SPAC - Fjárfestingafélög um óákveðna fjárfestingu

Viðskiptablaðið birti í dag grein eftir Ólaf Arinbjörn Sigurðsson eiganda og Jónas Má Torfason laganema á LOGOS.

Höfundur: Ólafur Arinbjörn Sigurðsson
Nærmynd af skrifborði þ.s. verið er að rýna gögn

SPAC - Fjárfestingafélög um óákveðna fjárfestingu

Þann 1. febrúar sl. tóku gildi nýjar reglur í NASDAQ kauphöllum á Norðurlöndunum um skráningu sérstakrar tegundar félaga sem hafa á ensku verið kölluð Special Purpose Acquisition Companies (SPAC), hér eftir SPAC-félög. Tilefni reglubreytingarinnar er vafalaust ævintýraleg fjölgun á skráningu slíkra félaga í bandarískum kauphöllum á síðastliðnu ári.

Hvað eru SPAC-félög?

Líkt og enska heitið gefur til kynna er um að ræða félag sem stofnað er í þeim tilgangi að eignast önnur fyrirtæki, eitt eða fleiri. Í stuttu máli er félag stofnað án þess að fyrir hendi sé sérstakur rekstur eða að markmið þess sé yfirhöfuð að stunda tiltekna viðskiptastarfsemi. Við stofnun félagsins og síðari skráningu liggja einungis fyrir upplýsingar um hver standi fyrir félaginu og eftir atvikum í hvaða geira til stendur að fjárfesta. Er það einkennandi fyrir SPAC-félög að við stofnun þeirra og síðari skráningu í kauphöll liggur ekki fyrir í hvaða fyrirtæki félagið muni fjárfesta og hafa þau því verið kennd við óútfyllta tékka (e. blank check companies).

Eftir stofnun eru hlutabréf félagsins boðin almenningi til sölu í almennu útboði og í kjölfarið óskað eftir töku þeirra til viðskipta á markaði, líkt og við skráningu hefðbundinna félaga. Þeir fjárfestar sem kjósa að veita SPAC-félaginu fé eru þannig einkum að veðja á stofnendur og stjórnendur hins nýstofnaða félags, en ekki á rekstrargrundvöll og hagnaðarvon þess líkt og almennt megi ætla að ráði för.

Með þessum hætti er almennum fjárfestum m.a. veitt tækifæri til að taka þátt í yfirtöku á fyrirtækjum, sem oftast er eingöngu á færi stofnanafjárfesta eða efnameiri aðila. Allur gangur er á því hvernig fjárfestingunni er háttað en almennt er stefnt á að kaupa fyrirtæki sem hafa ekki fengið hlutabréf sín tekin til viðskipta á verðbréfamarkaði. Eftir að kaupin hafa gengið í gegn eru hin keyptu félög sameinuð fjárfestingafélaginu og þannig „komin á hlutabréfamarkað“.

SPAC-félög eru í sjálfu sér ekki ný af nálinni en þeirra varð fyrst vart í upphafi 10. áratugar síðustu aldar. Tilhögun fjárfestinga með þessum hætti hafi hins vegar aldrei náð að afla sér neinna sérstakra vinsælda og hefur það heyrt til undantekninga að þessi leið sé farin. Líkt og tæpt var á að framan jukust umsvif SPAC-félaga hins vegar umtalsvert á síðastliðnu ári. Talið er að á milli 79 til 83 milljarða Bandaríkjadala hafi safnast í hlutafjárútboðum SPAC-félaga í Bandaríkjunum á síðasta ári, eða sexfalt það sem safnaðist árið 2019. Ef litið er til frumútboða (e. Initial Public Offering, IPO), þ.e. þegar félög eru skráð í fyrsta sinn á markað, safnaðist nær helmingur alls hlutafjár á bandarískum markaði í gegnum SPAC-félög. Sú þróun hefur náð til Evrópu og gætir stofnun og skráningu SPAC-félaga í síauknum mæli.

Reglur NASDAQ Nordic um SPAC-félög

Líkt og áður segir tóku gildi nýjar reglur um skráningu SPAC-félaga í upphafi mánaðar. Þó er tekið fram að hinar nýju reglur um skráningu SPAC-félaga gildi ekki fyrir NASDAQ í Danmörku og Finnlandi. Þannig tóku reglur NASDAQ um skráningu SPAC-félaga gildi fyrir Kauphöll Íslands þann 1. febrúar sl., þótt reglurnar hafi lítið sem ekkert verið kynntar opinberlega.

Reglur um hina eiginlegu töku hlutabréfa SPAC-félaga til viðskipta eru einfaldari en þær sem gilda um hefðbundin félög. Við skráningu gilda t.a.m. hvorki reglur NASDAQ um útgáfu gagna um fjárhagslega sögu viðkomandi fyrirtækis né er krafa gerð um að viðkomandi félög hafi skýra viðskiptaáætlun eða rekstrarsögu. Að meginstefnu gilda almennar reglur að öðru leyti, s.s. um útgáfu lýsingar.

Um nánari framkvæmd söfnunar og ráðstöfunar þess fjár sem safnast við útboð og töku hlutabréfa SPAC-félaga til viðskipta gilda hins vegar sérstakar reglur. Þannig er um það kveðið að minnst 90 prósent fjárins skulu lögð inn á bundinn fjárvörslureikning hjá sjálfstæðri innlánastofnun þar til gengið er frá fjárfestingu. Slík fjárfesting þarf að hafa farið fram innan 36 mánaða og er miðað við að fjárfesting nemi ekki minna en 80 prósent af andvirði hins bundna bankareiknings, sbr. framangreint, að frátöldum kostnaði vegna sölutrygginga og skatta.

Þá eru formkröfur gerðar til ákvörðunar um fjárfestingu SPAC-félagsins. Gerð er krafa um að meirihluti stjórnar sé samþykkur fjárfestingu og að meirihluti hluthafa, þ.e. fjárfesta, samþykki fjárfestinguna á hluthafafundi. Einnig er áskilið að kauphöllinni sé gert viðvart um fyrirhugaðri fjárfestingu áður en hún er kynnt almenningi. Jafnframt þarf hið „nýja fyrirtæki“, þ.e. SPAC-félagið og hið keypta félag, að uppfylla skilyrði NASDAQ fyrir töku til viðskipta í kauphöll en endanlegur frágangur fjárfestingar má ekki koma til framkvæmda fyrr en viðkomandi kauphöll hefur staðfest að skilyrði skráningar séu fyrir hendi. Þegar fjárfesting er komin til framkvæmda þarf að hefja nýtt skráningarferli til að mæta öllum hefðbundnum skilyrðum. Ætla megi að slíkt skráningarferli snúi einkum að þeim upplýsingum sem ekki þarf að leggja fram við skráningu SPAC-félagsins, líkt og vikið er að hér að framan.

Loks hafa fjárfestum verið tryggð lágmarksvörn gegn þeirri óvissu sem er eðlisbundin SPAC-félögum. Er það skilyrði töku hlutabréfa SPAC-félags til viðskipta í NASDAQ kauphöllum að í samþykktum félagsins sé kveðið á um heimild annarra fjárfesta en stjórnenda, stofnenda og tengdra aðila til að endurheimta það fé sem viðkomandi fjárfestir hefur lagt til félagsins. Á slík heimild að gilda þar til gengið hefur verið frá fjárfestingu í samræmi við framangreind skilyrði.

Aðrar réttarreglur og álitamál vegna SPAC-félaga

Í ljósi þess að sáralítil reynsla er komin á beitingu SPAC-félaga í Evrópu vakna áleitnar spurningar sem ekki gefst færi á að kryfja til mergjar hér. Margvíslegar réttarreglur gilda um útboð og starfsemi fyrirtækja á fjármálamörkuðum í Evrópu sem vel kunni að vera að taka þurfi tillit til. Fyrir almennt hlutafjárútboð þarf t.a.m. að útbúa sk. lýsingu en hún á að gera tæmandi grein fyrir viðkomandi félagi svo fjárfestar geti tekið upplýsta ákvörðun. Þessu til viðbótar vakna spurningar um hvort réttara sé að líta á SPAC-félög sem fjárfestingasjóði, fremur en félög á hlutabréfamarkaði. Eins þarf að tryggja að gætt sé að ákvæðum um fjárfestavernd með fullnægjandi hætti.

Hvað sem öðru líður virðist fjárfestingaformið vera ryðja sér til rúms á alþjóðlegum fjármagnsmörkuðum. Sú þróun er greinilega að skila sér til Evrópu og e.t.v. er ekki nema tímaspursmál hvenær þessi leið verður fyrst farin á íslenskum mörkuðum.

Greinin í Viðskiptablaðinu.

Sérfræðingarnir okkar

Tengdar greinar