Viðtal við Helgu Melkorku

Morgunblaðið birti í dag viðtal við Helgu Melkorku Óttarsdóttur eiganda á LOGOS í sérblaðinu Framúrskarandi fyrirtæki.

Mynd af Helgu Melkorku Óttarsdóttur, lögmann og meðeiganda á LOGOS

LOGOS hlaut nýlega útnefninguna Framúrskarandi fyrirtæki sjöunda árið í röð. Við erum þakklát og stolt af því að tilheyra hópi þeirra íslensku fyrirtækja sem uppfylla ströng skilyrði greiningar Creditinfo á Framúrskarandi fyrirtækjum árið 2022. Framúrskarandi fyrirtæki eiga það sameiginlegt að byggja rekstur sinn á sterkum stoðum og efla hag allra.

Komu að 100 milljarða viðskiptum

„Það eru í farvatninu ný lög og reglur á sviði sjálfbærni sem munu hafa í för með sér umtalsverðar breytingar, ekki síst hvað varðar upplýsingaskyldu tiltekinna fyrirtækja um grænleika starfsemi, og á sama tíma aðgengi fjárfesta að þessum upplýsingum. Einn hluti regluverksins sem kemur frá ESB mun gera fjárfestum kleift að fá öruggari og gegnsærri upplýsingar um það hvort starfsemi telst umhverfissjálfbær, og til þess að gefa fjárfestum betri yfirsýn yfir hvert fjármagn þeirra fer,“ segir Helga Melkorka Óttarsdóttir, lögmaður og einn eigenda LOGOS. Lögfræðistofan aðstoðar nú fjölmörg fyrirtæki að kynna sér og undirbúa fyrir væntanlegt regluverk um sjálfbærni.

„Þessi verkefni eru hluti af annars mjög fjölbreyttum verkefnum sem við vinnum fyrir viðskiptavini okkar. Við veitum fyrirtækjum lögfræðiþjónustu sem snýr að öllum sviðum svokallaðrar fyrirtækjalögfræði. Þetta er víðtæk lögfræðiþjónusta, og sem dæmi má nefna kaup og sala fyrirtækja, samkeppnisréttur, bankaréttur, persónuvernd, hugverkaréttur, skattamál og málflutningur, svo örfá dæmi séu nefnd.“

Alls vinna um 70 manns hjá fyrirtækinu, bæði í Reykjavík og hjá dótturfyrirtæki LOGOS í Bretlandi. Lögfræðistofan á rætur sínar að rekja allt aftur til 1907 þegar Sveinn Björnsson, síðar forseti Íslands, opnaði fyrstu lögmannsstofu landsins.

Góð samvinna milli landa

„Það er oft þannig í verkefnum að það er bæði fólk hér í Reykjavík og Bretlandi að vinna í sama verkefninu. En að öðru leyti er þetta aðskilið en samvinna milli skrifstofanna er góð. Reksturinn hér heima er þó töluvert stærri en í Bretlandi.“

Helga segir fyrirtækið stöðugt vera leita lausna til þessa að bæta þjónustuna og hafa tækninýjungar síðustu ár spilað þar stórt hlutverk.

„Það eru alls konar áhugaverðar lausnir sem við höfum verið að innleiða svo sem ýmsir gagnagrunnar sem hægt er að sækja í og lausnir sem greina efni. Við erum að vinna í því að innleiða enn fleiri tæknilausnir til að auðvelda skjalavistun og bæta aðgengi viðskiptavina okkar að skjölum og gögnum.“

Mikill áhugi hjá laganemum

Mikil aðsókn er í lögfræðinám og er fagið kennt í fjórum háskólum á Íslandi. Spurð hvort hún finni fyrir áhuga hjá laganemum á starfi hjá LOGOS svarar Helga því játandi.

„Það er alltaf töluverð eftirspurn hjá laganemum að koma hingað að vinna og það voru óvenju margir laganemar að vinna hjá okkur í sumar og einnig núna í vetur. Þetta hefur verið mjög ánægjuleg samvinna við laganema. Það hefur atvikast þannig að mjög hátt hlutfall af þeim sem koma hérna inn sem laganemar ílengjast hér eftir útskrift. Þá hafa þeir fengið tækifæri til þess kynnast LOGOS og við að kynnast þeim.“

Hvað gerir LOGOS að eftirsóknarverðum vinnustað?

„Við höfum við það í forgrunni að starfsmönnum sem hér eru líði vel og séu ánægðir og að aðbúnaður og annað sé til fyrirmyndar. Hvað varðar lögfræðilegu verkefnin þá eru þau mjög fjölbreytt og mikið af áhugaverðum, skemmtilegum og krefjandi úrlausnarefnum,“ segir Helga.

Faraldurinn hafði lítil áhrif

Síðustu tvö ár hafa einkennst af Covid-faraldrinum. Helga segir aðspurð faraldurinn ekki haft víðtæk áhrif á starfsemi LOGOS. Góð samvinna hafi verið lykillinn að því að komast í gegnum faraldurinn.

„Covid hafði í rauninni sáralítil áhrif á reksturinn sem slíkan, þar sem við erum ekki með framleiðslu eða annað slíkt sem krefst mikillar nándar, að fólk þurfi að mæta á staðinn. Það er hægt að vera svo gott sem er hvar sem er og í faraldrinum nýttum við okkur það, það var töluvert mikil fjarvinna en þetta gekk ótrúlega vel held ég megi segja. Nú er starfsemin komin í svipað horf og fyrir faraldurinn en það er alltaf eitthvað um það núna að fólk vinni heima einhverja daga eða stöku daga eða dags parta og það er þá bara eftir samkomulagi. Stundum hentar það starfsfólki betur í tilteknum aðstæðum.“

Starfsfólkið verðmætasta auðlindin

Spurð hvað sé á döfinni hjá fyrirtækinu segir Helga að erfitt sé að ræða einstaka verkefni þar sem trúnaður ríkir milli þeirra og viðskiptavina. Af verkefnum sem er nýlega lokið nefnir hún að fyrirtækið hafa aðstoðað Símann við söluna á Mílu og Origo við söluna á Tempo. En söluandvirði Mílu og Tempo nam samtals 100 milljörðum króna sem gerir viðskiptin með þeim allra stærstu hér á landi síðustu árin.

„Í Mílu sölunni var stór hópur hér sem kom að því verkefni, það tók töluvert langan tíma í heildina. Þetta voru flókin viðskipti og að mörgu að hyggja. Þá vorum við að ljúka við vinnu fyrir Origo í sölunni á Tempo, þar sem þó nokkrir af okkar starfsmönnum komu að verkefninu. Annars erum við að vinna fjölmörg og fjölbreytt verkefni á hverjum tíma, þótt lítið sé hægt að segja fyrr en verkefnunum er lokið.“

Helga segir það mikilvægt fyrir fyrirtækið að vera í hópi framúrskarandi fyrirtækja en fyrirtækið hefur verið lista Creditinfo frá árinu 2016.

„Við lítum þannig á að við séum í fremstu röð í því að selja lögfræðiþjónustu og erum stolt af því og við leggjum okkur alltaf fram við það sem við gerum. Hér er alveg ótrúlega flottur hópur starfsfólks, sem er verðmætasta auðlind fyrirtækisins. Það eykur traust og styrk fyrirtækisins.“

Viðtalið í Morgunblaðinu.

Sérfræðingarnir okkar

Tengdar greinar