Skuldbindingar dánarbús

Fréttablaðið birti nýlega grein eftir Árna Vilhjálmssonar eiganda hjá LOGOS.

Höfundur: Árni Vilhjálmsson
Fugl flýgur yfir sjó, snjódrifin fjöll í fjarska

Óhætt er að fullyrða að flestum dánarbússkiptum sé lokið með einkaskiptum þar sem erfingjarnir taka á sig skuldbindingar dánarbúsins. Í 97. gr. laga um skipti á dánarbúum er kveðið á um það að erfingjar beri einn fyrir alla og allir fyrir einn ábyrgða á skuldbindingum dánarbúsins án tillits til þess hvort þeir hafi vitað um tilvist slíkra skuldbindinga.

Tilefni þessara skrifa er dómur sem gekk í Landsrétti síðla vetrar, í málinu nr. 441/2019, sem rétt er að vekja athygli á. Þar reyndi á hvernig túlka bæri hugtakið „erfingi“. Í stuttu máli voru málavextir þeir að faðir áfrýjenda málsins eignaðist fimm börn með jafnmörgum konum. Hann kvæntist síðustu barnsmóður sinni og bjó með henni til dánardags. Gerðu hjónin með sér sameiginlega erfðaskrá þar sem kveðið var á um gagnkvæman rétt þess er lengur lifði til setu í óskiptu búi án samþykkis annarra erfingja, en slíkt er heimilt samkvæmt erfðalögum. Að föðurnum látnum fékk eiginkona hans leyfi til setu í óskiptu búi. Fyrir andlát hans hafði hún gerst ábyrgðarmaður á námslánum fyrir þeirra sameiginlega son og sambýliskonu hans. Þegar bæði hjón voru látin gekkst hinn sameiginlegi sonur í að skipta eignum foreldra sinna og fékk hálfsystkini sín til þess að skrifa undir beiðni til einkaskipta og síðar erfðafjárskýrslu sem þau gerðu í góðri trú. Sameiginlegi sonurinn erfði móður sína og föður og fékk í sinn hlut 60% af samanlögðum eignum þeirra, en hvert hálfsystkinanna 10% sem var arfshlutur föður þeirra. Í þessum skiptaskjölum var hvergi minnst á ábyrgðarskuldbindingar á námslánum sem námu með vöxtum næstum þrefalt hærri fjárhæð en samanlagðar eignir hinna látnu.

Nokkru eftir að skiptum lauk lentu námslánin í vanskilum og voru gjaldfelld af lánasjóðnum þremur árum eftir skiptalok. Vegna rangrar skráningar um framvindu skipta hjá viðkomandi sýslumannsembætti benti vottorð embættisins til þess að þessi fjögur hálfsystkin væru börn og þar með erfingjar „stjúpmóður“ sinnar. Þar sem faðir þeirra lést á undan eiginkonu sinni féll þessi ábyrgðarskuldbing aldrei á hann og því ekki á dánarbúið. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir þessara hálfsystkina til þess að leiðrétta efni vottorðs sýslumanns kom allt fyrir ekki og stefndi lánasjóðurinn þeim, ásamt báðum lántökum fyrir héraðsdóm Reykjavíkur sem komst að þeirri niðurstöðu að orðalag framangreindrar 97. gr. væri fortakslaust um sameiginlega ábyrgð erfingja á skuldbindingum hins látna. Ekki var tekið til varna af hálfu aðalskuldaranna. Voru aðalskuldarar, þ.e. sameiginlegi sonur hinna látnu og sambýliskona hans, ásamt hálfsystkinunum fjórum dæmd til þess að greiða lánasjóðnum óskipt kröfufjárhæðina með dráttarvöxtum frá gjaldfellingu lánsins til greiðsludags og málskostnað að auki.

Hálfsystkinin áfrýjuðu héraðsdómnum til Landsréttar sem sneri niðurstöðunni og féllst á það í dómi sínum með áfrýjendum að við túlkun á áður nefndri 97. gr. laga um skipti á dánarbúum verði að líta svo á að eftir að einkaskiptum á óskiptu dánarbúi er lokið beri erfingjar einungis ábyrgð á skuldbindingum þess hjóna sem þeir taka arf eftir. Voru áfrýjendur málsins þar með sýknuð af kröfum lánasjóðsins.

Draga má margvíslegan lærdóm af máli þessu. Það fyrsta sem manni dettur í hug er að tölva lánasjóðsins hafi einfaldlega sagt nei þegar áfrýjendur báðu um að nöfn þeirra sem ábyrgðarmanna yrðu felld út. Þess skal getið að stjórn sjóðsins hafnaði í þrígang ítarlega rökstuddum beiðnum áfrýjenda um að málið yrði látið niður falla. Á hinn bóginn hefur að því er virðist ekki verið látið reyna á túlkun 97. gr. skiptalaganna með þessum hætti áður. Í fræðunum má þó finna bókstaf um það að í óskiptu búi séu í rauninni tvö aðskilin bú, dánarbú hins skammlífari og bú hins langlífari. Þá hafa fræðimenn haldið því fram að skiptum á dánarbúi hins skammlífari sé einungis slegið á frest þar til langlífari maki fellur frá eða ef búi hins skammlífara er skipt af öðrum ástæðum.

Líklegasta ástæðan fyrir því að þetta mál lenti á þessum villigötum er sú að samkvæmt lokamálsgrein 2. gr. laga um erfðafjárskatt segir að við búskipti eftir lát beggja hjóna skuli leggja erfðafjárskatt á arf erfingjanna eins og um eitt bú sé að ræða án tillits til þess hvort erfingjar beggja séu þeir sömu eða ekki. Þetta skattlagningarákvæði má þó ekki leiða til þess að skuldbinding falli á þann sem enga aðild á að dánarbúi því skuldbinding hvílir á. Þegar um lítil dánarbú og einföld ganga sýslumenn ekki eftir sérstakri skiptagerð sem getur kallað á mistök sem þessi. Það ætti það að vera sérstakur áskilnaður að gerð sé nákvæm skiptagerð eða jafnvel tvær þegar þannig stendur á að langlífari maki situr í óskiptu búi með stjúpbörnum sínum.

Sérfræðingarnir okkar