Sjálfbærni og hámörkun hagnaðar

Almennt er litið svo á að hagsmunir hluthafa eigi að vera í forgangi við rekstur félaga og samkvæmt íslenskum lögum ber stjórn félags að tryggja þessa hagsmuni sem best.

Höfundar: Helga Melkorka Óttarsdóttir, Arnar Sveinn Harðarson
Litlar trjáplöntur

Önnur sjónarmið kunna að koma við sögu, svo sem jafnréttis- og umhverfissjónarmið, en hafa oft á tíðum þurft að lúta í lægra haldi fyrir markmiðinu um hámörkun hagnaðar hluthafa.

Endanlegur tilgangur laga og reglna á sviði félagaréttar, líkt og almennt gildir um lagasetningu yfir höfuð, er að þjóna hagsmunum samfélagsins í heild sem best. Eftir því sem neyðin í loftslagsmálum eykst telja æ fleiri að hagsmunum samfélagsins sé best borgið með því að auka vægi umhverfismála og samfélagsins við lagasetningu á sviði félagaréttar, á kostnað þeirra sjónarmiða að tilgangur félaga sé fyrst og fremst að hámarka hagnað hluthafa þeirra. Í hugmyndinni um sjálfbæra stjórnarhætti fyrirtækja felst m.a. að gefa stjórnendum tæki og tól til að leggja áherslu á heilbrigða þróun félaga til lengri tíma í stað þess að þurfa sífellt að skila inn sem allra mestum skammtímahagnaði, sem getur haft slæm innri áhrif, þ.e. á félagið sem um ræðir, jafnt og neikvæð ytri áhrif á umhverfið og samfélagið í heild.

Þróun innan ESB

Evrópusambandið er á meðal þeirra sem telja núverandi regluverk stuðla að of mikilli skammtímahugsun á meðal fyrirtækja, og hamla getu þeirra til að bæði takast á við neikvæð ytri áhrif og grípa ný tækifæri með rannsóknum og þróun. Margar þeirra tillaga sem settar hafa verið í ferli innan ESB eru nokkuð framsæknar og hér að neðan verður farið yfir þær helstu. Hafa verður í huga að eftirfarandi tillögur eru ekki fullmótaðar og ekki öruggt hvort og hvenær þær ná fram að ganga. Að mati höfunda gefa þær þó mikilvæga innsýn í það hvers er að vænta á næstu árum og hvaða lausnir koma til greina þegar kemur að því að hámarka sjálfbærni atvinnulífsins.

Sjálfbærniáætlun félaga

Fyrst má nefna fyrirhugaðar reglur sem skylda fyrirtæki af tiltekinni stærðargráðu til að gera hæfilegar og eðlilegar ráðstafanir til að koma í veg fyrir mannréttindabrot, umhverfisskaða og slæma stjórnarhætti í starfsemi og verðmætakeðju sinni, og bregðast rétt við þegar slíkt gerir vart við sig. Til þess þyrftu félögin að framkvæma áreiðanleikakannanir til að lágmarka neikvæð ytri áhrif sín og bera kennsl á og koma í veg fyrir sjálfbærniáhættur.

Framkvæmdastjórn ESB miðar einnig að því að leggja fram frumvarp að reglum sem eiga að tryggja að sú skylda sem stjórnendur félaga bera til að haga störfum sínum í þágu hagsmuna félagsins verði ekki rangtúlkuð á þá leið að hún feli í sér skyldu til að tryggja að hagnaður hluthafa skuli hámarkaður til skamms tíma. Þessi skylda á að taka til langtímahagsmuna félagsins og hagsmuna samfélagsins í heild. Reglurnar eiga að tryggja að hagsmunir allra haghafa félagsins (þ.e. þeirra sem starfsemin hefur áhrif á) verði teknir til greina í starfsemi félagsins og að samráð við þá verði hluti af aðgæsluskyldu stjórnenda (e. duty of care). Raddir starfsmanna, umhverfisins, viðskiptavina, birgja, o.s.frv. gætu fengið verulega aukið vægi í rekstri félaga ef tillagan verður að veruleika.

Þá kemur til greina að skylda félög til að setja sér sérstaka sjálfbærniáætlun, þar sem markmið þeirra og aðferðir við að lágmarka neikvæð samfélagsáhrif koma fram. Markmiðin yrðu mælanleg, sértæk, vísindaleg og hefðu sérstakan tímaramma. Áætlanir ættu að samræmast alþjóðlegum skuldbindingum ESB á sviði umhverfis og loftslagsmála, þ.m.t. Parísarsáttmálanum.

Til að ýta undir langtímahugsun stjórnenda vill ESB koma því í kring að starfskjarastefnur verði tengdar við sjálfbærniáætlanir í auknum mæli. Þannig mætti t.d. setja upp kerfi sem tryggir stjórnendum kaupauka ef þeim tekst að tryggja að félagið sem þeir stjórna nái þeim loftslagsmarkmiðum sem félagið hefur sett sér.

Loks kemur til álita að setja reglur sem verðlauna „þolinmæði“ hluthafa, til dæmis með því að veita þeim hluthöfum sem halda eignarhlutum sínum í tiltölulega langan tíma aukinn atkvæðarétt eða skattaívilnanir. Með þessu myndu fleiri hluthafar telja hagsmunum sínum best borgið með sjálfbærum stjórnarháttum sem tryggja farsæla afkomu félagsins til langframa. Þegar hluthafar horfa lengra en eitt eða tvö ár fram í tímann öðlast stjórnendur svigrúm til að byggja upp sjálfbært félag með sterkar stoðir.

Eftirlit, gildissvið og gildistaka

Í sérstakri ályktun sinni um sjálfbæra stjórnarhætti lagði Evrópuþingið til að eftirlitsstjórnvöldum verði veittar víðtækar eftirlits- og sektarheimildir til að tryggja framfylgni með reglunum. Evrópuþingið vill að reglurnar taki til bæði stórra og skráðra félaga, og að lítil og meðalstór félög í þeim geirum sem hafa sérstaklega neikvæð ytri áhrif, t.d. í mjög mengandi iðnaði, geti einnig fallið undir gildissvið reglnanna. Þá telur Evrópuþingið best að félög utan ESB verði bundin af reglunum þegar þau selja vörur og þjónustu innan ESB. Framkvæmdastjórn ESB tók í svipaðan streng og sagði að líta þyrfti til þess að leggja ekki of miklar byrðar á lítil og meðalstór félög, t.a.m. með því að setja einfaldari kvaðir eða veita þeim undanþágur. Búist er við því að formleg drög að reglum um sjálfbæra stjórnarhætti líti dagsins ljós á næstu mánuðum.

Ábyrgara regluverk

Félög eru eign hluthafa og eru rekin í þágu og fyrir tilstilli þeirra, og því er eðlilegt að vilji hluthafa sé í hávegum hafður við ákvarðanatöku stjórnenda. Aftur á móti hafa félög áhrif út á við og bera því vissa ábyrgð gagnvart samfélaginu. Framangreindar tillögur bera vitni um vilja innan ESB til að aðlaga regluverk félagaréttar að þessari ábyrgð og um leið hnika rekstrarumhverfi félaga í átt að ábyrgari stjórnarháttum og sjálfbærari framtíð.

Greinin í Innherja.

Tengdar greinar