Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp að lögum um upplýsingagjöf um sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu og flokkunarkerfi fyrir sjálfbærar fjárfestingar. Lögin innleiða m.a. tvær reglugerðir sem hafa fengið verðskuldaða athygli hérlendis sem erlendis, reglugerð (ESB) 2019/2088 um upplýsingagjöf tengda sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu og reglugerð (ESB) 2020/852 um að koma á ramma til að greiða fyrir sjálfbærri fjárfestingu. Fyrrnefnda reglugerðin er betur þekkt undir skammstöfuninni SFDR (e. Sustainable Finance Disclosure Regulation) og sú síðarnefnda þekkist sem flokkunarreglugerð ESB eða EU Taxonomy.
Reglugerðirnar leggja grunn að regluverki sem kollvarpar heimi sjálfbærra fjárfestinga, sem framan af hefur einkennst af ógagnsæi og óljósum skilyrðum og hugtakanotkun. Með þessu háþróaða og metnaðarfulla kerfi má t.d. meta hvort starfsemi fyrirtækis telst vera sjálfbær fyrir umhverfið eða ekki. Kerfið er ekki hnökralaust en er tvímælalaust mikil framför á sviði sjálfbærra fjármála.
Fjármögnunartækifæri
Lögin taka að óbreyttu gildi 1. júní nk., sem þýðir m.a. að félög sem falla undir gildissvið laganna verða að birta ítarlegar sjálfbærniupplýsingar í næstu ársskýrslu. Þó nýja regluverkið sé umfangsmikið og e.t.v. yfirþyrmandi er það fyrst og fremst tækifæri sem stjórnendur ættu að taka föstum tökum í stað þess að líta á reglurnar sem íþyngjandi byrði. Stjórnendum gefst nú ráðrúm til að kryfja fyrirtækið með það að leiðarljósi að lágmarka áhættu á strönduðum eignum og ótryggum tekjustofnum, uppfæra úrelt vinnubrögð og tryggja hagsmuni fyrirtækisins til lengri tíma.
Óhætt er að staðhæfa að möguleikar félaga á að fjármagna sig muni aukast eftir því sem félög eru betur í stakk búin fyrir regluverkið og komandi breytingar á því. Skynsemi í sjálfbærnimálum skiptir fjármagnseigendur sífellt meira máli og þeir munu í auknum mæli grandskoða sjálfbærniupplýsingar félaga áður en ákvörðun er tekin um hvar fjármagn þeirra er best geymt. Fjárfestir eða lánveitandi vill almennt forðast, svo að dæmi sé tekið, að binda fjármagn sitt í félagi sem verður skyndilega ósamrýmanlegt flokkunarkerfinu þegar skilyrði regluverksins herðast. Þá kemur til greina að íslensk stjórnvöld notfæri sér regluverkið til að standa við skuldbindingar sínar í loftslagsmálum, t.d. með skattaálögum, skattaívilnunum eða við útgáfu starfsleyfa.
Jafnvel félög sem standa, að svo stöddu, utan gildissviðs laganna þurfa að vera á tánum og búa sig undir framhaldið, enda er regluverkið síkvikt og mun stækka og breytast með tímanum. Þetta vita fjármagnseigendur og viðbúið er að þeir muni hafa skoðanir á stöðu félags í sjálfbærnimálum áður en ákvörðun er tekin um fjármögnun. Rétt er að halda því til haga að félög sem standa utan gildissviðs laganna geta í sumum tilvikum sótt fjármögnun til einstakra verkefna sem má flokka sem græn í samræmi við ákvæði regluverksins, t.d. með útgáfu grænna skuldabréfa. Þá munu stærri félög og hið opinbera í auknum mæli leita til birgja sem geta sýnt fram á sjálfbæra starfsemi. Lítil og meðalstór fyrirtæki geta þannig skapað sér samkeppnisforskot með því að leggja áherslu á sjálfbærni.
Lifandi regluverk
Innleiðing SFDR og flokkunarkerfisins í íslenskan rétt er aðeins toppurinn á ísjakanum. Regluverkið á bakvið sjálfbær fjármál vex hratt og á síðustu misserum hefur ESB gefið út ýmsar „afleiddar“ reglugerðir sem skýra betur hvernig félög eiga að fara eftir ákvæðunum sem nýju lögin innleiða. Þá vinna stofnanir ESB að því að þróa landslagið enn frekar, og má í dæmaskyni nefna hugmyndir sambandsins um að stækka flokkunarkerfið þannig að skilgreina megi, auk sjálfbærrar (grænnar) atvinnustarfsemi, bæði ósjálfbæra (rauða) og meðalsjálfbæra (gula) atvinnustarfsemi. Þá eru uppi hugmyndir um að teygja flokkunarkerfið út fyrir umhverfisþáttinn og til félagslegrar sjálfbærni. Loks ber að nefna tilskipun um sjálfbærniupplýsingagjöf fyrirtækja (CSRD) sem kemur til með að stórauka kröfur um gagnsæi í sjálfbærnimálum.