Lögmenn eru líka konur

Áslaug Björgvinsdóttir, Guðbjörg Helga Hjartardóttir, Helga Melkorka Óttarsdóttir og Hjördís Halldórsdóttir, eigendur á LOGOS, fjalla um þá leið sem þær hafa farið í lögmennsku og mikilvægi jafnréttis kynjanna og um leið fjölbreytni í viðskiptalífinu.

Mynd af Hjördísi Halldórsdóttur, Guðbjörgu Helgu Hjartardóttur og Helgu Melkorku Óttarsdóttur, lögmönnum og eigendum á LOGOS

Í dag birtist áhugavert viðtal í sérblaði FKA sem fylgdi Fréttablaðinu.

LOGOS – Lögmenn eru líka konur

Lögmannsstofan LOGOS rekur sögu sína aftur til ársins 1907, þegar Sveinn Björnsson, fyrsti forseti Íslands, stofnaði ungur lögfræðistofu eftir nám í Kaupmannahöfn. Fréttablaðið ræddi við fjórar konur í hópi eigenda stofunnar.

Árið 2000 sameinaðist stofan annarri stórri lögmannsstofu og fékk LOGOS þá nafn sitt. LOGOS er stærsta lögmannsstofan á Íslandi og í heildina starfa þar um 70 starfsmenn. Af þeim eru um 50 lögmenn starfandi á skrifstofum lögmannsstofunnar í Reykjavík og London.

Viðskiptalífið í forgrunni

Aðalsérstaða LOGOS er þjónustan við viðskiptalífið. LOGOS er ein fárra stofa á Íslandi sem veita lögfræðiþjónustu sem snertir atvinnulífið í heild sinni. Stór hópur lögfræðinga gerir stofunni kleift að takast á við stærstu verkefnin sem tryggir gæði, reynslu og viðbragðsflýti í alls konar málum.„Við erum einnig meðvituð um mikilvægi þess að fylgjast vel með straumum og stefnum í lögfræði. Því rekum við okkar eigin skóla innan fyrirtækisins þar sem kennsla fer fram reglulega,“ segir Áslaug. Alþjóðleg starfsemi LOGOS starfar á Íslandi sem og út fyrir landsteinana. „Við erum meðlimir í stórum alþjóðlegum samtökum sjálfstæðra lögmannsstofa, Lex Mundi, og með einu símtali getum við náð sambandi og tryggt viðskiptavinum okkar þjónustu öflugra lögmanna víðast hvar í heiminum. Að auki höfum við verið efst á gæðastikunni á Íslandi í mörg ár en erlendir matsaðilar, á borð við Chambers, sem taka út lögmannsstofur, hafa veitt lögmönnum LOGOS sína bestu umsögn og valið LOGOS sem leiðandi lögmannsstofu,“ segir Helga.

Lögmannsstarfið umfram allt þjónustustarf

Guðbjörg Helga Hjartardóttir, eigandi hjá LOGOS, hefur starfað hjá stofunni síðan hún útskrifaðist úr lögfræðinámi frá Háskóla Íslands árið 2004.„Mín helstu sérsvið eru félagaréttur, fjármögnun fyrirtækja, s.s. lánasamningar, veðréttindi, skuldabréfaútgáfur og þess háttar. Einnig kem ég að samrunum og yfirtökum, þar með talið kaupum og sölu fyrirtækja. Þá vinn ég á sviði fjármálaþjónustu og regluverks, ekki síst fyrir erlenda viðskiptavini. Almennt fer stór hluti af mínu starfi í vinnu fyrir erlend fyrirtæki af öllum stærðum og gerðum. Þá er um að ræða fjárfesta, en líka erlenda aðila sem hyggjast taka þátt í fjármögnun eða annars konar samningagerð við íslenska aðila,“ segir Guðbjörg.

„Það er gott í öllum rekstri að hlutföll kynja séu sem jöfnust því það er mikilvægt að fá mismunandi sjónarhorn í öllum málum. Viðskiptavinir okkar og samfélagið samanstendur af öllum kynjum og það væri skrítið ef við værum á skjön við það."

- Guðjbörg Helga Hjartardóttir

Hafði hugsað sér að vinna í banka

„Það var ekki endilega planið hjá mér að vinna á lögmannsstofu eftir námið. Í raun sá ég alltaf fyrir mér að fá vinnu í banka þar sem ég fengi að vinna við mitt áhugasvið. En ég var heppin að fá starf hjá LOGOS 2004 því hér hef ég fengið tækifæri til að takast á við fjölbreytt og krefjandi úrlausnarefni, en um leið sérhæfa mig í því sem ég hef mestan áhuga á,“ segir Guðbjörg. Árið 2006 aflaði hún sér málflutningsréttinda fyrir héraðsdómi og 2011 lauk hún LL.M.-gráðu frá University College London, með áherslu á Company Law eða félagarétt.„Starfið hefur verið fjölbreytilegt og maður veit aldrei hvað er á dagskrá hvern dag. Þetta getur auðvitað verið krefjandi starf og mikil vinna, en það er líka það sem lögmenn þrífast svolítið á.“

Nýjungar í bransanum

„Helstu nýjungar undanfarið á mínu sviði hafa einkum tengst nýlegri innleiðingu á ýmsum reglum Evrópusambandsins, einkum á sviði fjármálaþjónustu og fjármagnsmarkaða. Þessar reglur munu klárlega hafa mikil áhrif hér á landi næstu misseri.Hér innanhúss höfum við einnig skerpt á ýmsum áherslum hjá okkur og lagt aukið vægi á ákveðna málaflokka þar sem við getum verið okkar viðskiptavinum enn frekar að liði. Þannig höfum við til dæmis sett aukinn kraft í sérstakt banka- og fjármögnunarteymi þar sem áhersla er lögð á ráðgjöf og skjalagerð sem tengist lánamálum og fjármögnun fyrirtækja. Einnig höfum við verið með fókus á orkumál, en þar er fyrirsjáanlegt að áfram verði mikil gerjun á næstu misserum, ekki hvað síst í tengslum við fyrirhuguð orkuskipti. Þarna skarast mörg ólík réttarsvið, meðal annars félagaréttur, skipulag og uppsetning fyrirtækja, en líka leyfismál, skipulagsmál, eignaréttur og fleira. Stærðin gerir okkur betur kleift að leiða saman hóp starfsfólks með sérhæfingu á ólíkum sviðum og takast á við nýjar áskoranir viðskiptavina okkar hratt og örugglega. Við erum því tilbúin þegar kallið kemur.“

Sjónarhorn kynjanna

„Það er gott í öllum rekstri að hlutföll kynja séu sem jöfnust því það er mikilvægt að fá mismunandi sjónarhorn í öllum málum. Viðskiptavinir okkar og samfélagið samanstendur af öllum kynjum og það væri skrítið ef við værum á skjön við það. Það býr líka til heilbrigðara starfsumhverfi fyrir allt starfsfólk enda hefur kynjahlutfall bein áhrif á starfsandann."

LOGOS leiðandi á sviði persónuverndar

Áslaug Björgvinsdóttir, eigandi hjá LOGOS, hóf upphaflega störf hjá stofunni árið 2006. Hún er meðal fremstu sérfræðinga landsins á sviði upplýsingatækniréttar, þar með talið í persónuverndarmálum, sem og á sviði hugverkaréttar. Áslaug kynntist LOGOS í vísindaferð með lagadeild Háskólans í Reykjavík og leist í fyrstu alls ekki á stofuna. „Mér fannst þetta allt eitthvað svo formlegt og stíft og gat ekki hugsað mér að vinna þarna. En eitthvað togaði í mig því ég fór þangað í starfsnám í meistaranáminu. Það varð ekki aftur snúið því það kom fljótt í ljós að þetta var síður en svo stífur og leiðinlegur vinnustaður. Þvert á móti var þar öflugt félagslíf, frábært samstarfsfólk og verkefnin spennandi.Eftir útskrift 2007 fór ég að vinna sem fulltrúi á stofunni, en tók mér ársleyfi 2011 og fór í framhaldsnám til Stokkhólms. Árið sem ég kom heim varð ég verkefnastjóri og kom svo inn í eigendahópinn 2017. Þetta er því sjötta árið mitt í þeirri stöðu og ég sé ekki fram á annað en að vera hér þar til yfir lýkur,“ segir Áslaug.

Ört stækkandi svið

Persónuverndin er að sögn Áslaugar sístækkandi svið innan lögfræðinnar og hefur verið stór hluti af verkefnum hennar frá 2016. „Ný persónuverndarlög voru innleidd árið 2018 og hefur verið mikil vinna í tengslum við það. Fyrir tíu árum var fjöldi sérfræðinga í persónuvernd á Íslandi teljandi á fingrum annarrar handar en staðan er allt önnur í dag. Nú er til dæmis orðin til ný stétt sérfræðinga sem gegna hlutverki persónuverndarfulltrúa fyrirtækja og stofnana.Hugverkarétturinn er líka ört stækkandi svið og helst í hendur við þær breytingar sem hafa átt sér stað í atvinnulífinu síðustu ár. Í dag er hugverkatengdur iðnaður stór hluti af útflutningstekjum Íslands og hafa hugverkatengd verkefni af ýmsu tagi því aukist umtalsvert.“

Hvernig viðskiptavini ert þú aðallega að þjónusta?

„Allajafna þjónusta ég meðalstór og stór fyrirtæki, á öllum sviðum atvinnulífsins, en einnig stofnanir ríkisins, sveitarfélög og háskóla. Eðli málsins samkvæmt þurfa allir að framfylgja kröfum persónuverndarlaga, hvort sem við erum að tala um einyrkja og lítil félagasamtök eða stór alþjóðleg fyrirtæki, og þessi fjölbreytileiki er stór hluti af því sem gerir þetta svið svona áhugavert.Í hugverkaréttinum eru viðskiptavinir mínir mikið til framleiðendur, hugbúnaðar- og upplýsingatæknifyrirtæki. Þá aðstoða ég við gerð leyfissamninga og skilmála og er í hagsmunagæslu fyrir framleiðendur, höfunda, rétthafasamtök og fleiri.“

Sífellt ný álitaefni

Áslaug segir tímabilið 2017 og 18 hafa verið eftirminnilegt, þegar ný persónuverndarlög tóku gildi. „Afar fá fyrirtæki og stofnanir á Íslandi höfðu búið sig undir nýjar skyldur sem lögin höfðu í för með sér. Í kjölfarið var mikið fjallað um nýjar sektarheimildir Persónuverndar, sem fyrirtæki og stofnanir gátu átt yfir höfði sér í tilviki vanefnda. Því varð algjör sprengja í þessum málaflokki. Dagarnir voru vel pakkaðir frá morgni til kvölds við að sinna ráðgjöf til fjölbreytts hóps fyrirtækja og stofnana. Á sama tíma hélt ég fjölda fyrirlestra og fræðsluerinda og kenndi einnig hjá Lögmannafélaginu og í háskólanum. Dagarnir voru því oft ansi langir hjá mér, en svona tímabil skilja mikið eftir sig. Ég leyfi mér líka að fullyrða að persónuverndarteymið á LOGOS hefur verið leiðandi á þessu sviði, að aðstoða fyrirtæki og stofnanir við innleiðingu á lögunum og tengdri ráðgjöf.Jafnvel þó flest fyrirtæki og stofnanir séu langt komin í innleiðingarvinnu er ekkert lát á persónuverndartengdum verkefnum, eðli þeirra einfaldlega breytist. Við erum þannig að ráðleggja fyrirtækjum í tengslum við öryggisbresti, sinna fræðslu, ganga frá vinnslusamningum og sinna hagsmunagæslu gagnvart eftirlitsstjórnvaldinu. Það er spennandi að starfa á réttarsviði sem er svona tiltölulega ungt og í mikilli þróun og maður er sífellt að taka á nýjum álitaefnum.“

Grænni áherslur varða alla, líka fyrirtæki

Helga Melkorka Óttarsdóttir, eigandi og formaður stjórnar hjá LOGOS, segir að verkefni tengd sjálfbærni séu henni hugleikin og að LOGOS leggi mikla áherslu á þann málaflokk.Helga hefur starfað í rúm 20 ár hjá LOGOS. Áður starfaði hún hjá Eftirlitsstofnun EFTA í Brussel frá útskrift úr framhaldsnámi. „Síðan hefur minn fókus mikið verið á samkeppnisrétt, Evrópurétt og ýmis tengd verkefni okkar viðskiptavina á hverjum tíma á fleiri sviðum. Þetta eru fjölbreytt úrlausnarefni: samningagerð, stjórnsýslumál og dómsmál fyrir héraðsdómi, Landsrétti og Hæstarétti hér á landi. Einnig hef ég flutt mál fyrir EFTA-dómstólnum og rekið mál fyrir Mannréttindadómstól Evrópu,“ segir Helga.

Mikil og hröð aukning í verkefnum á sviði sjálfbærni

„Umræðan um sjálfbærni og samfélagslega ábyrgð hefur verið áberandi. Innanhúss vinnum við öflugt og fjölbreytt starf með sjálfbærni að leiðarljósi. Við höfum sett okkur sjálfbærnistefnu þar sem við vinnum að markmiðum okkar á því sviði. Lögmenn stofunnar búa yfir sérþekkingu á þessu sviði og höfum við í auknu mæli veitt viðskiptavinum alhliða þjónustu sem samræmist nýjustu viðmiðum um sjálfbærni hverju sinni. Upp á síðkastið höfum við svo verið að útvíkka þetta þjónustusvið hjá okkur í takt við fjölda og fjölbreytni verkefna á sviðinu.“Verkefni á sviði sjálfbærni eru að sögn Helgu enn eitt dæmið um getu stofunnar til að uppfylla framtíðarþarfir viðskiptavina. „Markmið LOGOS er að koma að málum snemma og aðstoða viðskiptavini við fylgni við lög frá upphafi, og reyna þannig að koma í veg fyrir að vandamál komi upp. Það getur verið býsna flókið að þekkja og fylgja öllum lögum og reglum sem eru gildandi á hverjum tíma enda er regluverkið nú mun flóknara en áður var. Við höfum boðið upp á fræðslu á ýmsum réttarsviðum sem mörg fyrirtæki nýta sér.“

Nýtt regluverk ESB

„Innan Evrópusambandsins hefur orðið mikil þróun í regluverki á sviði sjálfbærni. Nýlega var samþykkt flokkunarreglugerð sem er upphafið að nýrri sýn í fjárfestingum. Kerfið byggir á samræmdum skilgreiningum um umhverfissjálfbæra atvinnustarfsemi. Þá er lögð skylda á tiltekin fyrirtæki að veita upplýsingar um stöðu sína á því sviði. Ekki er hægt að kalla fjárfestingu eða starfsemi græna nema hún uppfylli tiltekin skilyrði þar að lútandi og stuðli að tilteknum markmiðum í þágu umhverfisins.Ég fann snemma að mig langaði að koma inn í mál fyrirtækja fyrr, áður en þau urðu að málum til rannsóknar. Maður sér ýmislegt eftir á sem hefði mátt gera öðruvísi þegar maður kemur seint inn í mál. Með fræðslu og lagfæringu ýmissa ferla má stuðla að því að starfsemi fylgi lögum og koma í veg fyrir vanda sem ella hefði geta komið upp. Þegar regluverk ESB fór að þróast í átt að frekari sjálfbærni vaknaði enn meiri áhugi á sjálfbærnimálum fyrirtækja.Fjárfestar sem vilja láta sig sjálfbærni varða geta nýtt flokkunarkerfið til að skera úr um virði fjárfestinga í fyrirtækjum, þá hvort starfsemi fyrirtækja teljist umhverfissjálfbær. Við höfum unnið verkefni fyrir viðskiptavini sem vilja átta sig á betur á regluverkinu og kynna sér hve mikil losun má vera hjá fyrirtæki svo starfsemi teljist umhverfissjálfbær.Einnig aðstoðum við fyrirtæki við að setja upp innri stefnur og reglur á sviði sjálfbærni. Þar má nefna verkefni í grænni fjármögnun, úttekt á umhverfisverkefnum og heildræna ráðgjöf. Þarna nýtum við okkar þekkingu og reynslu og heimfærum á nýtt svið.Það er augljóst að fjárfestar eru áhugasamir um að vita hvort fjárfestingar sem þeir vilja koma að séu raunverulega grænar og sjálfbærar. Nú er verið að búa til sameiginlega skilgreiningu á því hvað telst sjálfbært og grænt. Áður gat ýmislegt fallið undir það án þess að að baki lægi samræmd skilgreining. Þá er áhugavert hvernig sjálfbærnimálefni tengjast fjölmörgum öðrum sviðum, eins og orkumálefnum og fjármögnun, en á þeim sviðum vinnum við fjölmörg verkefni.“

Jafnvægi

Kynjahlutföll starfsfólks LOGOS eru nokkuð jöfn að sögn Helgu. „Hér starfa ívið fleiri konur þegar allt er tekið. Við leggjum mikla áherslu á jafnrétti kynjanna í ráðningu starfsfólks, þó jafnvægi hafi ekki enn verið náð á meðal eigenda stofunnar. Af þeim fjórum eigendum sem bættust við nýlega voru tveir karlar og tvær konur. Viðskiptavinir eru farnir að skoða kynjahlutfallið í auknum mæli. Þetta skiptir því máli hvernig fyrirtækið virkar út á við. Uppbyggingin á okkar félagsskap er sú að við erum öll jöfn eigendurnir, sem býr til annan kúltúr og meiri slagkraft í hópnum.“

„Höfundaréttur, tækni, verktakaréttur, málflutningur og kröfuréttur heilla mig hvað mest, sem og allt sem viðkemur gervigreind.“

- Hjördís Halldórsdóttir

Allt sem viðkemur vísindum, tækni og sköpun

Hjördís Halldórsdóttir, eigandi og stjórnarmaður hjá LOGOS, sérhæfir sig meðal annars í verkefnum sem varða tæknimál og þar hafa mál er varða gervigreind verið áberandi. Einnig sinnir hún málum er varða höfundarétt og verktakarétt og er mikið í málflutningi.„Í laganámi hafði ég alltaf haft mestan áhuga á lögmennsku og málflutningi. Þar er skylda að fara í starfsnám og ég prófaði ýmislegt. Meðal annars í landbúnaðarráðuneytinu. Ég var staðráðin í að dvelja þar í einn mánuð því ég stefndi alltaf á lögmennsku. Ári eftir útskrift fór ég að vinna hjá AP lögmönnum sem seinna mynduðu hluta af LOGOS, þar sem ég starfa núna. Þrátt fyrir tafir á leið í lögmennsku lærði ég ýmislegt. Í landbúnaðarráðuneytinu fór yfirmaður minn í leyfi eftir að ég hafði verið þar í hálft ár. Í fjarveru hans var ég sett í stjórnendastöðu og var óvænt komin í djúpu laugina. Í dag er ég einn af eigendum LOGOS og bý meðal annars að þessari dýrmætu reynslu frá fyrsta árinu.“

Fjölbreytt starf

„Ísland er lítið land og fólk þarf yfirleitt að sérhæfa sig á fleiru en einu ákveðnu sviði. Því fylgir að vera í málflutningi að fást við mjög fjölbreytt mál. Einn daginn get ég verið að flytja ágreiningsmál á sviði verktakaréttar gegn verkkaupum. Næsta dag er ég að flytja mál fyrir fjármálastofnun út af lánasamningi. Þriðja daginn er ég svo á kafi í dómsmáli er varðar hugbúnað eða upplýsingatækni.“

Breitt áhugasvið

„Höfundaréttur, tækni, verktakaréttur, málflutningur og kröfuréttur heilla mig hvað mest, sem og allt sem viðkemur gervigreind. Málflutningurinn finnst mér hvað áhugaverðastur innan lögmennskunnar. Ég er hæstaréttarlögmaður, sem og Helga Melkorka. Allt sem viðkemur tækni á einnig hug minn allan, í víðum skilningi, þar með talin lyfjaþróun. Í raun heillar mig allt sem viðkemur vísindum, tækni og sköpun.“

Framhaldspróf í tæknimálum

Hjördís var í framhaldsnámi í lögfræði í Stokkhólmsháskóla þar sem mikil áhersla er lögð á þverfaglega þekkingu í lögum og upplýsingatækni. „Lögfræðingar sem ætluðu að starfa á tæknisviði þurftu að bera skynbragð á tæknilegu hliðina og leysa tæknileg verkefni samhliða lögfræðináminu.“Allan starfsferilinn hefur Hjördís sinnt tæknimálum, sérstaklega í hugbúnaði og upplýsingakerfum. „Það getur verið samningagerð, ráðgjöf og ágreiningsmál og fleira. Síðustu ár hef ég komið inn á ýmislegt sem varðar gervigreind, og veitt til dæmis lagalega ráðgjöf um hvernig megi taka ákvarðanir á grundvelli gervigreindar. Hröð þróun er í regluverki um gervigreind og von er á frekari reglum frá Evrópusambandinu.“

„Í náminu lagði ég áherslu á höfundarétt og fékk því slík verkefni þegar ég fór að vinna í lögmennsku, eins mál sem tengdust hugbúnaðargerð. Ég varði fyrstu tveimur árunum að miklu leyti í stórt upplýsingatækniverkefni sem sneri að hugbúnaðargerð og öðlaðist þekkingu og reynslu á sviðinu. Höfundarétturinn leiddi mig því yfir í tæknina hjá AP lögmönnum og LOGOS hálfu ári síðar. AP lögmenn höfðu einnig sinnt persónuverndarmálum frá því tölvulög gengu í gildi. Frá upphafsdögum lögmennskunnar hef ég því sinnt persónuverndarmálum.Í höfundaréttinum hef ég unnið verkefni sem tengjast tónlist og kvikmyndum, og seinni ár tengdum sjónvarpi. Margt hefur breyst með tilkomu streymisþjónusta og hef ég verið ráðgefandi hvað varðar höfundarétt og fjölmiðlalög í því samhengi. Ég er formaður Höfundaréttarfélags Íslands og sit í höfundaréttarnefnd sem er menntamálaráðherra til ráðgjafar. Núna vinnum við að innleiðingu á DSM-tilskipun sem snýr að tilskipun um höfundarétt á stafrænum innri markaði. Tilskipunin var samþykkt innan Evrópusambandsins 2019 og nú eru öll Evrópuríki að vinna að því að innleiða hana í sinn rétt. Þessi tæknihluti á höfundaréttinum smellpassar inn í mitt áhugasvið.“

Starf sem hentar öllum

„Enn eru kvenkyns lögmenn í miklum minnihluta. Það á sérstaklega við um lögmenn á lögmannsstofum. Hlutfallið er betra hjá fyrirtækjum og opinberum aðilum. Í eigendahópi LOGOS erum við fjórar konur eigendur, þótt karlarnir séu fleiri. Þetta endurspeglar skiptinguna í stéttinni eins og hún leggur sig. Þó er fullt af hæfileikaríkum ungum konum á þessu sviði sem eiga framtíðina fyrir sér. Þetta breytist vonandi, en það gerist kannski ekki alveg nógu hratt að okkar mati.Lögmannsstarfið á að geta hentað öllum, líka fólki sem ber ábyrgð á fjölskyldum. Dómstólar og viðskiptavinir hafa mikið um tíma manns að segja, en þess á milli er vinnutíminn sveigjanlegur sem getur hentað fólki með börn.“

Viðtalið í Fréttablaðinu.

Sérfræðingarnir okkar