustu eða efli tæknilegar og efnahagslegar framfarir;
- Veita neytendum sanngjarna hlutdeild í ávinningi sem af þeim hlýst;
- Leggja ekki höft á hlutaðeigandi fyrirtæki sem óþörf eru til að settum markmiðum verði náð, og;
- Veita fyrirtækjunum ekki færi á að koma í veg fyrir samkeppni að því er varðar verulegan hluta framleiðsluvaranna eða þjónustunnar sem um ræðir.
Kjarninn í sjálfsmati fyrirtækja er að þau bera fulla ábyrgð á því að rétt mat sé lagt á hvort samstarf uppfylli framangreind skilyrði. Sú ábyrgð felst í því að reynist matið rangt kann það að valda því að fyrirtæki og samtök þeirra teljist hafa brotið gegn ákvæðum samkeppnislaga, og eftir atvikum ákvæðum EES-samningsins. Það getur leitt til beitingar stjórnvaldssekta gagnvart viðkomandi fyrirtæki eða samtökum fyrirtækja og kann eftir atvikum að baka þeim skaðabótaskyldu. Þá er sömuleiðis mögulegt að starfsmenn eða stjórnarmenn fyrirtækja beri refsiábyrgð á slíkum brotum. Það eru því miklir hagsmunir undir því komnir að mat á skilyrðum samkeppnislaga fyrir undanþágum frá samráði og samkeppnishömlum sé rétt.
Við túlkun skilyrðanna má hafa hliðsjón af framkvæmd Samkeppniseftirlitsins við veitingu undanþága á síðastliðnum árum ásamt framkvæmd og þróun í samkeppnisrétti innan EES. Þá hefur Samkeppniseftirlitið nýlega birt til umsagnar drög að almennum leiðbeiningum um atriði sem hafa ber til hliðsjónar við mat fyrirtækja á því hvort samkeppnishamlandi samstarf þeirra uppfyllir skilyrðin. Drögin gera jafnframt ráð fyrir að frá og með 1. janúar 2021 verði fyrirtæki sjálf að meta og sýna fram á að samstarf sem undanþága var veitt fyrir áður en breytingarnar tóku gildi, sem og skilyrði sem lágu undanþágunni til grundvallar, séu í samræmi við ákvæði samkeppnislaga. Í því skyni að gefa viðkomandi fyrirtækjum svigrúm til að axla ábyrgð sína í nýju lagaumhverfi er þó lagt til grundvallar að til 1. júlí 2021 muni vera litið svo á að samstarf sem undanþága hefur verið veitt fyrir uppfylli skilyrði samkeppnislaga án frekari athugunar. Umsagnarfrestur við leiðbeiningarnar rennur á þann 27. nóvember 2020.
Fyrirséð er að leiðbeiningar Samkeppniseftirlitsins um undantekningar frá banni við samráði og samkeppnishömlum munu hafa áhrif á túlkun skilyrðanna í framkvæmd. LOGOS hvetur ykkur því til þess að kynna ykkur drögin vel.
Drögin eru aðgengileg hér.