Ný útgáfa leiðbeininga um stjórnarhætti fyrirtækja

Í gær sendi LOGOS út fréttabréf á þá sem skráðir eru á póstlista um fjármálaþjónustu og regluverk.

Nærmynd af jakkaklæddum mönnum við vinnu í ýmsum skjölum og gögnum

Við vekjum athygli á því að Viðskiptaráð Íslands, Nasdaq Iceland og Samtök atvinnulífsins hafa nú gefið út 6. útgáfu leiðbeininga um stjórnarhætti og munu þær gilda frá og með 1. júlí 2021. Útgáfa leiðbeininganna gefur tilefni til þess, á vettvangi einstakra fyrirtækja, að farið sé í saumana á ákvæðum samþykkta og starfsreglna stjórnar auk þess að kalla á breytingar á starfsháttayfirlýsingum í skýrslu stjórnar.

Leiðbeiningarnar hafa einkum þýðingu fyrir þau fyrirtæki sem ber lagaskylda til að birta yfirlýsingu um stjórnarhætti í skýrslu stjórnar en sú skylda hefur nýlega verið útvíkkuð og tekur nú m.a. til skráðra félaga, fjármálafyrirtækja, vátryggingafélaga, lífeyrissjóða, stórra sjávarútvegsfyrirtækja, stóriðjufyrirtækja, orkufyrirtækja, flugfélaga, fjarskiptafélaga og skipafélaga í millilandaflutningum. Sama á við um annars konar félög sem teljast stór félög í skilningi laga um ársreikninga, sem og móðurfélög stærri samstæðna. Leiðbeiningarnar geta þó einnig nýst annars konar fyrirtækjum við innleiðingu góðra stjórnarhátta.

Sem fyrr eru leiðbeiningarnar ekki bindandi en þau félög sem ber lögum samkvæmt að birta stjórnarháttayfirlýsingu í skýrslu stjórnar skulu þar m.a. útskýra ef og þá að hvaða leyti þau víkja frá leiðbeiningunum. Vel rökstudd frávik frá leiðbeiningunum geta eftir sem áður talist góðir stjórnarhættir.

Helstu breytingar frá fyrri útgáfu leiðbeininganna eru:

  • Skerpt á ákvæðum og skýringum ákvæða um tilnefningarnefndir.
  • Ákvæði er varða óháða stjórnarmenn skýrð nánar.
  • Vísað til þess að stjórn setji félaginu stefnu um sjálfbærni í stað stefnu um samfélagslega ábyrgð.
  • Nýmæli um að stjórn marki félaginu stefnu um fjölbreytileika að því er varðar samsetningu stjórnar, framkvæmdastjórnar og æðstu stjórnenda, einkum m.t.t. menntunar og faglegs bakgrunns, aldurs, kyns, þekkingar, reynslu og hæfni. Eru sett til fyllingar ákvæðum 4. tölul. 2. mgr. 66. gr. c laga nr. 3/2006 um ársreikninga.
  • Nýmæli um að stjórn birti árlega í yfirliti með skýrslu stjórnar og á vefsíðu sinni ófjárhagslegar upplýsingar, m.a. varðandi umhverfismál, samfélagsmál, starfsmannamál, mannréttindamál og spillingar- og mútumál. Eru sett til fyllingar ákvæðum 66. gr. d laga nr. 3/2006 um endurskoðendur.

Lögmenn LOGOS veita fyrirtækjum reglulega ráðgjöf um stjórnarhætti og hlítni, með hliðsjón af ákvæðum laga og leiðbeininga. Sé óskað eftir aðstoð eða nánari upplýsingum um ofangreint vinsamlegast hafið samband við Guðbjörgu Helgu Hjartardóttur eða Ólaf Arinbjörn Sigurðsson.

Bendum áhugasömum á möguleikann á að skrá sig á póstlistann.

Sérfræðingarnir okkar

Tengdar greinar