Óþarfa umbúðir skotspónn nýrrar reglugerðar

Í tilefni af sjálfbærniviku LOGOS verða send daglega út fréttabréf um sjálfbærnimál á þá sem eru skráðir á póstlista hjá stofunni. Í fréttabréfi dagsins er fjallað um nýja reglugerð Evrópusambandsins um umbúðir og umbúðaúrgang sem stuðla á að aukinni samræmingu.

Höfundur: Helga Melkorka Óttarsdóttir
Grænt laufblað á bylgjupappa

Í farvatninu er ný reglugerð Evrópusambandsins um umbúðir og umbúðaúrgang (Regulation on Packaging and Packaging Waste) sem verður, í framhaldi af formlegri afgreiðslu, tekin upp í EES-samninginn.

Nýja reglugerðin mun stuðla að aukinni samræmingu. Margvíslegar kröfur verða gerðar til framleiðenda, birgja, innflutningsaðila, dreifingaraðila og afhendingarfyrirtækja (e. fulfillment service providers). Þannig mun hún koma til með að snerta alla þá sem fást við umbúðir, eða varning í umbúðum, í starfsemi sinni, með einum eða öðrum hætti.

Reglugerðin er ein þeirra lagagerða sem leiða af Græna sáttmála Evrópusambandsins (e. Green deal). Hún er talin gegna lykilhlutverki í sjálfbærnivæðingu Evrópu. Í henni eru sett fram markmið um að dregið verði úr umbúðaúrgangi, svo nemi 5% frá árinu 2018 til ársins 2030, 10% fyrir árið 2035 og loks 15% fyrir árið 2040.

Lykilþáttum reglugerðarinnar má skipta í fernt samkvæmt þeim drögum sem liggja fyrir. Í fyrsta lagi eru settar fram sjálfbærni- og framleiðslukröfur, í öðru lagi felur hún í sér reglur um endurnýtingu og endurvinnslu, í þriðja lagi boðar hún skyldu til að bjóða upp á skilagjaldskerfi og í fjórða lagi kveður hún á um takmarkanir sem settar verða á notkun ákveðinna tegunda umbúða. Hún setur því reglur um umbúðir allt frá því að þær eru framleiddar, meðan þær eru notaðar og þar til þeim er fargað. Hér verður stiklað á stóru um efni hennar.

Sjálfbærni og framleiðslukröfur

- Allar umbúðir skulu verða endurvinnanlegar fyrir árið 2030.

- Þak verður sett á leyfilegt magn heilsuspillandi efna í umbúðum, t.a.m. PFAS og BPA.

- Til þess að sporna gegn sóun er sett sú regla að ekki skuli vera meira en 50% autt rými í umbúðum, einkum flutningsumbúðum og safnumbúðum.

- Hámark verður sett á þyngd og umfang umbúða.

Endurnýting og endurvinnsla

- Lágmarkshlutfalli endurnýtanlegra umbúða í umferð skal náð fyrir árið 2030; með áherslu á flutningsumbúðir, safnumbúðir (e. grouped packaging) og drykkjarumbúðir.

  • Drykkjarumbúðir fyrir viðkvæma drykki á borð við vín og mjólk verða undanþegnar.
  • Pappakassar verða almennt undanþegnir,
  • Umbúðir utan um hættulegan varning verða undanþegnar.
  • Umbúðir í beinni snertingu við matvæli verða almennt undanþegnar.

- Skylda verður lögð á skyndibitastaði og aðra staði sem selja mat eða drykk út í hönd, til að leyfa neytendum að mæta með eigin ílát án sérstaks endurgjalds.

Skilagjaldskerfi

- Aðildarríkin verða öll skylduð til að bjóða upp á skilagjaldskerfi sem hvetur neytendur til að skila inn einnota drykkjarumbúðum (dósum og flöskum) til endurvinnslu. Sett er fram markmið um að 90% skilagjaldsskyldra umbúða sem hent er, skili sér með þessum hætti í endurvinnslu á ársgrundvelli.

Takmarkanir settar á ákveðna tegund umbúða

- Eftirfarandi umbúðir verða bannaðar frá og með 1. janúar 2030:

  • einnota plastumbúðir fyrir ávexti og grænmeti,
  • einnota plastumbúðir fyrir önnur matvæli eða drykkjarföng,
  • einnota plastumbúðir fyrir krydd og sósur á veitingahúsum,
  • einnota plastumbúðir fyrir snyrti- og hreinlætisvörur á hótel- og gistihúsum.

Reglugerðin mun taka til allra umbúða sem staddar eru innan Evrópusambandsins, og síðar Evrópska efnahagssvæðisins.

Reglugerðin er ekki fyrsta dæmið um regluvæðingu á þessum vettvangi, en hún tekur við af tilskipun Evrópusambandsins frá árinu 1994 um umbúðir og umbúðaúrgang nr. 94/62/EC, með síðari breytingum. Ýmis atriði eru áþekk þeim sem komu fram í tilskipuninni og fela því ekki í sér mikla breytingu, til að mynda hefur Ísland lengi verið með skilagjaldskerfi. Þó eru önnur atriði ný af nálinni og þess virði að kynna sér betur.

Skynsamlegt kann að vera fyrir fyrirtæki að huga strax að þeim skorðum sem reglugerðin mun setja þeim í viðskiptum við Evrópu og tryggja að umbúðir þeirra samrýmist kröfum reglugerðarinnar. Mörg fyrirtæki taka reglugerðinni fagnandi þar sem samræmdar reglur ættu að einfalda reglufylgni og viðskipti yfir landamæri.

Hér má sjá drögin að reglugerðinni.

Sérfræðingarnir okkar

Tengdar fréttir og greinar