Gagnsæiskröfur nýs evrópsks staðals um græn skuldabréf

Í tilefni af sjálfbærniviku LOGOS verða send daglega út fréttabréf um sjálfbærnimál á þá sem eru skráðir á póstlista hjá stofunni. Í fréttabréfi dagsins er fjallað um fyrsta græna skuldabréfastaðal Evrópusambandsins.

Glerháhýsi inni í skógi

Þann 22. nóvember 2023 var samþykkt ESB reglugerð 2023/2631 sem fjallar m.a. um evrópskan grænan skuldabréfastaðal („EuGB Reglugerðin“) og tekur hún gildi þann 21. desember 2024. Er þetta fyrsti staðall sinnar tegundar á vettvangi Evrópusambandsins, en hingað til hefur verið stuðst við staðla sem komið hafði verið á fyrir tilstilli einkaaðila. Notkun staðalsins við útgáfu grænna skuldabréfa verður valkvæð fyrir útgefendur, a.m.k. til að byrja með.

Markmiðið að stuðla að frekari þróun og lágmarka röskun

Græni skuldabréfastaðallinn leggur grunninn að sameiginlegum ramma reglna fyrir notkun sérstakrar EuGB merkingar fyrir skuldabréf sem vinna að sjálfbærum markmiðum, eins og þau eru skilgreind í flokkunarreglugerð ESB (e. taxonomy).

Meginmarkmið skuldabréfastaðalsins er að stuðla að frekari þróun á evrópskum markaði fyrir græn skuldabréf ásamt því að lágmarka röskun á mörkuðum grænna skuldabréfamarkaða sem fyrir eru. Staðallinn er liður í aðgerðaráætlun ESB undir hinum svokallaða græna sáttmála Evrópusambandsins um það hvernig eigi að ná markmiðum Parísarsamningsins um loftslagsbreytingar og draga úr hættunni á grænþvotti (e. green washing).

Kröfur til að efla traust og gagnsæi

Óvissa, skortur á trausti og trúverðugleika hefur lengi vel háð grænum skuldabréfamörkuðum. Ekki er ólíklegt að í ókominni framtíð verði skuldabréfastaðallinn grundvöllur allra grænna skuldabréfaútgáfa sem tekin verða til viðskipta og/eða markaðssett innan evrópska efnahagssvæðisins.

Til viðbótar við núgildandi viðvarandi- og atviksbundnar gagnsæiskröfur sem gerðar eru til útgefenda skuldabréfa, leggur evrópski græni skuldabréfastaðallinn frekari „grænar“ gagnsæiskröfur á útgefendur grænna skuldabréfa. Kröfurnar miða að því að efla fjárfestavernd, traust og gagnsæi í tengslum við grænar skuldabréfaútgáfur. Í þeim felst m.a. eftirfarandi:

  • Upplýsingablað, úttekt og lýsing: Stöðluð upplýsingagjöf fyrir útgáfu og jákvæð úttekt utanaðkomandi grandskoðunaraðila (e. external reviewer). Útgefendur skulu einkum gefa út lýsingu í samræmi við lýsingarreglugerð Evrópusambandsins.
  • Reglulegar skýrslur eftir útgáfu: Ráðstöfunarskýrsla á 12 mánaða fresti frá útgáfudegi skuldabréfsins þar til fjármununum sem aflað var með sölu skuldabréfanna hefur verið ráðstafað til fulls. Skýrslan er stöðluð og skal tiltaka þess til hvaða verkefna fjármunirnir rötuðu.
  • Áhrifaskýrsla: Áhrifaskýrsla (e. European Green Bond impact report) sem útgefandi skal gefa út eftir að fjármununum sem aflað var með sölu skuldabréfanna hefur verið ráðstafað til fulls. Skýrslan er stöðluð og skal greina frá umhverfislegum áhrifum þeirra verkefna sem fjármögnuð voru með skuldabréfaútgáfunni.
  • Opinber birting: Útgefanda ber að birta ofangreindar upplýsingar opinberlega á heimasíðu útgefandans auk þess að tilkynna evrópsku verðbréfaeftirlitsstofnuninni (ESMA) um allt ofangreint.

Hér hafa í stuttu máli verið reifaðar helstu „grænu“ gagnsæiskröfur sem útgefenda grænna skuldabréfa verður gert að hlíta samkvæmt EuGB reglugerðinni um evrópska græna skuldabréfastaðlinn. Rétt er að taka fram að reglugerðin er til skoðunar hjá EFTA ríkjum og gera má ráð fyrir hún verði tekin upp í samninginn um evrópska efnahagssvæðið í kjölfarið og innleidd í íslenskan rétt.

Sérfræðingarnir okkar

Tengdar fréttir og greinar