Stofnfisksmálið - hugleiðingar um 95. gr. a laga um hlutafélög

Viðskiptablaðið birti nýlega grein eftir Guðbjörgu Helgu Hjartardóttur eigenda og Fannar Frey Ívarsson lögmann á LOGOS.

Hamar sem tákn um réttlæti

Hinn 12. apríl sl. féll dómur í Héraðsdómi Reykjaness í máli L1076 ehf. gegn Stofnfiski hf. þar sem reyndi á túlkun 95 gr. a laga nr. 2/1995 um hlutafélög.

Það ákvæði, ásamt sambærilegu ákvæði í lögum nr. 138/1994 um einkahlutafélög, var lögfest árið 2010 og er ákvæðunum ætlað að tryggja vernd eigenda minnihluta hlutafjár og lánardrottna félaga gegn því að tengdir aðilar grípi til ótilhlýðilegra ráðstafana á kostnað félagsins. Orðalag ákvæðanna er víðtækt og hafa komið upp álitaefni í tengslum við gildissvið þeirra, m.a. í tengslum við lánveitingar til samstæðufélaga. Á hluta þeirra álitaefna reyndi í fyrrgreindum dómi.

Í málinu krafðist L1076, sem er eigandi minnihluta hlutafjár í Stofnfiski, þess að ógiltar yrðu ákvarðanir hluthafafunda í Stofnfiski, þar sem samþykkt var að Stofnfiskur tækist á hendur tilteknar samningsskuldbindingar gagnvart þriðja aðila. Umræddar samningsskuldbindingar lutu að því að Stofnfiskur myndi ábyrgjast og veðsetja tilteknar eignir til tryggingar skuldbindingum móðurfélags Stofnfisks.

Byggði L1076 kröfur sínar m.a. á því að samþykki hluthafafundanna fullnægði ekki þeim skilyrðum sem fram koma í 95. gr. a laga um hlutafélög, einkum þar sem sérfræðiskýrsla, sem gefin var út af löggiltum endurskoðanda og lá fyrir á fundunum í samræmi við fyrrnefnt ákvæði laganna, hefði verið ófullnægjandi.

Í stuttu máli varð niðurstaða héraðsdóms sú að kröfum L1076 var hafnað en forsendur dómsins vekja nokkra athygli. Annars vegar staðfestir dómurinn að umræddar skuldbindingar, þ.e. ábyrgðir og veð til tryggingar skuldbindingum móðurfélags, geti fallið innan gildissviðs 95. gr. a laga um hlutafélög og þannig verið háðar samþykki hluthafafundar. Hins vegar að við mat á gildi samþykkisins geti forsendur sérfræðiskýrslu þeirrar sem liggja skal fyrir í slíkum tilvikum haft verulega þýðingu.

Rétt er að ítreka að dómurinn í máli Stofnfisks er aðeins héraðsdómur og kann honum að verða áfrýjað.

Hvers vegna er dómurinn áhugaverður?

Samkvæmt 95. gr. a er samningur milli hlutafélags og tengdra aðila, þ.m.t. hluthafa, sem nemur að raunvirði a.m.k. 1/10 hlutafjár félagsins á undirritunartíma samningsins, ekki bindandi fyrir félagið nema að fengnu samþykki hluthafafundar. Þá mælir ákvæðið fyrir um að á hluthafafundinum skuli liggja fyrir sérfræðiskýrsla sem staðfesti að samræmi sé milli greiðslu félagsins samkvæmt samningnum og þess endurgjalds sem félagið fær.

Ákvæðið er í sjálfu sér einfalt þegar kemur að beinum samningum milli félagsins og hluthafa, s.s. varðandi sölu á eignum – slíkir samningar teljast þá ekki skuldbindandi fyrir félagið nema þeir hafi verið samþykktir á formlegum hluthafafundi og verið staðfest af hálfu utanaðkomandi sérfræðings að félagið fái eitthvað fyrir sinn snúð.

Nokkur vafi hefur hins vegar leikið á um gildi ákvæðisins þegar kemur að samningum milli félagsins og þriðja aðila, sem beint eða óbeint eru gerðir til hagsbóta fyrir hluthafa. Er t.d. algengt að félög taki á sig ábyrgð á skuldbindingum móðurfélags gagnvart þriðja aðila eða setji eignir að veði til tryggingar slíkum skuldbindingum. Það að félag eigi móðurfélag útilokar hins vegar ekki að aðrir hluthafar séu til staðar sem geta haft verulega hagsmuni af því hvernig eignum félagsins er ráðstafað. Sama á vitaskuld við um kröfuhafa félagsins.

Hefur þannig gætt nokkurrar óvissu um hvort slíkir samningar falli undir ákvæði 95. gr. a, enda í eðli sínu ekki „á milli“ félagsins og móðurfélagsins, heldur frekar milli félagsins og þriðja aðila, þótt móðurfélagið kunni að eiga aðild að samningnum eða í öllu falli njóti góðs af honum. Þó hefur í framkvæmd þótt óvarlegt annað en að fara í slíkum tilvikum eftir formreglum þeim sem fram koma í ákvæðinu, enda augljós áhætta fyrir þriðja aðila ef umræddur samningur reynist ekki bindandi fyrir félagið.

Lítið hefur reynt á ákvæði 95. gr. a í dómaframkvæmd og er Stofnfiskssmálið fyrsta málið þar sem reynt hefur á gildi ákvæðisins í tengslum við ábyrgðir eða veðsetningar vegna skuldbindinga móðurfélags. Líkt og fyrr segir er í niðurstöðu héraðsdóms tekið af skarið um að slíkir samningar geti fallið innan gildissviðs ákvæðins, að öðrum skilyrðum uppfylltum. Hefur því niðurstaðan umtalsverð áhrif fyrir hlutafélög og einkahlutafélög, en getur jafnframt skipt verulegu máli fyrir lánveitendur.

Þýðing dómsins fyrir hlutafélög og einkahlutafélög

Niðurstaða dómsins felur í sér áminningu til stjórnar og annarra fyrirsvarsmanna félaga að taka upplýsta ákvörðun um það hvort félagið undirgangist ábyrgðir eða annars konar tryggingarráðstafanir gagnvart þriðja aðila til hagsbóta fyrir móðurfélag félagsins. Slík ákvörðun er annars vegar háð samþykki formlegs hluthafafundar. Hins vegar skal ákvörðunin tekin með hliðsjón af hagsmunum félagsins og mikilvægt er að tryggja félaginu sanngjarnt endurgjald, sem staðfest er af utanaðkomandi sérfræðingi. Eðli endurgjaldsins ræðst af aðstæðum hverju sinni, en af niðurstöðu dómsins má ráða að matið á endurgjaldinu og þær forsendur sem lagðar eru því til grundvallar þurfa að standast skoðun. Ekki virðist útilokað að dómstólar geti hnekkt því mati.

Þýðing dómsins fyrir lánveitendur

Þýðing dómsins fyrir lánveitendur sem hyggjast veita lán gegn ábyrgðum eða tryggingum frá dótturfélagi lántaka er að hluta til augljós – veiting slíkra ábyrgða og trygginga er háð samþykki hluthafafundar dótturfélagsins í samræmi við fyrrnefnd lagaákvæði. Að öðrum kosti kunna slíkir gerningar að teljast óskuldbindandi fyrir dótturfélagið, eða eftir atvikum þrotabú þess, ef á reynir. Er því áríðandi fyrir lánveitendur að gera kröfu um að tilskildum formreglum sé fylgt að þessu leyti.

Staða lánveitendanna þegar kemur að gildi ákvörðunar hluthafafundar dótturfélagsins varðandi samninga þeirra við félagið er hins vegar allt annað en skýr og ýmsum spurningum enn ósvarað. Mikilvægt er að lánveitendur séu meðvitaðir um að dómstólar kunna að geta endurskoðað efnislegt mat stjórnar eða eftir atvikum utanaðkomandi sérfræðings á endurgjaldi félagsins vegna samninganna. Jafnvel þótt slíku mati yrði hnekkt er það hins vegar álitaefni hvort það leiði í öllum tilvikum til ógildingar ákvörðunar hluthafafundar dótturfélagsins og hvort slík ógilding leiði sjálfkrafa til brottfalls skuldbindinga félagsins gagnvart lánveitandanum. Á lánveitandinn að bera hallann af því að þær viðskiptalegu forsendur sem bjuggu að baki ákvörðun dótturfélagsins reynist ófullnægjandi eða á lánveitandi, sem gengið hefur til samninga við dótturfélagið í góðri trú um að fullnægt hafi verið ákvæðum laga, að geta treyst því að samningar haldi?

Greinin í Viðskiptablaðinu.

Sérfræðingarnir okkar

Tengdar greinar