Umsagnir atvinnulífsins um ný persónuverndarlög

Síðastliðinn föstudag voru drög að frumvarpi til nýrra persónuverndarlaga birt. Með frumvarpinu er ætlunin að innleiða svokallaða persónuverndarreglugerð frá Evrópusambandinu sem mun taka gildi í aðildarríkjum sambandsins þann 25. maí nk.

Höfundur: Áslaug Björgvinsdóttir
Vinnufundur, setið við fundarborð

Persónuverndarreglugerðin hefur enn ekki verið tekin upp í EES-samninginn með formlegum hætti en dómsmálaráðuneytið hefur gefið út að stefnt sé að því að ljúka því ferli eins hratt og mögulegt er þannig að reglugerðin komi til framkvæmda á Íslandi á sama tíma, þ.e. eftir rúma tvo mánuði.

Drögin að frumvarpinu voru birt á samráðsgátt íslenskra stjórnvalda og hófst þá samráð við almenning um frumvarpið. Frestur til þess að skila inn umsögnum er hins vegar afar skammur því umsagnir þurfa að berast fyrir næstkomandi mánudag, 19. mars. Atvinnulífið þarf því að hafa hraðar hendur þannig að hægt sé að koma að athugasemdum til dómsmálaráðuneytisins, áður en frumvarpið fer til meðferðar hjá Alþingi. Til samanburðar var sambærilegt samráð við almenning í Noregi opið í þrjá mánuði.

Með frumvarpinu er persónuverndarreglugerðin lögfest og hún birt sem fylgiskjal með frumvarpinu. Í frumvarpstextann eru þó jafnframt tekin upp helstu kjarnaákvæði reglugerðarinnar auk þess sem kveðið er á um nokkrar sérreglur sem og viðbætur og útfærslur sem byggjast á heimildum aðildarríkjanna til þess að víkja frá tilteknum ákvæðum reglugerðarinnar.

Persónuverndarreglugerðin er mjög sérstök að þessu leyti því hún veitir aðildarríkjunum umfangsmiklar heimildir til þess að víkja frá einstökum ákvæðum hennar. Það er rík ástæða fyrir atvinnulífið að skoða vel hvernig þessar heimildir voru nýttar í frumvarpstextanum og eftir atvikum koma að athugasemdum. Svo virðist t.a.m. sem einkaaðilar standi höllum fæti miðað við stjórnvöld þegar kemur að beiðnum hins skráða um aðgang og afrit af þeim persónuupplýsingum sem viðkomandi fyrirtæki vinnur um einstaklinginn. Stjórnvöld geta t.d. hafnað slíkri beiðni ef um er að ræða upplýsingar um tiltekin starfsmannamálefni eða upplýsingar í vinnugögnum eða öðrum sambærilegum gögnum. Einkafyrirtæki hafa hins vegar ekki sambærilega heimild til að hafna beiðni og er þar um töluverða breytingu að ræða frá því sem nú gildir.

Þá er jafnframt ástæða fyrir atvinnulífið til þess að skoða hvort tilefni sé að nýta aðrar heimildir sem ekki eru nýttar í frumvarpstexta, s.s. hvað varðar vinnslu á persónuupplýsingum í atvinnutengdu samhengi.

Fyrir utan greiningu á því hvernig ákveðið var að nýta umræddar heimildir til frávika frá reglugerðinni er einnig ástæða til þess að staldra við önnur ákvæði frumvarpsins sem vafalaust munu vekja spurningar í framkvæmd s.s. hvað varðar tilvísun í frumvarpstexta til þess að reglugerðin gangi framar lögunum, einkum í ljósi þess að með lögunum er að einhverju leyti verið að mæla fyrir um frávik frá ákvæðum reglugerðarinnar.

Fyrir þau fyrirtæki sem hafa starfsemi út fyrir landsteinana er einnig mikilvægt að lagaskil séu skýr en frumvarpstexti um landfræðilegt gildissvið laganna vekur spurningar að þessu leyti.

Það er ekki annað hægt en að fagna því að frumvarp að nýjum persónuverndarlögum hafi verið birt enda mjög stutt í að reglugerðin komi til framkvæmda. Það er hins vegar mikilvægt að vandað sé til verka og að hagsmunir atvinnulífsins fái að vegast á við ríka hagsmuni hinna skráðu.

Greinin í Morgunblaðinu.

Sérfræðingarnir okkar