Nýjar áherslur kalla á fyrirhyggju í framleiðslu

Í tilefni af sjálfbærniviku LOGOS verða send daglega út fréttabréf um sjálfbærnimál á þá sem eru skráðir á póstlista hjá stofunni. Í fréttabréfi dagsins er fjallað um tilskipun um rétt til viðgerða og reglugerð um visthönnun.

Höfundur: Helga Melkorka Óttarsdóttir
Bilaðir farsímar á borði sem verið er að gera við

Evrópuþingið hefur staðfest drög að tveimur nýjum lagagerðum sem tengjast náið og gera sérstakar kröfur til framleiðenda sem framleiða vörur fyrir neytendur, en þeim er ætlað að sporna gegn sóun. Lagagerðirnar bíða nú formlegrar afgreiðslu.

Annars vegar er um að ræða tilskipun um rétt til viðgerða (e. Right to Repair Directive) og hins vegar reglugerð um visthönnun (e. Ecodesign for Sustainable Products Regulation). Báðar leiða þær af Græna sáttmála Evrópusambandsins (e. Green Deal).

Tilskipunin um rétt til viðgerða

Markmið tilskipunarinnar er að auka aðgengi neytenda að viðgerðarþjónustu og hvetja þá til að velja viðgerð fram yfir endurnýjun.

Vænst er að tilskipunin skapi grundvöll fyrir aukna samkeppni á viðgerðarmarkaði og endursölumarkaði.

Tilskipunin mun einungis ná til afmarkaðra vörutegunda en miðar að því að auka bætanleika (e. repairability) þeirra, bæði meðan á ábyrgðartíma framleiðanda stendur, og eftir að sá tími rennur sitt skeið. Dæmi um vörur sem tilskipuninni er ætlað að ná til eru heimilistæki, snjallsímar, sjónvörp o.fl. sambærileg tæki.

Framleiðendum verður skylt að bjóða upp á viðgerð þegar vörur frá þeim bila, að því gefnu að slíkt sé ekki kostnaðarsamara en endurnýjun. Þá kynnir reglugerðin til leiks samræmt upplýsingaeyðublað um viðgerðarþjónustu sem framleiðendur skulu gera aðgengileg neytendum. Loks verður komið á fót vettvangi á netinu sem Evrópusambandið mun halda úti og er ætlað að auðvelda aðgengi að viðgerðaraðilum.

Ef gera þarf við vöru meðan hún er í ábyrgð, mun ábyrgð framleiðandans lengjast um 12 mánuði til viðbótar.

Loks er gert ráð fyrir því að aðildarríkin innleiði viðurlög vegna brota á þeim reglum sem leiða af tilskipuninni.

Aðildarríki Evrópusambandsins fá 2 ár til að innleiða efni tilskipunarinnar, eftir að hún hefur hlotið formlega staðfestingu.

Reglugerð um visthönnun

Undanfarin ár hefur verið í gildi tilskipun um visthönnun, og á grundvelli hennar hafa verið settar nokkrar reglugerðir sem gera ýmsar kröfur til visthönnunar orkutengdra vara. Markmið tilskipunarinnar hefur verið að draga úr umhverfisáhrifum og ná fram orkusparnaði.

Með væntanlegri reglugerð verður gildissvið visthönnunar útvíkkað verulega, þannig að kröfur til visthönnunar muni ná til nánast allra vörutegunda.

Reglugerðin kemur á fót ramma sem leggur grunninn að frekari reglusetningu fyrir einstaka vöruflokka. Reglurnar eiga að stuðla að því að gera vörur áreiðanlegri, endingarbetri, endurvinnanlegri og bætanlegri, vistvænni og orkusparnari.

Þá verður með reglugerðinni lagt bann við förgun óselds fatnaðar, hvort sem það er vefnaðarvara eða skófatnaður. Sambærilegt bann kann svo að verða víkkað út og látið ná til fleiri vörutegunda. Þá verða einnig settar fram kröfur um sjálfbærni í innkaupum.

Loks boðar reglugerðin stafrænt vöru-skilríki (e. digital product passport) sem mun innihalda upplýsingar um sjálfbærni hverrar vöru.

Tengslin milli visthönnunar og réttarins til viðgerða

Í reglugerðinni um visthönnun er töluverð áhersla lögð á tiltekna eiginleika vara, einkum endingu og bætanleika. Þær kröfur eru því nátengdar þeim áherslum sem boðaðar eru með tilskipuninni um rétt neytenda til viðgerða. Nánari útfærsla verður svo sett fram á grundvelli rammans sem reglugerðin um visthönnun veitir, og skapast þannig samspil milli tilskipunarinnar og reglugerðarinnar.

Evrópusambandið skapar með þessu þrýsting úr ólíkum áttum sem er ætlað að leiða til minni sóunar og breyttra áherslna í framleiðslu. Reynt er að skapa hvata fyrir neytendur til að velja vistvænni vörur, samhliða því að beina fyrirtækjum í átt að því að framleiða slíkar vörur.

Við vöruhönnun og framleiðslu kann því að vera æskilegt að beita fyrirhyggju og leggja áherslu á að framleiða vörur sem bæði endast lengi og sem einfalt verður að gera við.

Sérfræðingarnir okkar

Tengdar fréttir og greinar