Sigur í Landsréttarmáli ÍAV gegn Hörpu og Situs

Þann 3. júní sl. féll dómur í Landsrétti í máli nr. 203/2021 þar sem viðurkenndur var réttur Íslenskra aðalverktaka hf. (ÍAV) til skaðabóta óskipt úr hendi Hörpu tónlistar- og ráðstefnuhúss ohf. og Situsar ehf.

Mynd af Hjördísi Halldórsdóttur, lögmanni og meðeiganda á LOGOS

Landsréttur snéri með niðurstöðu sinni við dómi héraðsdóms sem áður hafði sýknað félögin af kröfum ÍAV, og dæmdi Landsréttur jafnframt stefndu til að greiða ÍAV 7 milljónir króna í málskostnað.

Málið á sér langa sögu en það má rekja til rammasamnings sem undirritaður var árið 2006 í tengslum við byggingu ýmissa mannvirkja að Austurbakka 2 í Reykjavík þar sem tónlistar- og ráðstefnuhúsið Harpa stendur meðal annars í dag. Með rammasamningnum var ÍAV tryggður réttur til að sjá um byggingarframkvæmdir á Austurhafnarreitunum. Í kjölfar efnahagshrunsins var rétturinn þrengdur þannig að eingöngu stóð eftir réttur til byggingar bílakjallara undir reitunum. Svo fór að tveir af reitunum voru seldir árið 2013 til tveggja félaga. Reykjavík Development ehf., sem síðar keypti reitina tvo, neitaði að ganga til samninga við ÍAV um byggingu bílakjallara undir þeim, og lét svo annan verktaka sjá um framkvæmdirnar.

Upphaflega var mál höfðað gegn Reykjavík Development ehf. til viðurkenningar á skaðabótaskyldu gagnvart ÍAV. Var Hörpu og Situs þar stefnt til réttargæslu. Því máli lauk með dómi Hæstaréttar í máli nr. 18/2019 þar sem Reykjavík Development ehf. var sýknað. Er sá dómur Hæstaréttar stefnumarkandi um skilsmun kröfuréttinda og eignarréttinda og hefur verið um hann fjallað í fræðiskrifum á sviði eignarréttar.

Í kjölfarið var höfðað mál á hendur Hörpu og Situs sökum þess að ekki hefði verið gætt að því við framsal á byggingarreitunum að væntanlegir kaupendur þeirra skuldbyndu sig beint gagnvart ÍAV til að virða rétt félagsins til verktöku á grundvelli rammasamningsins. Hefði það síðar leitt til þess að réttur ÍAV var ekki virtur.

Héraðsdómur sýknaði sem fyrr segir Hörpu og Situs sökum þess að krafan væri fyrnd auk þess sem dómurinn taldi að Situs hefði ekki tekist á hendur að efna umræddar skyldur gagnvart ÍAV.

Í niðurstöðu Landsréttar var hins vegar fallist á að Harpa og Situs hefðu við framsal byggingarreitanna ekki gætt að því að kaupendur þeirra skuldbyndu sig beint gagnvart ÍAV til að virða rétt félagsins til verktöku. Hefði því ekki orðið að skuldskeytingu og leiddi það til þess að réttindi ÍAV til byggingar bílakjallara fóru forgörðum.

Talið var að Situs hefði í fyrra málinu viðurkennt að hafa tekist á herðar þá skuldbindingu gagnvart ÍAV að virða rétt þess til verktökunnar. Þá var talið að þar sem krafan hefði stofnast fyrir gildistöku laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda giltu um hana ákvæði laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda og þar með væri fyrningarfrestur kröfunnar 10 ár. Þar sem vanefnd Hörpu og Situs á þeim skyldum sínum að tryggja rétt ÍAV til verktöku hefði fyrst orðið árið 2013 við sölu á reitunum til þriðja aðila sem ekki var bundinn af sömu skuldbindingu hefði krafan því ekki verið fyrnd við höfðun málsins árið 2020. Var því fallist á kröfu ÍAV um viðurkenningu á bótaskyldu Hörpu og Situsar.

Hjördís Halldórsdóttir lögmaður hjá LOGOS flutti málið fyrir ÍAV.

Sérfræðingarnir okkar

Tengdar greinar