Ný tilskipun ESB um áreiðanleikakönnun á sjálfbærni fyrirtækja

Í tilefni af sjálfbærniviku LOGOS verða send daglega út fréttabréf um sjálfbærnimál á þá sem eru skráðir á póstlista hjá stofunni. Í fréttabréfi dagsins er fjallað um tilskipun sem Evrópuþingið samþykkti í apríl og fjallar um skyldu til að framkvæma áreiðanleikakönnun á sjálfbærni fyrirtækja.

Höfundur: Helga Melkorka Óttarsdóttir
grænn skógur og vötn

Þann 24. apríl síðastliðinn samþykkti Evrópuþingið tilskipun sem fjallar um skyldu til að framkvæma áreiðanleikakönnun á sjálfbærni fyrirtækja (e. CSDDD). Tilskipunin er ein af fjölmörgum lagagerðum sem leiða af Græna sáttmála Evrópusambandsins (e. Green Deal) og fyrirséð er að hún verði tekin upp í EES samninginn. Markmið tilskipunarinnar er að efla vernd mannréttinda og umhverfisins innan ESB, og síðar innan EES, og á heimsvísu með því að tryggja að fyrirtæki taki á skaðlegum áhrifum aðgerða sinna innan og utan sambandsins.

Eftir gildistöku tilskipunarinnar hafa aðildarríkin tvö ár til að innleiða hana í landslög. Efni tilskipunarinnar mun síðan taka gildi gagnvart fyrirtækjum í þremur þrepum eftir stærð fyrirtækja, sem áætlað er að verði á árunum 2027-2029.

Gildissvið tilskipunarinnar

Skyldur samkvæmt tilskipuninni munu ná til eftirfarandi fyrirtækja:

Fyrirtæki innan ESB/EES: Yfir 1.000 starfsmenn að meðaltali og nettó ársvelta yfir 450 milljónum evra á heimsvísu.

Fyrirtæki utan ESB/EES: Nettó ársvelta yfir 450 milljónum evra innan ESB/EES.

Fyrirtæki með sérleyfis- eða einkaleyfissamninga: Réttindagreiðslur yfir 22,5 milljónum evra og nettó ársvelta yfir 80 milljónum evra, á heimsvísu ef um er að ræða fyrirtæki innan ESB/EES, annars innan ESB/EES ef um er að ræða fyrirtæki utan ESB/EES.

Móðurfélög: Ef fyrirtæki innan samstæðu fellur undir eitt af framangreindum viðmiðum.

Helstu skyldur sem leiða af tilskipuninni

Tilskipunin felur í sér að stærri fyrirtækjum sem stunda viðskipti innan ESB/EES er skylt að framkvæma áreiðanleikakönnun til að meta áhrif sem starfsemi þeirra kann að hafa á umhverfi og mannréttindi. Áreiðanleikakannanir fyrirtækja verða að ná til eigin starfsemi þeirra, starfsemi dótturfélaga og starfsemi aðila í aðfangakeðju fyrirtækisins.

Það er því mikilvægt að hafa í huga að þrátt fyrir að lítil eða meðalstór fyrirtæki falli ekki beint undir gildissvið tilskipunarinnar, gætu þau óbeint orðið fyrir áhrifum hennar sem hluti af aðfangakeðju fyrirtækis.

Til nánari skýringar þá verður fyrirtækjum sem falla undir tilskipunina skylt að:

- Innleiða stefnu sem tryggir að framkvæmd sé áhættutengd áreiðanleikakönnun á mannréttindum og umhverfinu.

- Innleiða ráðstafanir til að greina og meta raunveruleg og möguleg skaðleg áhrif sem starfsemi hefur á mannréttindi og umhverfið.

- Gera viðeigandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir eða draga úr mögulegum skaðlegum áhrifum og draga úr eða bæta úr raunverulegum skaðlegum áhrifum.

- Birta árlega yfirlýsingu um áreiðanleikakönnunarferlið og ráðstafanir sem fyrirtæki hefur gripið til vegna raunverulegra eða mögulegra skaðlegra áhrifa.

- Samþykkja og innleiða áætlun um minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda í samræmi við markmið Parísarsáttmálans.

Hvaða afleiðingar hafa vanefndir?

Hvert aðildarríki ESB og EES mun skipa eftirlitsyfirvald sem verður heimilt að leggja sektir á fyrirtæki ef þau uppfylla ekki þær skyldur er á þeim hvíla samkvæmt tilskipuninni. Þá opnar tilskipunin einnig fyrir þann möguleika að fyrirtæki geti orðið skaðabótaskyld gagnvart einstaklingum, stéttarfélögum eða samtökum, vanræki þau með saknæmum hætti að gera viðeigandi ráðstafanir í samræmi við skyldur tilskipunarinnar.

Hvaða áhrif mun tilskipunin hafa fyrir fyrirtæki hér á landi?

Það er ljóst að tilskipunin mun hafa víðfeðm áhrif og hafa í för með sér miklar breytingar sem krefjast þess að fyrirtæki byrji að undirbúa sig sem fyrst til að geta uppfyllt skyldur samkvæmt henni þegar að því kemur.

Þrátt fyrir að fyrirtæki falli utan gildissviðs tilskipunarinnar þá er líklegt að hún muni knýja fram svipaða löggjöf í öðrum löndum í framtíðinni og einnig verða til þess að minni fyrirtæki sem eru hluti af aðfangakeðju fyrirtækja sem falla undir tilskipunina, velji að innleiða og fylgja svipuðum ferlum. Það getur því verið gagnlegt fyrir fyrirtæki að skoða samræmingu starfsemi sinnar við mannréttinda- og umhverfiskröfur.

Sérfræðingarnir okkar

Tengdar fréttir og greinar